132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

381. mál
[19:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki boðlegt að ráðherra geri í örstuttri ræðu grein fyrir afstöðu sinni til stórra mála sem hún var spurð um, eins og þátttöku fjármálafyrirtækja í öðrum atvinnurekstri, um innherjasvik, um eignarhaldstíma stjórnenda á hlutabréfum og hvernig þeir hafa að mínu mati beitt sér þar fyrir fjármálagjörningum sem ég tel algerlega siðlausa og þurfi að taka á. Hæstv. ráðherra boðar að hún muni fara ítarlegar yfir þessi mál þegar málið kemur til 2. umr. Ég ætla að sætta mig við það í ljósi þess knappa tíma sem hér er til umræðu af því að hér eru mál að fara í atkvæðagreiðslu og hæstv. ráðherra upptekin. En ég fagna auðvitað því sem ráðherra nefndi áðan að hún muni leggja fram frumvarp á vorþinginu er varða eignarhaldstíma, ef ég skildi hana rétt, á hlutabréfum stjórnenda fjármálafyrirtækja. Ég fagna því mjög og hefði auðvitað viljað fara aðeins nánar út í það en það var mjög gott að fá þetta fram við þessa umræðu.

Hæstv. ráðherra nefndi að í þeim 80 milljónum sem ég gagnrýndi áðan væri líka halli vegna síðasta árs. Það skýrir auðvitað þessa háu fjárhæð en við munum fara betur yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd. Og í trausti þess að hæstv. ráðherra muni við 2. umr. gera betur skil þeim stóru málum sem snerta fjármálamarkaðinn, sem ég og fleiri þingmenn komum inn á í þessari umræðu, mun ég ekki krefja ráðherrann frekari svara í þessu efni.