132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[19:44]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fjáraukalög fyrir árið 2005 koma nú til lokaafgreiðslu við 3. umr. Ég hef áður lagt áherslu á það við umræður um fjárlagagerð á vegum þingsins að fjáraukalög væru unnin að vori og hausti þannig að Alþingi tæki í raun ákvarðanir um fjárútlát og aðrar breytingar sem gera þarf á fjárlögunum innan ársins.

Þær tillögur sem liggja fyrir í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem komið er til 3. umr. eru að stærstum hluta tillögur um gerðan hlut, ákvarðanir sem framkvæmdarvaldið hefur tekið og Alþingi er í rauninni formsins vegna að leggja blessun sína yfir. Slík vinnubrögð eru ólíðandi og þau eru óþingræðisleg og þess vegna legg ég áherslu á að tillögur sem ég hef lagt fram, og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um fjáraukalög að vori og fjáraukalög að hausti verði tekið upp.

Það sem mér finnst þó alvarlegast við þessa lokaafgreiðslu á fjáraukalögum er að ekki skuli vera tekið á þeim rekstrarvanda og uppsafnaða halla hjá ellilheimilum, öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimilum sem liggur fyrir og hefur legið fyrir ekki bara í ár, það lá líka fyrir í fyrra, og áfram er sagt að hann sé til skoðunar í nefnd. Þetta liggur allt fyrir og mér finnst það ábyrgðarhluti að á því skuli ekki tekið við lokaafgreiðslu fjáraukalaga. Þetta hef ég gagnrýnt og geri enn. Ég hef ásamt nokkrum öðrum þingmönnum lagt fram tillögu um að auka framlög til hjálparstarfsins, neyðaraðstoðarinnar, í Kasmír og hún kemur til atkvæða á eftir. Ég gleðst yfir því að meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram aukin framlög frá því sem var við 2. umr. til hjálparstarfsins í Kasmír og ég fagna því þó svo að mér finnist það allt of lítið, bæði miðað við þörfina og það sem okkur ber að gera. Ég hvet Alþingi og landsmenn alla til að taka virkan þátt í að styrkja hjálparstarfið í Kasmír. Þar er virkileg neyð.

Frú forseti. Að öðru leyti sitjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hjá við meginafgreiðslu þessa frumvarps.