132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[16:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þjóðkirkjan er ríkiskirkja, a.m.k. enn, og ég sé enga sérstaka ástæðu til að flýta fyrir þeim breytingum að hún verði það ekki áfram. Þar af leiðandi er mjög eðlilegt að þingmenn hafi skoðun á því hvernig málum hennar er skipað þó að sjálfsögðu sé eðlilegt að hún hafi stærstan rétt á að gera tillögur þar um.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að samkvæmt 18. gr. hefur kirkjuþing nú þegar heimild til að ákveða skipan vígslubiskupsembætta sem var breyting frá hinni gömlu skipan Hóla- og Skálholtsbiskupsdæma þannig að í sjálfu sér er ekkert sem rekur á eftir þessu. Þær breytingar sem verið er að leggja til í 21. gr. eru hins vegar vægisbreytingar, þ.e. að kirkjuþingsfulltrúar verði kosnir með öðrum hætti inn. Sá háttur er að breyta kjördæmaskipuninni þannig að vafalaust verði farið meira eftir fólksfjölda varðandi skipan kirkjuþings, verið er að breyta væginu þar. Ég hef vissan skilning á því sjónarmiði en vil líka draga fram hin sjónarmiðin sem vilja oft að mínu viti gleymast eða ekki fá þær áherslur sem eðlilegt er, hvort sem er í þessu máli eða öðru, sem er dreifbýlið með dreifðri byggð og líka með takmarkaðri annarri opinberri þjónustu, félagsþjónustu, menningarþjónustu. Þá horfir maður til þeirra starfa sem ríkið er þegar ábyrgt fyrir úti í hinum dreifðu byggðum og (Forseti hringir.) ber að halda í sem kostur er (Forseti hringir.) og ætti þess vegna að vera á varðbergi gagnvart þeirri vægisbreytingu sem hér er verið að leggja til, herra forseti.