132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Vaxtaákvörðun Seðlabankans.

[15:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það vill svo til að efnahagsstefna okkar liggur fyrir í formi þingmáls, og við ein þingflokka höfum gert skilmerkilega grein fyrir henni og leggjum þar til ákveðna hluti, ákveðnar aðgerðir. Vandinn er aðallega sá — það stendur upp úr á öllum fundum og ráðstefnum sem núna eru um efnahagsmál öðrum en ríkisstjórnarfundum, þar er greinilega annar vandi — að Seðlabankinn er aleinn í glímu sinni við að halda aftur af þenslu og verðbólgu og reyna að endurheimta stöðugleika í hagkerfinu. Ríkisstjórnin hefur unnið gegn Seðlabankanum. Í staðinn fyrir að ganga til samstarfs við Seðlabankann um einhverjar samræmdar aðgerðir virðist núna vera komin upp sú staða að ríkisstjórnin hjóli í Seðlabankann og reyni að draga úr trúverðugleika hans. Það er háskalegt. Það er, eins og ég sagði áðan, ekki deila um það mikla jafnvægisleysi sem er í efnahagsmálum okkar núna og það er ekki deila um það að gengið er langt yfir raungengismörkum en allir hugsandi menn hljóta að sjá hversu hættulegt það er ef einmitt þetta brothætta ástand fer úr böndunum, m.a. (Forseti hringir.) vegna þess að ríkisstjórnin og Seðlabankinn vinni ekka saman heldur hvort gegn öðru.