132. löggjafarþing — 33. fundur,  2. des. 2005.

Útbýting þingskjala.

[15:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það væri óskandi að fá frekari upplýsingar um störf þingsins á næstu dögum. Nú er verið að dreifa skýrslu um að gera Rafmagnsveitur ríkisins að hlutafélagi en hér liggur fyrir raforkuskýrsla hæstv. iðnaðarráðherra og mér leikur forvitni á að vita hvort eigi að ræða þá skýrslu áður en menn fara að ræða um að breyta einhverjum fyrirtækjum og rekstrarformi þeirra. Á að gera það?

Einnig hef ég beðið um að rædd verði sú hækkun sem hefur orðið á rafmagnsverði til þeirra sem hita hús sín með slíkri orku. Mér finnst svolítið sérstakt að svo virðast sem keyra eigi þessi mál í gegn, að breyta fyrirtækjum í hlutafélög, og síðan fáum við ekki að ræða þau mál sem brenna á fólki, t.d. hækkað orkuverð þeirra sem hita hús sín með rafmagni og síðan þá skýrslu sem var dreift hér fyrir um 10 dögum.

Ég hef ýmsar athugasemdir fram að færa við þá skýrslu, sérstaklega það að í henni kemur ekki fram, frú forseti, sú heildarhækkun sem varð á rafmagnsverði í landinu við þessar breytingar. Mér finnst ótækt að ræða t.d. breytingu á Rarik í hlutafélag án þess að við höfum rætt áður þær breytingar og þær hækkanir sem hafa orðið á rafmagnsmarkaðnum í landinu.