132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

381. mál
[19:03]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bregðast vel við því að taka þetta mál á dagskrá fyrr en kannski áætlað var, en ég vil líka segja að ég skil mjög vel að það sé gagnrýnt hversu seint málið kom fram. Það var vegna einhvers misskilnings á milli Alþingis og ráðuneytisins og ekkert annað að gera en biðjast afsökunar á því.

Ég skal vera fljót því að tíminn er naumur en það eru nokkur atriði sem ég vildi aðeins bregðast við, t.d. það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talar um og reyndar fleiri þingmenn að það er mikil hækkun á milli ára. Því er ekki hægt að neita og ég verð að viðurkenna að mér varð mjög bilt við þegar ég sá það. Það sem kannski er hægt að nefna sem skýringu er launaskrið og fjölgun stöðugilda eins og kemur fram og að halli á yfirstandandi ári reiknast líka þarna inn. Hægt er að nefna breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, eins og komið hefur fram í umræðunni, og kannski síðast en ekki síst útrás íslenskra banka sem hefur verið með ólíkindum á þessu ári og ekki nema gott um það að segja. Og talandi um þá starfsemi sem fram fer erlendis þá vil ég segja varðandi bankana sem hafa umsvif erlendis og eru með þá starfsemi í efnahagsreikningi hér á landi að þá er að sjálfsögðu innheimt hér. Við verðum að treysta því að svo sé. Ég held því að það vandamál sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á sé kannski ekki alveg eins augljóst og hann vildi vera láta.

Spurt er hvort þessi starfsemi og Fjármálaeftirlitið ætti ekki að vera á fjárlögum. Ég hef áður neitað því að svo skuli vera og held mig við það. Ég tel ekki rétt að fara þá leið og tel núverandi fyrirkomulag ágætt. Ég tel ekki að að samráðsnefndin sé of valdamikil og ég held að starfsemi Fjármálaeftirlitsins og reynslan sem við höfum af því sanni að þessi mál séu í ágætisfarvegi hjá okkur.

Síðan er spurt um þátttöku fjármálafyrirtækja í atvinnurekstri. Það er náttúrlega eitthvað sem skoða þarf á hverjum tíma og ég vitna til ræðu forstjóra á síðasta aðalfundi um það efni. Auðvitað erum við alltaf með þessi mál til skoðunar.

Um sektir vegna innherjasvika er þess að geta að innherjaviðskipti sem slík eru ekki refsiverð en hins vegar er annað upp á teningnum ef um svik er að ræða. Nefnd sem hæstv. forsætisráðherra skipaði er að störfum og fer yfir viðurlög. Nefndin hefur ekki skilað áliti en hún er að fara yfir mjög mikilvægt mál og ég vonast til að ekki líði langur tími þar til eitthvað fréttist af því nefndarstarfi.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi fyrirspurn þá sem hún lagði fram og ég svaraði. Verið er að skoða reglur erlendis hvað varðar innherjaviðskipti. Ég gat þess í því svari að fram kæmi frumvarp og meiningin er að það verði á vorþinginu.

Aðeins vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Hann taldi æskilegt að ráðuneytið kæmi hvergi að málum og kom með ýmis rök fyrir því. Ég held að þetta sé á einhverjum misskilningi byggt hjá hv. þingmönnum. Það er ekki svo að ráðuneytið hafi afskipti af starfsemi Fjármálaeftirlitsins, daglegum rekstri þess. Ég fullyrði það. Það kom líka fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að betra væri að Fjármálaeftirlitið heyrði undir þingið og eins Samkeppnisstofnun. Ég fullyrði að ekki væri eðlilega að málum staðið ef svo væri. Auðvitað eru þessar stofnanir hluti af framkvæmdarvaldinu og þær eru algerlega sjálfstæðar. Því verða hv. þingmenn að trúa. (Gripið fram í.) Það er ekki sanngjarnt að nefna einhver dæmi og álíta að einhver pólitísk hönd hvíli yfir þessari starfsemi. Það er mjög ósanngjarnt að bera slíkt á borð.

Það sem fram kemur í sambandi við áhættugrunn og áhættumat er fjallað um á bls. 20 í greinargerðinni. Það er hlutur sem alltaf er til skoðunar. Standard & Poor´s hafa gefið fjármálafyrirtækjum okkar mjög háa einkunn eins og alþekkt er. Við trúum því að ástæða sé til að hafa fullt traust á þeirri starfsemi sem er í gangi. En það er rétt að bankarnir eru meira í fjárfestingum hér en almennt gerist. Það eru ákvæði í lögum um fjárfestingar sem segja til um að þegar fjármálafyrirtæki kaupa í fyrirtækjum eigi það að vera til skamms tíma og bara á umbótatíma eða til endurskipulagningar á fyrirtækjum en ekki þannig að þau megi vera þar til allrar framtíðar. Hvort það eru nógu sterk ákvæði skal ég ekki segja um en ég endurtek hins vegar að þau eru til staðar.

Ég veit að tíminn er naumur en ég mun koma frekar inn á þessi mál við 2. umr. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni.