132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[18:24]
Hlusta

Adolf H. Berndsen (S):

Frú forseti Það verður að játast að þetta er í sjálfu sér jákvætt frumvarp sem hér er á ferðinni. Hitt er það að ég sem starfandi sveitarstjórnarmaður á landsbyggðinni á svæði sem sannarlega hefur átt í vörn, hef áhyggjur af því að ekki sé horft nægjanlega til þessara byggða. Ég get sagt í því sambandi að fyrstu sex mánuði þessa árs var tekjusamdráttur í því sveitarfélagi um 8%. Þetta er tæplega 600 manna sveitarfélag og í því eru gerðir út tveir frystitogarar. Það er ekkert auðveldur veruleiki sem við stöndum frammi fyrir og á okkar svæði hefur sannarlega verið frekar erfitt en það á ekki bara við um Skagaströnd, þetta á við um fleiri byggðir .

Ég verð að játa það líka að það er ekki auðvelt að sjá hvernig þetta jákvæða frumvarp nýtist mörgum þessara litlu byggða þar sem ekki er mikið um opinberar byggingar. Ég treysti því að hæstv. félagsmálaráðherra beiti sér mjög í þá átt að styrkja stöðu þessara byggða.

Í sambandi við að ræða þá stöðu sem er í þessum byggðum þá er hún grafalvarleg vegna þess að það er ekkert auðvelt að draga saman þjónustu við íbúana. Þarna þarf sannarlega að taka á. Ég vil ekki trúa því að ráðamenn þessa lands muni ekki horfa til þess á næstunni að taka til í þeim málum.

Ég hefði viljað heyra frá hæstv. félagsmálaráðherra hvort einhverjar nýjar fréttir eru frá þeirri nefnd sem nú er að störfum með það í huga að breyta úthlutunum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, hvort sérstaklega sé horft til þessara veikari byggða þar.