132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:10]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Frumvarp þetta byggist í meginatriðum á tillögu nefndar sem lauk störfum í febrúar sl. og hafði það hlutverk að finna leiðir til að auka rétt foreldra á innlendum vinnumarkaði til greiðslna í fjarveru þeirra frá vinnu vegna langvarandi veikinda barna þeirra.

Nefndin lagði áherslu á að foreldrar langveikra barna hefðu tækifæri til þess að viðhalda tengslum við vinnumarkaðinn þrátt fyrir að þeir þyrftu að leggja tímabundið niður störf vegna veikinda barna sinna. Lagði nefndin því til að bæði ríkið og sjúkra- og styrktarsjóður stéttarfélaga kæmu til móts við aðstæður foreldra langveikra barna. Frumvarp það sem hér er til umræðu lýtur því að þætti stjórnvalda en ég treysti því að stéttarfélögin skoði vel sinn hluta.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að foreldrar sem eru virkir þátttakendur á innlendum vinnumarkaði geti átt rétt til tímabundinna greiðslna að fjárhæð 93 þús. kr. ef þeir þurfa að leggja niður störf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp kunna að koma þegar börn þeirra greinast með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Miðað er við að foreldrar hafi verið sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en barnið greindist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun. Enn fremur er það skilyrði að foreldrar leggi niður störf til að annast barnið en greiðslunum er ætlað að koma til móts við sannanlegt tekjutap foreldra. Á sama hátt er lagt til að komið verði til móts við aðstæður foreldra í námi þurfi þeir að gera hlé á námi sínu vegna sömu aðstæðna.

Foreldrar geta átt sameiginlegan rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í tilvikum þegar barn þarfnast verulegrar umönnunar vegna alvarlegra veikinda eða alvarlegrar fötlunar er lagt til að heimilt verði að framlengja sameiginleg réttindi foreldra til greiðslna í allt að sex mánuði til viðbótar. Geta foreldrar í alvarlegustu tilvikunum átt þá sameiginlegan rétt til greiðslna í samtals níu mánuði.

Það er skoðun mín, hæstv. forseti, að verið sé að stíga mikilvægt framfaraskref til að koma til móts við aðstæður foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Framkvæmdaraðila er ætlað að meta hvort og í hversu langan tíma foreldrar eigi rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpinu. Áhersla er lögð á að framkvæmdaraðili líti heildstætt á aðstæður fjölskyldnanna sem í hlut eiga enda liggur t.d. ekki fyrir einhlít skilgreining á hugtakinu „langveikt barn“. Misjafnt er hvernig sjúkdómar leggjast á börn en miðað við tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir að foreldrar barna í fyrstu þremur flokkum umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð geti átt rétt á greiðslum innan þess kerfis sem nefndin lagði til. Áhersla er lögð á sveigjanleika þannig að foreldri getur átt rétt á hlutfallslegum greiðslum samhliða minnkuðu starfshlutfalli eigi foreldri kost á að fara í hlutastarf. Þetta er í samræmi við það markmið að stuðla að því að foreldri sjái sér hag í því að halda tengslum við vinnumarkaðinn þrátt fyrir alvarleg og langvinn veikindi eða alvarlega fötlun barns þess þegar því verður við komið. Þetta getur einnig átt við þegar foreldri snýr til baka á vinnumarkaðinn í lægra starfshlutfall en það var í áður en það lagði tímabundið niður störf.

Miðað er við að foreldrar öðlist rétt til greiðslnanna þegar fullar launagreiðslur frá vinnuveitanda hafa fallið niður í forföllum foreldra enda hafi foreldrar samtals verið frá vinnu í 14 daga vegna veikinda eða fötlunar barns. Er þannig jöfn fjölskylduábyrgð undirstrikuð og við það miðað að báðir foreldrar nýti sér kjarasamningsbundin réttindi sín til fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna. Í tilvikum þegar aðeins annað foreldri leggur niður störf er gert ráð fyrir að sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaganna komi til móts við félagsmenn sína þann tíma er kjarasamningsbundin réttindi þrýtur og greiðslur samkvæmt frumvarpinu hefjast. Þá er gert ráð fyrir að foreldrar geti sjálfir ákveðið hvernig þeir skipta með sér greiðslunum en þeir geta ekki fengið báðir greitt fyrir sama tímabil. Enn fremur er gert ráð fyrir að vinnuveitandi geti haldið áfram að greiða starfsmanni sínum laun samkvæmt kjarasamningi, ráðningarsamningi eða einhliða ákvörðun sinni til hagsbóta fyrir starfsmanninn. Er því miðað við að greiðslur hefjist þegar fullar launagreiðslur hafa fallið niður. Jafnframt er gert ráð fyrir að vinnuveitandi, sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga eða aðrir aðilar geti greitt foreldri mismun greiðslnanna og launa þess ef því er að skipta. Umönnunargreiðslur sem ætlað er að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns koma ekki til frádráttar greiðslunum.

Það er vissulega erfiðleikum bundið, hæstv. forseti, að áætla með nokkurri vissu hversu margir foreldrar koma til með að eiga rétt samkvæmt frumvarpinu. Nefndin hafði reynslu Tryggingastofnunar ríkisins af umönnunargreiðslukerfinu til hliðsjónar og var við það miðað að foreldrar 250–300 barna kunni að nýta sér þann rétt sem mælt er fyrir í frumvarpinu á ári hverju. Síðan er gert ráð fyrir að foreldrar um 40 barna komi til með að nýta sér réttinn til framlengingar á greiðslum í allt að sex mánuði. Geri ég ráð fyrir að sú áætlun sé ekki fjarri lagi og hefur verið byggt á þeim tölum við mat á kostnaði vegna þessa nýja kerfis.

Við innleiðingu á kerfinu er lagt til að það taki gildi í áföngum. Þannig er gert ráð fyrir einum mánuði á fyrsta árinu, tveimur mánuðum á öðru ári og á þriðja árinu kemur það til fullra framkvæmda. Enn fremur tekur rétturinn til framlengingar gildi í áföngum á sama tíma. Á árinu 2006 verður heimilt að framlengja rétt foreldra um tvo mánuði, ári síðar um fjóra mánuði og frá og með 1. janúar 2008 um sex mánuði þegar lögunum er ætlað að koma að fullu til framkvæmda. Slík innleiðing á nýju kerfi gaf góða raun er réttur feðra til fæðingarorlofs varð sá sem hann er í dag. Er mikilvægt að skrefin séu tekin af varfærni en örugglega.

Það sem helst hefur valdið mér hugarangri í sambandi við smíði frumvarps þessa var hvernig hefja ætti kerfið. Það getur vissulega valdið fólki vonbrigðum þegar ný kerfi eru sett á fót sem eru til hagsbóta fyrir borgarana þegar ákvarða þarf við hvaða tímamark skuli miða við gildistöku. Þetta kemur oft upp og sem nærtækt dæmi get ég nefnt lögin um fæðingar- og foreldraorlof. Lögin tóku gildi um áramótin þegar árið 2001 gekk í garð og tóku til foreldra barna er fæddust á því herrans ári en ekki árinu áður. Sama átti við um foreldraorlofið en það tók til foreldra barna sem fæddust 1. janúar 1998 eða síðar enda þótt börn fædd fyrir það tímamark væru þá yngri en átta ára gömul.

Þetta kerfi sem við ræðum hér nú, hæstv. forseti, er engin undantekning. Eftir að hafa farið vel yfir málið með sérfræðingum mínum töldum við skynsamlegast að miða við tiltekið tímamark. Það tímamark sem lagt er til að verði við miðað er að frumvarpið muni eiga við um aðstæður foreldra barna sem greinast með alvarlegan og langvarandi sjúkdóm eða alvarlega fötlun 1. janúar nk. eða síðar. Greiðslur koma þó ekki til framkvæmda fyrr en lögin, verði frumvarpið samþykkt óbreytt að þessu leyti, taka gildi um mitt næsta ár. Þetta vildi ég nefna sérstaklega, hæstv. forseti. Ég vil þó vekja athygli á ákvæði 15. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að foreldrar geti átt rétt á greiðslum vegna sama barns í tilvikum er barnið greinist aftur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm. Þetta getur átt við enda þótt barnið hafi áður greinst fyrir 1. janúar nk. Hið sama á við þegar ástand barns versnar aftur vegna sjúkdóms eða fötlunar eftir að hafa náð jafnvægi. Skiptir þá ekki máli hvernig barnið greindist í fyrsta sinn.

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á að ég lít svo á að það sé áfram í verkahring aðila vinnumarkaðarins að semja um rétt foreldra til fjarveru frá störfum vegna veikinda barna í kjarasamningsviðræðum sín í milli. Frumvarpi þessu er ekki ætlað að breyta nokkru þar um, enda fjallar það ekki um leyfi frá störfum. Samkvæmt kjarasamningum eiga foreldrar rétt á 7–10 daga fjarveru á ári en fjöldi daga er misjafn milli kjarasamninga einstakra félaga. Hefur mörgum þótt sá réttur nokkuð takmarkaður. Þrátt fyrir það tel ég mikilvægt að starfsmenn mæti ákveðnum skilningi hjá vinnuveitanda þegar þeir þurfa að vera fjarverandi vegna tilfallandi veikinda barna. Ýmsar leiðir eru færar í þessu efni en auk sveigjanlegs vinnutíma má nefna tímabundið hlutastarf eða heima- eða fjarvinnu. Þar sem frumvarpið tryggir foreldrum ekki leyfi frá störfum í sjálfu sér þótti ástæða til að breyta ákvæðum um foreldraorlof. Er því lagt til að foreldrum langveikra og alvarlega fatlaðra barna verði gert kleift að nýta sér þann hluta foreldraorlofsins sem þeir nýttu ekki áður en orlofsrétturinn féll niður í tilvikum þegar börn greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun eftir 8 ára aldur en áður en þeir ná fullum 18 árum.

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka orð mín hér að framan að ég tel að frumvarpið feli í sér stórt framfaraskref til hagsbóta fyrir foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Ég legg jafnframt áherslu á að þetta kerfi verði til þess að styðja við bakið á þeim sem virkilega þarfnast þess og ég vona sannarlega að þetta sé einungis góð byrjun á áframhaldandi þróun. Reynslan verður síðan að leiða í ljós hverju fram vindur.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.