132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram hér þó svo að ég geti vel tekið undir að upphæðirnar eru lágar. En þrátt fyrir það er ég sannfærður um að þá, sem þurfa á þeim að halda og geta sótt um slíka aðstoð, munar um þessar upphæðir.

Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvað varðar 19. gr., það er ótækt að þessi lög eða ákvæði frumvarpsins taki eingöngu til barna sem greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun eftir 1. janúar 2006. Mér finnst að í meðförum nefndar ættu menn ekki að vera að hengja sig í þessa dagsetningu. Það kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu að um er að ræða 40–50 milljónir fyrstu árin og síðan þegar lögin taka að fullu gildi, eða markmið þeirra, verður kostnaðurinn vegna þeirra árlega 160–170 millj. kr. Þetta eru ekki mjög háar upphæðir fyrir ríkissjóð og ég vil leggja áherslu á að hér er alls ekki um minna hagsmunamál að ræða en fæðingarorlof og fæðingarstyrki, hér er jafnvel um brýnna hagsmunamál að ræða en talsvert lægri upphæðir. Ég er því á því að menn eigi alls ekki að vera að hengja sig í þessa dagsetningu, heldur að láta lögin taka gildi fyrir öll börn sem eru langveik nú.

Enn fremur vil ég vekja athygli á því að ég renndi í gegnum skýrslu um velferðarkerfið íslenska, Örorka og velferð á Íslandi, sem er rituð af Stefáni Ólafssyni þar sem velferðarkerfið hér er borið saman við velferðarkerfi í öðrum löndum. Í skýrslunni kom fram að við stöndum langt að baki öðrum Norðurlöndunum hvað varðar sjúkradagpeninga og greiðslur til veikra og þar munar allt að fimmtánfalt. Ég er á því að það þurfi að fara yfir þetta velferðarkerfi í heild. Við sjáum að þessar greiðslur eru hjá félagsmálaráðuneytinu, sjúkradagpeningarnir, ef ég hef skilið það rétt, eru hjá heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu og örorkulífeyririnn er þar einnig. Sveitarfélögin hafa ákveðnu hlutverki að gegna og allar greiðslur í þessu kerfi eru meira og minna tekjutengdar fram og aftur þannig að ef einhver skríður yfir einhverja ákveðna upphæð rennur hann jafnharðan niður í 120 þús. kr. eða hvað það nú er. Ég er á því að það þurfi að fara fram mikil endurskoðun á velferðarkerfinu íslenska og ég sannfærðist endanlega um það eftir lestur þessarar skýrslu þar sem kemur í ljós að við stöndum nágrannaþjóðum og þjóðum Vestur-Evrópu talsvert að baki hvað varðar velferðarmál. Við náum kannski í miðjan hópinn ef viðmiðunin er að tryggja framfærslu en þegar verið er að skoða hvernig við tryggjum félagslega þátttöku og minnkum einangrun fatlaðra þá erum við langt að baki öðrum. Það sást í umræðunum í dag m.a. í umræðunni um textun, sem er dæmigert mál til að tryggja þeim sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu aðgang að samfélaginu.

Að lokum vil ég ítreka það að ég fagna þessu frumvarpi og ég tel þetta spor í rétta átt.