132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stefna stjórnvalda í alþjóðasamstarfi gegn vá af völdum loftslagsbreytinga.

[16:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka umhverfisráðherra svörin í síðasta tólftungi ræðu sinnar. Ég verð að lýsa því yfir að ég harma að hér skuli ekki vera í umræðunni sjálf Siv Friðleifsdóttir hv. þm., heldur eru sendir af stað þeir ágætu menn Kristinn H. Gunnarsson og Hjálmar Árnason, hv. þingmenn, hjónin eða hjónaleysin eftir því hvernig á stendur í Framsóknarflokknum.

Athyglisvert er við málflutning þeirra að þeir hafa greinilega sætt sig við einhvers konar hálfvolga afstöðu umhverfisráðherra til málsins sem segir nú, sem betur fer, að þá yfirlýsingu sem að sé stefnt í Montreal eigi að byggja á Ríó-sáttmálanum og Kyoto-bókuninni.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu sérstaklega í ljósi þeirra orða sama umhverfisráðherra fyrir rúmum hálfum mánuði sem svo hljóðuðu, með leyfi forseta:

„Ég tel líka allt of snemmt að segja til um hvaða aðferð verður hægt að beita til að takast á við loftslagsmálin eftir 2012.“

Hæstv. umhverfisráðherra hefur því áttað sig á því á þessum hálfa mánuði að það er ekkert annað en Kyoto-bókunin sem hér kemur til greina. Ég fagna því alveg sérstaklega vegna þess m.a. að Siv Friðleifsdóttir lagði á það áherslu og leiðrétti þar með ráðherrann í þessu.

Það vekur líka athygli að hæstv. umhverfisráðherra virðist vera eini sjálfstæðismaðurinn sem tekið hefur þátt í umræðu um þessi mál undanfarna mánuði og jafnvel missiri sem er þeirrar skoðunar að byggja eigi á Kyoto-bókuninni. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti boðskap Davíðs Oddssonar um afar ótraustan vísindagrunn undir öllu saman. Geir Haarde sagði að loftslagsbreytingarnar væru hugsanlegar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á þann hátt í rauninni mótmælt sjálfum forsendum þessara loftslagsbreytinga og þeirra aðgerða sem verið er að grípa til.

Athygli vekur að í síðustu viku kom út skýrsla umhverfissamtaka Evrópusambandsins. Í einum kaflanum í henni kemur fram að loftslagsbreytingarnar séu staðreynd. (Forseti hringir.) Það er sú staðreynd sem nú kallar á aðgerðir en ekki einhverjir hugsanlegir spádómar eða ótraust vísindi.