132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem kom fram síðast í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að þetta hafi ekki verið skoðað. Vissulega hefur þetta verið skoðað og álit fjárlagaskrifstofunnar eða umsögn hennar liggur fyrir og hún hefur sínar forsendur alveg eins og við lögðum upp sem fórum af stað með frumvarpið. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að menn lesi nákvæmlega það sem stendur hér. Ef við stöndum frammi fyrir því að það verði aukinn kostnaður vegna hugsanlegs brottfalls einhverra forstöðumanna þá verður því að sjálfsögðu mætt. Það kemur hér fram. Það er skýrt og skilmerkilega sagt frá því. Auðvitað verður gert ráð fyrir því. Verið er að draga fram allan hugsanlegan mögulegan kostnað sem kemur til með að falla á stofnunina. Það er ekki svo að skila eigi þessari stofnun inn í nýja framtíð með ekki nægilega mikilli reisn. Að sjálfsögðu hefur verið unnið mjög ötullega í samvinnu við alla aðila að þessu máli. Við ætlum að efla og styrkja íslenska tungu, íslenskan menningararf og allt það umhverfi. Ekki er hægt að lesa neitt annað út úr umsögn fjárlagaskrifstofunnar en það sem við ætlum að gera, nákvæmlega það sem ég sagði áðan.