132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

4. fsp.

[15:36]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ráðherrann kom í svörum sínum að því hvernig löggjöfin er hér á landi og ég vil benda á grein sem birtist í Morgunblaðinu nýverið eftir tvo heiðursmenn, þá Jónas Haralz og Jóhann J. Ólafsson. Þeir segja m.a. eftirfarandi um markaðsaðstæður hér á landi, með leyfi forseta:

„Er frelsi viðskiptanna að leiða til þess að eignir og áhrif þjappist saman hjá fáum fyrirtækjum og einstaklingum sem hika ekki við að misbeita aðstöðu sinni, ekki aðeins í atvinnulífinu sjálfu heldur jafnvel einnig í stjórnmálum og í þjóðlífinu öllu? Eru útrásarfyrirtækin, studd af íslenskum bönkum, að ráðast í ævintýraleg viðskipti sem ekki eiga stoð í heilbrigðum rekstri?“

Síðan velta þeir fyrir sér hvort við séum að ganga í gegnum ribbaldaskeið ungs kapítalisma sem aðrar þjóðir hafi gengið í gegnum á mismunandi tímum, m.a. Rússar eftir fall kommúnismans. Og þeir spyrja síðan:

„Ef í þetta stefnir, hvað er þá til ráða?“ — Þessir ágætu menn hvetja til þess að endurskoðun fari fram á löggjöf um starfsemi atvinnulífsins, m.a. samkeppnislögum og lögum um eftirlitsstofnanir, með hliðsjón af þeim markaðsaðstæðum sem hér nú ríkja. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hugleiða betur orð þessara heiðursmanna.