132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[16:20]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni um að fara eigi varlega þegar verið er að skipa málum þjóðkirkjunnar. Ég tel að í þessu frumvarpi felist ekkert um að sóknarprestum eigi eftir að fækka, það leiði ekki af neinu því sem hér er verið að ákveða. Hér er verið að ákveða að taka út þá skiptingu á kjördæmum kirkjuþings sem miðuð er við prófastsdæmi. Ekki er neitt fjallað um sóknarpresta eða fjölda þeirra í þessu frumvarpi. Ég hef heldur ekki orðið var við það hjá kirkjunni að hún gangi þannig fram til verks að hún átti sig ekki á skyldum sínum við hinar dreifðu byggðir og nauðsyn þess að halda þar uppi þjónustu.

Mér finnst hins vegar meginsjónarmiðið í þessu frumvarpi vera það sem kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að annaðhvort felum við kirkjunni að annast sín mál eða við felum henni það ekki. Hvers vegna skyldum við hér hafa meira vit á því eftir að reynsla hefur fengist á framkvæmd þessara laga síðan 1997 hvort málum skuli skipað eins og þau eru nú í 21. gr. varðandi kirkjuþingið eða á þann veg sem kirkjuþingið sjálft kýs og ætlar að sé betra fyrir starfsemina sem þar fer fram?

Síðan eru tengsl á milli 18. gr., sem hv. þm. Jón Bjarnason vék að, og 21. gr. sem verið er að breyta í þessum lögum, eins og segir í athugasemd um 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Lagt er til að ákvæði 18. gr. laganna verði einfaldað frá því sem nú er þó efnisbreyting sé lítil. Er það nauðsynlegt vegna samhengis við önnur ákvæði frumvarps þessa. Samkvæmt því verði afnumin upptalning prófastsdæma. Kirkjuþing ákveði skipan vígslubiskupsumdæma eins og verið hefur.“

Það er þetta sem verið er að gera með þessu frumvarpi. Ekki er verið að hrófla neitt við grundvallarstarfsemi þjóðkirkjunnar um landið allt heldur er verið að fjalla um það í frumvarpinu hvernig menn kjósa fulltrúa á kirkjuþing. Ef hv. nefnd getur lokið yfirferð sinni á frumvarpinu á næstu dögum þá er það af hinu góða miðað við gildistökuákvæðið en það er að sjálfsögðu ekki neitt meginatriði í þessu hvort það er 1. janúar eða einhvern tíma síðar á árinu 2006. Aðalatriðið varðandi þær tímasetningar er spurningin um hvort unnt verði að kjósa til næsta kirkjuþings samkvæmt hinum nýju reglum eða ekki. Ég mundi því æskja þess að hv. nefnd hraðaði afgreiðslu málsins með það í huga en ekki endilega með dagsetninguna 1. janúar 2006.