132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:32]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hreyfing sé komin á þennan málaflokk og að nú standi til að taka aukið tillit til heimilisofbeldis í löggjöf okkar. Að stórum hluta má þakka það hinum frjálsu félagasamtökum sem hafa verið mjög iðin að benda stjórnvöldum á galla í löggjöfinni hvað þetta varðar. Ég held að málflutningur þeirra hafi snert okkur öll og að mörg okkar hér inni hafi látið sannfærast af rökum þeirra um að löggjöfin þurfi að endurspegla betur raunveruleikann sem blasir við.

Með frumvarpinu fylgja verklagsreglur ríkislögreglustjóra og ég fagna því að slíkar reglur séu settar. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni frá 2. nóvember 2003 kom fram að í íslenskri löggjöf sé ekki að finna ákvæði sem skilgreini heimilisofbeldi. Þar er ekki heldur að finna upplýsingar um hvenær beri að flokka háttsemi með þeim hætti. Hugtakið heimilisofbeldi var þar af leiðandi, samkvæmt svari hæstv. ráðherra, ekki notað í gögnum lögreglu, ákæruvalds eða dómstóla sem formleg skilgreining á broti. Í svarinu kom einnig fram að þar sem málum sé svo háttað séu hvorki til fullnægjandi gögn um fjölda tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi né upplýsingar um lyktir þeirra mála hjá hinu opinbera. Það er vonandi að betri skráning og meðferð heimilisofbeldismála hjá ríkislögreglustjóra bæti úr skorti á upplýsingum sem að mínu mati eru mjög nauðsynlegar fyrir okkur öll.

Réttarstaðan er varðar heimilisofbeldi er að mínu mati sérstök þar sem heimilisofbeldi sem hugtak er ekki nefnt í hegningarlögunum og það er hvergi skilgreint. Að mínu mati er heimilisofbeldi, ef svo má segja, týndur brotaflokkur í kerfinu. Núgildandi ákvæði almennra hegningarlaga eru ekki fullnægjandi að því er varðar slíkt ofbeldi. Sá sem verður fyrir heimilisofbeldi þarf oftast að þola ofbeldi af öllu tagi, andlegt, líkamlegt og kynferðislegt, og markar það að nokkru leyti sérstöðu þessara brota. Ég hef talið þörf á lagaákvæði sem nær heildstætt yfir þessi brot þar sem núgildandi ákvæði ná ekki að öllu leyti yfir eðli, umfang og raunverulegar afleiðingar heimilisofbeldis.

Vegna þessa flutti ég í fyrra, ásamt nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar, þingsályktunartillögu um að löggjafinn mundi beita sér fyrir að sett yrði lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi með heildstæðum og fullnægjandi hætti. Þar óskaði ég eftir að Alþingi mundi álykta að fela dómsmálaráðherra að undirbúa í samráði við refsiréttarnefnd framlagningu lagafrumvarps sem hefði það að markmiði að í almennum hegningarlögum verði á skýran hátt tekið á brotum er flokkast undir heimilisofbeldi.

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig sem stjórnarandstöðuþingmann að viku eftir framlagningu þessarar þingsályktunartillögu fór hæstv. dómsmálaráðherra af stað og bað refsiréttarnefnd að skoða hegningarlögin með það í huga hvort nauðsyn væri á sérstöku lagaákvæði sem tæki á heimilisofbeldi eða hvort bæta mætti núgildandi lagaákvæði. Refsiréttarnefnd skilaði síðan ágætri skýrslu nú í haust og í kjölfarið leggur hæstv. dómsmálaráðherra þetta frumvarp fram. Það er ánægjulegt að hann skuli gera það og ánægjulegt að því leyti að nú verður væntanlega gerður greinarmunur á hefðbundinni líkamsárás, samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga, sem lýtur að minni háttar líkamsárás, eins og það heitir, og heimilisofbeldi sem dæmt er eftir sömu grein í mörgum tilvikum.

Ég hef talið að með sérstöku lagaákvæði um heimilisofbeldi væri komið til móts við þá þekkingu sem nú liggur fyrir um ofbeldi af því tagi. Sömuleiðis væri með því komið til móts við athugasemdir frá 23. maí 2004 frá nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem starfar samkvæmt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þess efnis að Ísland ætti að taka upp löggjöf um heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi er samkvæmt skilgreiningu Samtaka um kvennaathvarf þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og skjóli tilfinningalegrar, félagslegrar og fjárhagslegrar bindingar. Sá sem ofbeldinu beitir getur, samkvæmt skilgreiningunni, verið maki, fyrrverandi maki, foreldri, barn eða aðrir tengdir þolandanum fjölskylduböndum. En að sjálfsögðu eru til aðrar skilgreiningar á heimilisofbeldi og ég geri mér alveg grein fyrir að það getur verið flókið að skilgreina slíkt ofbeldi í löggjöf, en það er m.a. notað sem röksemd gegn því að farin sé sú leið að setja sérstakt lagaákvæði um það.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að heimilisofbeldi gegn maka er í eðli sínu kynbundið og þarf að liggja fyrir skilningur á því hvað heimilisofbeldi er til þess að unnt sé að taka á því með skilvirkum hætti. Þó er ljóst að mínu mati að heimilisofbeldi getur birst í mörgum myndum og gerendurnir geta verið mjög ólíkir, jafnvel uppkomin börn aldraðra foreldra.

Í heimilisofbeldismálum sem koma fyrir dómstóla er einna helst dæmt eftir ákvæði 217. og 218. gr. almennra hegningarlaga þar sem mælt er fyrir um refsingar fyrir líkamsmeiðingar. En eins og við vitum öll getur verknaðurinn verið af mjög ólíkum toga. Innan heimilisofbeldis getur verið um að ræða hótanir, nauðung, frelsissviptingu, einangrun, kúgun, líkamsmeiðingar, innbrot, ærumeiðingar, kynferðisbrot, nauðgun o.fl. Ólík ákvæði almennra hegningarlaga geta því tekið til þessara brota án þess að þau nái að öllu leyti yfir verknaðinn.

Eins og fyrr segir er 217. og 218. gr. almennra hegningarlaga fyrst og fremst beitt í málum er varða heimilisofbeldi. En áhöld eru um hvort þau ákvæði ein og sér nægi til að taka á því. Þessar greinar virðast helst eiga við um ofbeldisbrot karlmanna gagnvart öðrum körlum sem eiga sér helst stað utan dyra milli tveggja ókunnugra aðila. Það á síður við ofbeldi sem konur og börn verða fyrir sem á sér iðulega stað innan veggja heimilisins og getur falist í langvarandi niðurlægingu og þá jafnvel án sjáanlegra áverka.

Í dómaframkvæmd er refsing vegna brota á þessum ákvæðum miðuð við þá aðferð sem beitt er og áverkana sem þolandi hlýtur, svo sem beinbrot. Ákvæði 217. gr. og 218. gr. almennra hegningarlaga gera almenna kröfu um heilsutjón af valdbeitingunni. Jónatan Þórmundsson prófessor segir í bók sinni Afbrot og refsiábyrgð I frá 1999 að þrátt fyrir að 217. gr. sé á mörkunum að vera tjónsbrot (tilteknar afleiðingar áskildar fyrir refsinæmi) og samhverft brot (verknaður refsinæmur án tillits til afleiðinga) þá séu líkamsmeiðingar samkvæmt greininni hugsaðar sem tjónsbrot. En þá eru ákveðnar afleiðingar áskildar fyrir refsinæmið. Í dómaframkvæmd hefur áherslan verið á beina líkamlega áverka og aðferðina við verknaðinn en það á ekki eins vel við þegar kemur að heimilisofbeldi.

Refsing samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga annars vegar og samkvæmt 218. gr. hins vegar er mjög mismunandi. Samkvæmt 217. gr. getur fangelsisdómur verið allt að einu ári en samkvæmt 218. gr. getur dómur orðið allt að 16 ára fangelsi. Eftir því sem líkamlegir áverkar eru meiri eða aðferð hættulegri eru meiri líkur á að háttsemin eigi við 218. gr. hegningarlaga. Heimilisofbeldi getur hins vegar verið mjög alvarlegt án mikilla líkamlegra afleiðinga og án hættulegra aðferða og þá getur legið talsvert lægri refsing fyrir slíkt ofbeldi samkvæmt núgildandi lagaákvæðum. Það er vonandi að þetta frumvarp breyti þessu.

Þegar dæmt er fyrir heimilisofbeldi á ekki að skipta öllu máli hvort þolandinn hljóti marbletti eða beinbrot. Líkamlegir áverkar þolandans eru ekki endilega rétt mælistika á alvarleika þessara brota og aðferð gerandans við heimilisofbeldið á ekki að skipta höfuðmáli við mat á alvarleika brotsins. Líta má á heimilisofbeldi sem brot gegn friðhelgi þolandans. Þolandinn er ekki óhultur á eigin heimili og þarf að lifa í stöðugum ótta við að verða fyrir ofbeldi af hálfu maka eða foreldris. Þolandi býr þá í fjötrum ofbeldis og andlegrar kúgunar. Þá er vandamálið yfirleitt falið utanaðkomandi einstaklingum því gerandinn og þolandinn eru tengdir tilfinningaböndum og skömmin af athæfinu leiðir til þess að erfitt getur verið að brjótast undan okinu.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Svíar hafa tekið þessi mál mjög til skoðunar. Svíar hafa skilgreint sérstakt „kvinnofridsbrot“ sem þýða mætti sem brot gegn friðhelgi kvenna. Í sænsku hegningarlögunum er að finna ákvæði um ofbeldi manns gagnvart maka eða öðrum nákomnum en þar er m.a. fjallað um brot gegn heilsu og lífi, brot gegn friðhelgi og kynferðisbrot en allt eru þetta brot sem þolendur heimilisofbeldis geta orðið fyrir. Sömuleiðis er litið til þess hvort verknaðurinn sé liður í endurtekinni vanvirðingu á friðhelgi manneskjunnar og skaði alvarlega sjálfsmynd hennar. Svíar hafa farið þá leið að nálgast heimilisofbeldi sem hluta af því vandamáli sem ofbeldi á konum almennt er og virðist sem yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn konum hafi verið höfð til hliðsjónar. Leitast er við að vinna gegn og taka á líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi sem konur verða fyrir sakir kynferðis síns. Undirliggjandi forsenda þess að þetta varð hluti af sænsku hegningarlögunum er áhersla á alvarleika þeirra brota sem beinast gegn maka. Það er einnig rétt að minnast þess að Norðmenn hafa skoðað setningu sérstaks lagaákvæðis um heimilisofbeldi eins og Svíar.

Heimilisofbeldi er eitt algengasta mannréttindabrot í heiminum og á sér því miður stað í öllum samfélögum. Heimilisiofbeldi var fyrst skilgreint sem mannréttindabrot á alþjóðavettvangi á mannréttindaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1993, en á ráðstefnunni voru ríkisstjórnir hvattar til að grípa til aðgerða til að sporna við ofbeldi gegn konum og tekið var fram að ekki megi réttlæta ofbeldið með vísan til siða, menningar eða trúar. Heimilisofbeldi má einfaldlega ekki líðast í skjóli friðhelgi heimilis og einkalífs og er mikilvægt að lögreglan átti sig á því. Löggjafinn þarf að nota öll möguleg úrræði til að ná utan um brot af þessu tagi. Löggjafinn þarf sömuleiðis að fylgja eftir þeirri stórauknu þekkingu sem nú liggur fyrir um þann raunveruleika sem þolendur heimilisofbeldis búa við.

Ekki alls fyrir löngu, eða árið 1991, leit rannsóknarlögregla ríkisins þannig á vandamál samfara heimilisofbeldi væru ekki refsiréttarlegs eðlis heldur fremur félagslegs eðlis.

Hugtök eins og „stormasöm sambúð“ heyrast þó enn þegar átt er við heimilisofbeldi, samanber nýlegan dóm Héraðsdóms Reykjaness nr. S923/2004. Þannig vottar jafnvel enn fyrir afar forneskjulegum viðhorfum hjá dómstólum landsins þegar þolandi heimilisofbeldis er jafnvel sagður eiga sök á ofbeldinu sjálfur.

Nú í 1. umr. um þetta mál vil ég taka það fram að ég fagna því að sett verði refsiþyngingarástæða séu gerandi og þolandi tengdir með einhverjum hætti. Við sjáum þá vonandi greinarmun á hefðbundnum líkamsárásum samkvæmt 217. gr. og síðan heimilisofbeldi sem dæmt er samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga. En það virðist vera þannig að flest heimilisofbeldismál lendi undir 217. gr. sem lýtur að minni háttar líkamsmeiðingum en ekki 218. gr. almennra hegningarlaga sem lýtur að meiri háttar líkamsmeiðingum, en það er að mínu mati vegna þeirrar áherslu sem lögð er á aðferðina og hinar líkamlegu afleiðingar. Það er vonandi að dómar framtíðarinnar fari að meta meira hið andlega tjón og felli það í frekara mæli undir 218. gr. en þeir hafa gert hingað til.

Við í allsherjarnefndinni munum að sjálfsögðu skoða röksemdir sem koma fram í frumvarpinu um af hverju sé ekki sérstakt lagaákvæði um heimilisofbeldi. Í frumvarpinu eru taldar upp ýmsar röksemdir og fjallað um af hverju þessi leið er farin. Það er líka mikilvægt að mínu mati að við skoðum fleiri þætti sem varða heimilisofbeldi, t.d. þann möguleika hvort við ættum að hafa opinberar ákærur í þessum málaflokki, í brotum sem varða 217. gr. þegar kemur að heimilisofbeldi. Lögreglumenn hafa iðulega bent okkur á að því miður virðast þolendur heimilisofbeldis oft vera það niðurbrotnir, það er búið að brjóta og skaða sjálfsmynd þeirra í þeim mæli, að lögreglan fær oft símtal daginn eftir frá viðkomandi þolanda þar sem hann biður lögregluna um að sleppa gerandanum. Það er spurning hvort við eigum ekki að hafa kerfi okkar þannig að það sé opinber ákæra í þessum málaflokki í ljósi þeirrar stöðu sem þolendur heimilisofbeldis eru iðulega í. Í hinum alvarlegri brotum hegningarlaganna grípur hið opinbera inn í með opinberum ákærum þannig að þær eru ekki lengur á forræði þolandans og það er að mínu mati umhugsunarefni hvort við ættum ekki að fara þá leið þegar kemur að heimilisofbeldi.

Við höfum einnig heyrt að ákvæðið um nálgunarbannið virki e.t.v. ekki eins og menn vildu og ég vildi gjarnan að við mundum skoða það í allsherjarnefndinni eða hvet þá hæstv. dómsmálaráðherra til að gera það, en ég hef heyrt það á ráðstefnum að bæði lögmenn og lögreglumenn sjá einhverja annmarka á því þó að ég þekki ekki nákvæmlega hverjir þeir eru.

Ég hef einnig verið afskaplega hlynntur hinni svokölluðu austurrísku leið sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur ítrekað lagt hér fyrir á þingi sem lýtur að því að taka ofbeldismanninn út af heimilinu í ákveðinn tíma og þolandanum er einfaldlega ekki heimilt að hleypa honum inn á heimilið á nýjan leik. Ég vona að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir komi aðeins inn á það frumvarp sitt hér á eftir því að þetta er afskaplega áhugaverð leið sem hefur tekist vel þar sem hún hefur verið farin, ef mig misminnir ekki hafa Norðmenn farið þá leið.

Heimilisofbeldi er eitthvað sem við þurfum öll að leggjast á eitt um að berjast gegn. Við þurfum öll að vinna saman þegar kemur að því að vinna gegn því. Við þurfum einfaldlega að setja þann málaflokk í pólitískan forgang. Við höfum séð það t.d. á Spáni þar sem ríkisstjórnin setti málefni heimilisofbeldis eða böl heimilisofbeldis á hina pólitísku dagskrá og forsætisráðherra Spánar talaði um að heimilisofbeldi væri böl á Spáni, að þeir hafa náð undraverðum árangri í baráttu sinni gegn heimilisofbeldi.

Við þurfum öll að starfa saman, sama í hvaða flokki við erum, hin frjálsu félagasamtök gegna lykilhlutverki í þessu að mínu mati. Þau samtök hafa staðið sig afskaplega vel með margs konar fundum og ráðstefnum og við þurfum einfaldlega að hafa löggjöfina þannig úr garði gerða að það sé alveg ljóst að Alþingi og löggjafanum sé fúlasta alvara með að ná tökum á þessu algengasta mannréttindabroti sem viðgengst hér á Íslandi sem heimilisofbeldi er. Það er einnig ánægjulegt að ríkislögreglustjóri hefur sett sér verklagsreglur, lögreglan þarf að vera fyllilega meðvituð um þau úrræði sem hún hefur. Við megum aldrei samþykkja það að heimilisofbeldi sé látið líðast í skjóli friðhelgi einkalífsins. Þá höfum við úrræði og lögreglan þarf að átta sig á því að hún hefur úrræði að grípa inn í þegar verið er að brjóta á konum, börnum eða öðrum einstaklingum inni á viðkomandi heimili. Það er mjög nauðsynlegt að þekkingin og löggjöfin sé þannig úr garði gerð að allir geti starfað eftir henni og að skilaboð þessarar löggjafarsamkundu séu alveg skýr að við munum ekki líða heimilisofbeldi, aldrei framar.