132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

4. fsp.

[15:37]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég er hissa á að heyra þessar áherslur hjá hv. þingmanni með tilliti til þess að við gengum í gegnum heilmikla vinnu á síðasta þingi, fyrst í nefndarstarfi, í nefnd sem ég skipaði. Þar voru að sjálfsögðu fulltrúar samstarfsflokksins líka. Hún komst að ákveðnum niðurstöðum sem síðan hafa verið lagðar fram í formi frumvarpa og þau frumvörp hafa orðið að lögum. Þetta hefur verið unnið allt í sátt og samlyndi og ég gerði mér ekki grein fyrir, a.m.k. ekki á þeim tíma þegar við vorum að vinna að þessum málum, að aðrar hugmyndir væru uppi í Sjálfstæðisflokknum í sambandi við þetta mál. Hins vegar get ég að sjálfsögðu tekið undir með hv. þingmanni að það er áhyggjuefni þegar um fákeppni er að ræða á mörkuðum, hvaða markaðir sem það eru. En við settum í þau lög sem nú gilda um samkeppnismál, m.a. heimildir fyrir samkeppnisyfirvöld til að krefjast skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum ef þau hafa brotið lög.