132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[15:41]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Á morgun heldur hæstv. umhverfisráðherra af stað til Montreal á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem um leið er fyrsti fundur Kyoto-ríkjanna. Nú eru síðustu forvöð að spyrja hvað ráðherrann hefur fram að færa í Kanada. Hvað vill ríkisstjórnin í loftslagsmálum? Hvað á að taka við þegar fyrsta Kyoto-tímabilinu lýkur 2012? Er ríkisstjórnin enn þá sammála Evrópusambandinu um að hlýnun skuli ekki fara yfir 2° frá iðnbyltingu og að iðnríkin eigi að draga úr útstreymi gróðurhúsalofts um 30% fyrir 2020? Eða er ríkisstjórnin þeirrar skoðunar að Kyoto-bókunin sé misskilningur og þess vegna sé rétt að fara léttari leið á næsta tímabili? Er ríkisstjórnin reiðubúin að falla frá hinu setta marki til að þóknast vilja Bandaríkjanna? Hvað vill ríkisstjórnin?

Vísindamenn eru nú að kalla samhljóða um vána af völdum loftslagsbreytinga. Flestir þeirra telja reyndar að breytingarnar séu þegar hafnar. Hér á Íslandi nægir að rifja upp skýrslu Norðurskautsráðsins frá í fyrra, um miklu meiri hlýnun á norðurslóðum en að jarðarmeðaltali. Þeir tala um 4–7° á svæðinu næstu 100 ár ef ekkert er að gert. Hlýnunin getur umbreytt náttúru umhverfis heimskautið þannig að við þekkjum ekki annað eins úr sögu Íslands og grannþjóðanna.

Við undirrituðum Kyoto-bókunina í maí 2002 í beinu framhaldi af Ríó-sáttmálanum. Í þeirri undirritun fólst að Íslendingar viðurkenndu þann vanda sem við er að fást og hétu samstarfi við að draga úr mengun frá gróðurhúsalofti. Þetta gerðu ekki allir. Ríkisstjórn Bandaríkjanna er því miður haldin kreddu. Hún undirritaði ekki Kyoto-bókunina og hefur hingað til hafnað algjörlega samstarfi um aðgerðir gegn vánni. Evrópusambandið hefur hins vegar þá stefnu að halda einarðlega áfram aðgerðum þar til ráðamenn í Washington láta af afstöðunni „veit ekki, skil ekki, vil ekki“ og ganga til liðs við Kyoto-ríkin.

Hver er afstaða ríkisstjórnar Íslands gagnvart tregðu Bandaríkjastjórnar? Fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, virðist vera á Bush-línunni. Hann sagði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í haust að Kyoto-bókunin væri að vísu viðleitni í rétta átt en byggðist á, með leyfi forseta „afar ótraustum vísindalegum grunni“. Veit ekki, skil ekki, vil ekki. Síðan síðast, árið 2002, eru sjálfstæðismenn orðnir umhverfis- og utanríkisráðherrar. Nýi hæstv. utanríkisráðherrann sagði hálfa setningu um þessi mál í skýrslunni til þingsins í haust og talaði, með leyfi forseta, um „ótta við hugsanlegar loftslagsbreytingar af mannavöldum“. Hugsanlegar, sagði Geir Haarde. Veit ekki, skil ekki, vil ekki.

Hæstv. umhverfisráðherra talar því miður ekki skýrar. Hér á þinginu um daginn treysti ráðherrann sér t.d. ekki til að lýsa yfir stuðningi við framhald samkvæmt Kyoto eftir árið 2012.

Forseti. Við þurfum að vita hvað íslenska ríkisstjórnin ætlar að leggja til málanna í Montreal. Við þurfum að vita hvort ríkisstjórnin hefur breytt fyrri stefnu í loftslagsmálum. Við þurfum að vita hvort stjórnarflokkarnir eru einhuga í málinu. Er hæstv. umhverfisráðherra þeirrar skoðunar að grundvöllur Kyoto-bókunarinnar sé afar ótraustur og þess vegna sjálfsagt að láta undan Bandaríkjastjórn? Eða er ráðherrann sammála hæstv. ráðherra Halldóri Ásgrímssyni sem sagði þetta um Norðurskautsskýrsluna í fyrrahaust, með leyfi forseta:

„Við höfum aldrei áður staðið frammi fyrir jafnmiklum og -örum loftslagsbreytingum á norðurhveli jarðar. Þær munu hafa gríðarleg áhrif á umhverfi, efnahag og félagslegar aðstæður fólks.“

Það er ekki hægt, forseti, að hafa báðar þessar skoðanir í einu. Milli orða fyrrverandi forsætisráðherra úr öðrum stjórnarflokknum og yfirlýsinga núverandi forsætisráðherra úr hinum stjórnarflokknum er himinn og haf.

Er umhverfisráðherra nú sammála eða ósammála þeim orðum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur frá 16. nóvember að, með leyfi forseta, „við höfum ekkert fyrirkomulag annað en Kyoto-bókunina til að taka á þessum málum. Mér finnst því einsýnt að menn hljóti að byggja á henni.“

Það er ekki hægt að vera í senn sammála og ósammála þessum orðum fyrrverandi umhverfisráðherra. Ég skal verða fyrstur til að fagna því ef ráðherrann er sammála Siv Friðleifsdóttur, Samfylkingunni og öðrum flokkum stjórnarandstöðunnar, hygg ég, um þetta mál. Ef ráðherrann er hins vegar ekki sammála þessum ummælum Sivjar Friðleifsdóttur er komin upp misklíð og óeining í ríkisstjórninni og liði hennar um þetta mál, mesta verkefni stjórnmálanna á okkar tímum.