132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[19:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Ég held að hann hafi svarað sæmilega skilmerkilega öllu því sem ég bað hann um og ég þakka fyrir það. Þegar ég spurði hæstv. ráðherra um halann sem út af stendur í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og hvort ekki væri ástæða til að hafa hreint borð milli þessara aðila, ríkis og sveitarfélaga, í því efni og þetta uppgjör færi fram, þá svaraði ráðherrann því raunverulega neitandi. Ekkert yrði gert í því eða ég skildi mál hans þannig vegna þess að hann vísaði einungis til þess að héðan í frá yrði gert kostnaðarmat á málum sem varða hag sveitarfélaga í frumvörpum sem hér koma inn. Með því telur hæstv. ráðherra væntanlega að það mál sé afgreitt. En ég held að trúnaðarbrestur muni vera milli ríkis og sveitarfélaga meðan þessi hali stendur út af og er ekki afgreiddur.

Það var sömuleiðis athyglisvert sem hæstv. ráðherra sagði varðandi endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga en hann sagði í reynd hér og nú að ekki yrði meira gert í því máli fyrr en kannski á árinu 2008. Ég tel það mjög miður vegna þess að ég tel að um leið sé verið að segja að ekkert meira verði gert í verkefnatilfærslu til sveitarfélaganna fyrr en eftir 2008 ef mönnum tekst að leiða þá til lykta þær deilur sem eru um tekjustofnana. Það er auðvitað til vansa að ekki sé hægt að setjast yfir það og búa sveitarfélögunum framtíðartekjustofna.

Ég vænti þess að hv. fjárlaganefndarmenn hafi hlýtt á hæstv. ráðherra þegar hann sagði að ekki sé vitað hvort gert sé ráð fyrir fasteignaskatti sem ríkið er nú að yfirtaka á fasteignum ríkisins, t.d. í framhaldsskólum og sjúkrastofnunum. Hér er um að ræða 200 milljónir á næsta ári. Er það virkilega svo að þetta standi út af og hefur ekki verið gert ráð fyrir því í tekjum þessara stofnana?