132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

4. fsp.

[15:35]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að allt sem hv. þingmaður sagði hér er rétt. Hún vitnaði sérstaklega til stöðunnar í Bretlandi og eitthvað hef ég kynnt mér það sem þar er að gerast. Sem svar við spurningunni um það hvort ég muni grípa til einhverra aðgerða eða hvort ég sjái ástæðu til að fara svipaðar leiðir og Bretar hafa farið er það að segja að við erum með lög í landinu, samkeppnislög, sem eru alveg í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og eru sett á grundvelli EES-samþykkta. Þar að auki erum við hér með nýja stofnun, Samkeppniseftirlit sem kemur í stað Samkeppnisstofnunar, sem fær aukið hlutverk í sambandi við einokun á markaði og það að misnota markaðsráðandi stöðu.

Ég treysti þessari stofnun ákaflega vel til að fara með það eftirlit á markaðnum sem henni ber að gera samkvæmt lögum og ég mun ekki sem viðskiptaráðherra beita mér sérstaklega í þessum málum. Það er ekki mitt hlutverk að hafa afskipti af Samkeppniseftirlitinu. Það leggur sjálft sínar línur um það hvaða markaði eftirlitið skoðar hverju sinni. Það er svarið sem ég get gefið hv. þingmanni.