132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[16:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég heyri að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er trúr fyrrum leiðtoga sínum, Davíð Oddssyni, um að menn skuli ekki gefa sér það fyrir fram að neitt sé að í loftslagsmálum og menn eigi ekki að vera að mála skrattann á vegginn. Það mun hafa verið sá hinn sami leiðtogi sem tók þannig til orða að skrattinn væri leiðigjarnt veggskraut í þessum efnum. Og nú sakna þeir sem eru þeirrar skoðunar vinar í stað náttúrlega þar sem Björn Lomborg, hinn danski er af stalli fallinn en hann var einna helstur spámaður þeirra sem töldu að þetta væri allt saman bara svartagallsraus og órökstuddir heimsendaspádómar. En þeim fer mjög fækkandi í þessum hópi, það verð ég að hryggja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson með, sem betur fer auðvitað því að það er mál til komið og þó fyrr hefði verið að heimsbyggðin horfist alvarlega í augu við það sem hér er að gerast og yfirgnæfandi rök benda til.

Ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra er krafin svara um nestið sem hæstv. ráðherra tekur með sér til Montreal. Það er meira en ástæða til að tekið sé til alvarlegrar umræðu á Íslandi hvar Ísland ætlar að skipa sér á bás í þessum efnum, ekki síst í ljósi grafalvarlegra upplýsinga um hversu mikil áhrif þessar breytingar koma til með að hafa á hánorrænum slóðum þannig að jafnvel sjálfur tilverugrundvöllur sjálfstæðs þjóðríkis hér og efnahagslífs geti meira og minna horfið með margra gráða lækkun hitastigs vegna breyttra hafstrauma þó svo að meðalhitastig á jörðinni haldi áfram að hækka.

Hvað ætlar Ísland að gera í þessum efnum á tímabilinu 2008–2012 og alveg sérstaklega hvaða framtíðaráherslur ætla íslensk stjórnvöld að hafa gagnvart því að þetta sé aðeins fyrsta skrefið og aðeins lítið hænuskref í rétta átt og að taka þurfi miklu alvarlegar á málum en hingað til hefur verið lagt til? Á kannski að fara vestur með þann boðskap að til standi að byggja þrjú ný álver á örfáum missirum á Íslandi (Gripið fram í: Öll á undanþágum.) og sækja um meiri mengunarundanþágur? (Forseti hringir.) Er það kannski veganestið sem hæstv. ráðherra að einhverju leyti verður með? Það væri fróðlegt að fá því þá svarað ef svo er ekki. Og hvað segir (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn um það sem er hér næstur á mælendaskrá?