132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

381. mál
[18:35]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það verður að gagnrýna það í upphafi umræðu um þetta mál hve seint það kemur fram og hve lítill tími gefst til þess að fjalla um það bæði í þingsölum og í þingnefnd. Þó að efni til sé þetta mál um greiðslukostnað við opinbert eftirlit og þær breytingar sem eiga sér stað frá ári til árs — og tengjast því fjárlagagerðinni með óbeinum hætti, það þarf að breyta þessu á hverju ári — þá koma hér fram viðamiklar upplýsingar um fjármálamarkaðinn yfirleitt sem full ástæða er til að ræða undir þessum dagskrárlið.

Ég hef haft skilning á því, frú forseti, á umliðnum árum og látið það koma hér fram að það þarf að búa vel að Fjármálaeftirlitinu eins og öðrum eftirlitsstofnunum. Eftirlitsstofnanir þurfa að hafa þann mannskap og aðbúnað sem nauðsynlegur er til þess að sinna eftirlitsskyldu sinni, ekki síst á fjármálamarkaðnum. Eins og við þekkjum hafa umsvif á fjármálamarkaði vaxið gífurlega ár frá ári og sá rökstuðningur sem Fjármálaeftirlitið setur fram fyrir þeirri aukningu sem hér er lögð til á fjármagni til starfseminnar er að mörgu leyti skiljanlegur. Ég hef ævinlega stutt þá breytingu sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt til í þessu efni. En, virðulegi forseti, hér er á ferðinni miklu, miklu meiri breyting en við höfum séð á umliðnum árum, sem kallar á skýringu. Við erum að tala um hækkun á eftirlitsgjaldi úr 298 milljónum í 424. Við erum að tala um 126 millj. kr. hækkun eða um 42,3%, sem er gífurlega mikil hækkun. Í frumvarpinu er sagt að 80 milljónir af þessu séu vegna fjölgunar á stöðugildum um fimm. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hækkun um tæp fimm stöðugildi, eða úr 35 í 39,7, kallar á 80 millj. kr. hækkun? Endurspeglast þarna kjörin sem eru almennt á fjármálamarkaðnum hjá stjórnendum og þeim sem hæst hafa launin í þessu þjóðfélagi? Þetta er gífurlega mikil hækkun og það hlýtur að kalla á skýringu þegar fimm stöðugildi kosta 80 milljónir og síðan eru 22 milljónir í rekstur. Til dæmis er ráðgerð rúmlega 400% hækkun á rekstri tölvubúnaðar.

Sú skýring sem hér er sett fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins er ekki boðleg. Þar sem verið er að réttlæta þessa aukningu á næsta ári segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega var gerð grein fyrir þessari auknu starfsmannaþörf hjá Fjármálaeftirlitinu í frumvarpinu til breytinga á verðbréfaviðskiptalögunum og í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.“

Síðan kemur orðrétt, með leyfi forseta:

„Segja má að löggjafinn hafi viðurkennt þessa auknu starfsmannaþörf við gildistöku laganna og taldi Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að bregðast strax við.“

Vegna þess að Fjármálaeftirlitið er líka að fara hér fram úr á þessu ári, m.a. með þessum skýringum.

Hinu vil ég þó halda til haga að á þessu var vakin athygli þegar við fjölluðum um lögin um verðbréfaviðskipti á sínum tíma, ætli það sé ekki um ár síðan. Þá var vakin athygli á því að með breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti væri um aukna fjárþörf að ræða. Fjármálaráðuneytið áætlaði að kostnaður, miðað við að þessi verðbréfalög tækju gildi um mitt þetta ár, væri um 15 millj. kr. Þar eru því alveg fullboðleg rök fyrir hækkun á gjaldinu en ekki það að Fjármálaeftirlitið líti svo á að með því að samþykkja lögin um verðbréfaviðskipti hafi það þar með fengið heimild til þess að fara fram úr og ráða starfsfólk til þess að geta mætt þeim auknu verkefnum sem voru m.a. í þeirri löggjöf. Það hefði auðvitað átt að taka tillit til þess þegar við samþykktum sambærilegt frumvarp á þessum tíma árs fyrir ári síðan og vakti ég einmitt athygli á því að þetta vantaði þar inn í varðandi Fjármálaeftirlitið.

Ég spyr því hæstv. ráðherra um skýringu á þessari miklu aukningu og sérstaklega vegna launaliðarins. Það er dregin hér fram mjög athyglisverð tafla á bls. 17 um rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd. Það er auðvitað mjög sláandi að Ísland hefur þar miklu lægri rekstrarkostnað, hlutfallslega aukningu, á umliðnum þrem, fjórum árum en önnur Norðurlönd, einkum Svíþjóð. Í Svíþjóð er um að ræða 34% aukningu en á Íslandi er um að ræða 8% aukningu. Röksemd Fjármálaeftirlitsins fyrir þessari aukningu, að það þurfi fjögur stöðugildi, get ég vel fundið stað. En, virðulegi forseti, ekki 80 milljónir vegna fjögurra stöðugilda. Það kallar á skýringu.

Ég hef stundum sagt hér að við eigum kannski að taka til endurskoðunar hvernig við fjármögnum Fjármálaeftirlitið með tilliti til sjálfstæðis þess. Hjá sumum Evrópuþjóðum er það ríkissjóður sem fjármagnar fjármálaeftirlitið einmitt með tilliti til sjálfstæðis þess. Mér þykir aðkoma eftirlitsskyldra aðila að löggjöf og regluverki sem snertir umgjörð þeirra sjálfra allt of mikil. Mér finnst þeir hafa of mikil ítök hér í reglugerðarsetningu og löggjöf sem e.t.v. má rekja til þess að þeir standa undir fjármögnun Fjármálaeftirlitsins. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki íhugað að ástæða sé til þess að skoða hvernig við fjármögnum þessa starfsemi.

Síðan hefði ég viljað, virðulegi forseti — fyrir utan þær athugasemdir sem ég geri hér og við förum auðvitað yfir í efnahags- og viðskiptanefnd — fara yfir ýmis atriði sem snúa að fjármálamarkaðnum. Atriði sem við höfum stundum rætt hér í þessum ræðustól, ég og hæstv. ráðherra, og ég hef ekki fengið fullnægjandi svör við. Ýmislegt hefur komið fram á síðasta ári og síðustu missirum sem snertir fjármálamarkaðinn sem ekki hefur verið tekið á í lögum og reglum og hefði ég gjarnan viljað að hæstv. ráðherra svaraði spurningum mínum þar um. Ég ætla að leyfa mér að vitna til þess í örstuttu máli og skal ekki taka langan tíma til þess. Ég veit að hæstv. ráðherra er tímabundin og hér er stefnt að atkvæðagreiðslu fljótlega.

Ég vil t.d. nefna þátttöku fjármálafyrirtækja í atvinnurekstri. Ég hef rætt það áður við hæstv. viðskiptaráðherra hvort ekki sé ástæða til að huga að þeirri lagaumgjörð sem er í kringum það. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins vakti t.d. athygli á því, þegar hann talaði fyrir ársskýrslu embættisins, að það væri brotalöm varðandi upplýsingar fjármálafyrirtækja um þátttöku í atvinnurekstri. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki að skoða þurfi löggjöfina og lagarammann sem er í kringum það. Ég held að það sé mjög mikilvægt og gæti rökstutt mitt mál ítarlega í því sambandi en tímans vegna ætla ég bara að drepa á þessu. Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að fjalla um þetta. Það kom einmitt fram hjá forstjóranum að fjármálafyrirtæki hefðu ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni sem skyldi í þessu efni.

Ég vil einnig nefna — eins og ég ræddi við ráðherrann fyrir u.þ.b. ári og mér fannst að ráðherrann ætlaði að skoða — hvort ekki væri rétt að Fjármálaeftirlitið fengi heimild til að beita sektum vegna innherjasvika. Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að beita stjórnvaldssektum við brotum er varða tilkynningaskyldu fruminnherja og birtingu upplýsinga um viðskipti fruminnherja og innherjaskrá en ekki heimild til að beita stjórnvaldssektum sem viðurlögum við innherjaviðskiptum. Ég man ekki betur en Fjármálaeftirlitið hafi kallað eftir slíkum heimildum og þær sé að finna í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Ef ég man rétt áleit hæstv. viðskiptaráðherra, þegar við fjölluðum um það fyrir ári síðan, að skoða þyrfti þessar heimildir sérstaklega og fara vandlega yfir viðurlög við efnahagsbrotum almennt. Ég spyr: Hver er staðan núna? Stöndum við í nákvæmlega sömu sporum og fyrir ári síðan eða hefur eitthvað verið gert í þessu máli?

Ég vil líka spyrja að öðru og það er nú í tilefni af svari sem hæstv. ráðherra gaf mér varðandi leikreglur á fjármálamarkaðnum. Ég kalla þær leikreglur siðlausan fjármálagjörning sem við erum farin að sjá hér á fjármálamarkaðnum. Þegar lykilstjórnendur fjármálastofnana eru farnir að kaupa hlutabréf í eigin banka og selja það síðan tveimur, þremur mánuðum síðar og græða hundruð milljóna — örfáir stjórnendur — á slíkum viðskiptum. Þetta er náttúrlega mjög óeðlilegt og hæstv. ráðherra hefur boðað að hún vilji skoða breytingar á þessu, t.d. með því að lengja eignarhaldstíma bréfanna. Ég spyr: Megum við eiga von á frumvarpi frá ráðherra hvað þetta varðar á þessu þingi? Er ráðherra að láta skoða það og yfirleitt aðgang stjórnenda að lánum hjá þeim bönkum sem þeir vinna hjá og kjör sem þeir fá á slíkum lánum? Það þarf að upplýsa slíkt mjög skýrt í ársreikningum þannig að gegnsæi sé í því eins og öðru á fjármálamarkaðnum. Mér finnst vera brotalöm í þessu í framkvæmd. Þar sem við erum að ræða hér um Fjármálaeftirlitið gefst tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra um þau atriði sem ég hef hér nefnt. Ég lýsi um leið lýsi óánægju minni með að við höfum ekki meiri tíma til að ræða almennt um fjármálamarkaðinn og þær miklu breytingar sem þar eiga sér stað núna. Ýmislegt markvert kom fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi sem ég hefði viljað ræða. En það er alltaf sama sagan, við fáum þetta mál inn með mjög stuttum fyrirvara og óvanalega seint nú á þessu þingi og því gefst lítill tími til þess að fjalla um fjármálamarkaðinn almennt, sem þarf auðvitað að gera, virðulegi forseti, hér úr þessum ræðustól.

Ég skal ekki tefja tímann lengur en ítreka spurningar mína til ráðherra, ítreka það að ég hef skilning á fjárþörf Fjármálaeftirlitsins en finnst nú aðeins keyra úr hófi fram. Ég hef takmarkaðan skilning á því að Fjármálaeftirlitið þurfi svona svakalega mikinn pening eins og hér er lagt til — 47% hækkun og þar af 80 milljónir í laun vegna fimm stöðugilda. Þetta þarf skýringar við og það þarf að fara betur yfir þetta í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar.