132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[19:22]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið er tilgangur frumvarpsins einkum tvíþættur. Það er annars vegar að fækka undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts og hins vegar að fasteignaskattur verði lagður í Landskrá fasteigna.

Það er rétt að taka fram að í frumvarpinu kemur fram að talið er að með því að fækka undanþágum frá greiðslu fasteignaskatts muni hann skila sveitarfélögunum 600 millj. Það er að vísu ekki reiknað með að það fari upp í þá tölu fyrr en 2008. Það kemur fram í skjali frá nefnd um tekjustofna sveitarfélaga að á árinu 2006 er áætlað að þetta muni ekki skila nema 200 millj.

Þegar farið er yfir skjalið sem nefnd um tekjustofnana skilaði af sér vekur athygli að alla vega sumir nefndarmenn telja að hér hafi menn ekki verið gengið nógu langt. Það sé löngu kominn tími á að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga til að tryggja betri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.

Það er jafnframt talað um að hér séu eingöngu úrlausnir af hálfu ríkisvaldsins, svokallaðar skammtímaúrlausnir. Þannig hafi það verið oft áður og sé hér enn og aftur, en það þurfi að taka þetta meira heildstætt, taka almennan tekjugrunn sveitarfélaganna og horfa um leið til framtíðarskipunar sveitarstjórnarmála í landinu.

Fleira hef ég ekki að segja.