132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Textun innlends sjónvarpsefnis.

[15:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Á árinu 2003 beitti þáverandi menntamálaráðherra sér sérstaklega fyrir því að settar voru 4,5 millj. kr. til að auka textun á íslensku sjónvarpsefni. Það var gert ráð fyrir því í skriflegu svari sem hann gaf við fyrirspurn hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur að auka fjárveitingar allt upp í 7 millj. á árinu 2004 í þetta verkefni. Ég varð ekki var við það núna við fjárlagagerðina að markaðir væru til þessa sérstakir fjármunir og ég veit ekki til þess að sérstaklega hafi verið mótuð stefna um það hjá Ríkisútvarpinu að fylgja þessu eftir, enda sýnist mér komið í ljós að það hefur ekki sést í raunveruleikanum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort þær áætlanir sem mótaðar voru af fyrrverandi menntamálaráðherra um það að auka textun sjónvarpsefnis og láta til þess fé séu enn þá stefna ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi: Finnst hæstv. menntamálaráðherra að Ríkisútvarpið hafi staðið sig í stykkinu við það að auka textun á innlendu sjónvarpsefni? Í þriðja lagi: Hefur núverandi menntamálaráðherra í hyggju að auka fjárveitingar í textun til að fylgja eftir þeirri stefnumörkun sem kom fram í því svari sem ég vitnaði til í upphafi máls míns? Hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ráðherra hefur lagt á það áherslu við forsvarsmenn Ríkisútvarpsins að verulega verði aukið við það fjármagn sem fer til textunar efnis á næstu árum.“ Síðan segir: „Fyrir skömmu var heimiluð 5% hækkun afnotagjalda sem eiga að auka tekjur Ríkisútvarpsins talsvert og er það álit ráðherra að hluta þess fjár eigi að ráðstafa til að texta íslenskt sjónvarpsefni.“

Nú spyr ég: Hvar eru þessar áætlanir í verkum ríkisstjórnarinnar? Hvar hefur þeim verið fylgt eftir eða hyggst ráðherra fylgja þeim eftir?