132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

371. mál
[17:55]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er hæstv. fjármálaráðherra að festa hér í lög það sem samið hefur verið um í almennum kjarasamningum, þ.e. um 2% hækkun á lágmarksiðgjaldi lífeyrissjóðanna, úr 10 í 12%, sem á að vera komin að fullu til framkvæmda 1. janúar 2007. Út af fyrir sig er það hið besta mál þó að upp komi spurningin: Hvað kostar þetta atvinnurekendur? Ég vil nota tækifærið til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það ef hann hefur þá tölu hér á hraðbergi. Eða að hvetja efnahags- og viðskiptanefnd til þess að það verði kannað þar hvað þessi 2% kosta. Ég held að þetta sé hið besta mál vegna þess að þetta styrkir okkar góðu lífeyrissjóði. Mig minnir að það hafi komið fram í fréttum í dag að við Íslendingar erum ríkari með okkar lífeyrissjóði en Norðmenn með sinn olíusjóð. Ég veit ekki hvernig það er reiknað en ég held að ég hafi heyrt þetta rétt í fréttum í dag og er að auðvitað ánægjuefni en þessir sjóðir okkar eru sérstaklega góðir.

Ég hefði gjarnan viljað sjá þessar tölur hækka meira og vil nota tækifærið og segja það hér. Ég hefði líka viljað sjá þær tölur hækka meira sem fara í séreignarsjóði, bæði með eigin framlögum og framlögum atvinnurekenda, vegna þess að það er sennilega besta leiðin til að auka sparnað í landinu. Og ekki veitir af. Væri kannski betra ef á þessum síðustu tímum hefði verið um hærri tölur að ræða þar og hefði þá kannski farið minna í þá ofboðslegu neyslu sem nú á sér stað í landinu, sem m.a. gerir fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra sem verið er að vinna með hér á hæstv. Alþingi svo mikið að nánast flæðir út úr ríkissjóði, þ.e. skattar og gjöld af hinum ofboðslega innflutningi og þessari ofboðslegu neyslu. Þetta segi ég vegna þess að svo virðist vera, virðulegi forseti, að við Íslendingar getum ekki hugsað okkur að fara þá leið sem margir aðrir gera, þ.e. að með auknum sparnaði og sparnaðarátaki fólks komi jafnvel skattaívilnun á móti, líkt og gert var hér fyrir mörgum árum. Mig minnir að það hafi heitið húsnæðissparnaðarreikningar sem síðast voru í gangi þar sem fólk gat lagt inn og fengið skattafslátt út á. Eða þegar fólk var í biðröðum á gamlársdag fyrir nokkrum árum að kaupa sér hlutabréf til að fá skattafsláttinn 1. ágúst árið eftir. Nú er það liðin tíð og ekki lengur gert.

Hér er líka, eins og kveðið er á um, virðulegi forseti, verið að auka veðsetningarhlutfall fasteigna, með tilliti til þess sem lífeyrissjóðirnir mega gera, úr 65% í 75% af metnu markaðsvirði. Jafnframt verið að auka heimildina úr 50% í 60% til að fjárfesta í hlutabréfum eða eins og segir hér: „Með því er sveigjanleiki lífeyrissjóða til frekari fjárfestinga í hlutabréfum aukinn sem auðveldar þeim að ávaxta fé sitt á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.“

Í athugasemdum með frumvarpinu er talað um að með breytingunum sé stefnt að því að lífeyrissjóðirnir nái sem mestri ávöxtun á fjármunum sínum með sem minnstri áhættu. Þetta eru allt saman göfug markmið. En ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, og segja að mér hefur oft fundist í sambandi við atvinnulíf okkar og uppbyggingu þess að lífeyrissjóðirnir megi bara alls ekki neitt, eins og að taka þátt í að kaupa hlutabréf í óskráðum félögum, í litlum fyrirtækjum úti á landi sem mörg hver berjast í bökkum og vantar meira af þolinmóðu hlutafé í staðinn fyrir dýrt lánsfé eða fá kannski hlutafé inn í staðinn fyrir lánsfé sem alls ekki er hægt að fá. Á þetta sennilega mest við um atvinnurekstur á landsbyggðinni. Það er að mínu mati ljóður á lífeyrissjóðskerfi okkar að lífeyrissjóðirnir skuli ekki geta komið betur að uppbyggingu eða stuðningi við atvinnulíf, sérstaklega á landsbyggðinni — ég geri ráð fyrir að ekki sé vandi að finna góða fjárfestingarkosti á höfuðborgarsvæðinu fyrir þau fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöllinni, sem flest hver eru á höfuðborgarsvæðinu að sjálfsögðu — vegna þess að ég held að t.d. að sjávarútvegsfyrirtækin sem skráð voru í Kauphöllinni áður og lífeyrissjóðir máttu kaupa í séu öll afskráð í Kauphöllinni nema kannski eitt. Mig minnir að HB Grandi sé þar inni enn þá.

Þetta á alveg eins við hvað varðar veðsetningarhlutfall fasteigna, að hækka það að metnu markaðsvirði, og það á náttúrulega sama við hvar sem er á landinu, sama hvort um er að ræða 60–70 millj. kr. eign á höfuðborgarsvæðinu eða 3–5 millj. kr. eign úti á landi sem oft og tíðum er jafnvel erfitt að fá lán til. Ég vildi aðeins leggja þetta inn í umræðuna, virðulegi forseti, og benda á þann mismun sem þarna er og kemur fram í, eins og ég hef tekið dæmi um, atvinnurekstri á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og lífi og möguleikum fólks á að fá lán úr lífeyrissjóði sínum eftir því hvort sem það býr á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Þar er mikill munur á.