132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[17:58]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir allar þær áhyggjur sem fram komu í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar. Ég er t.d. ekki þeirrar skoðunar að það þurfi að standa starfsemi þessarar stofnunar fyrir þrifum að hún fari ekki öll fram undir sama þaki. Við höfum dæmi um fullt af stofnunum sem ganga vel þrátt fyrir að þær séu staðsettar hingað og þangað og ekki allar í sama húsinu. Það sama á við um fyrirtæki. Þó að starfsemin sé ekki öll á sama stað þarf það ekki að þýða að hún geti ekki gengið.

Ég hef heldur ekki áhyggjur af því sem hv. þingmaður nefndi að með því að skipa málum með þeim hætti sem fram kemur í frumvarpinu séu tengsl þessara stofnana við Háskóla Íslands slitin. Ég veit ekki betur en að merkilegar stofnanir, eins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Lagastofnun Háskóla Íslands, séu sambærilegar við það sem kemur fram í frumvarpinu en auðvitað munum við fara yfir það í menntamálanefnd. En það er augljóst af þessu frumvarpi að tengslin við Háskóla Íslands verða eftir sem áður mjög mikil.

Ég hlýt að fagna því sem áhugamaður um íslensk fræði, eins og hv. þm. Mörður Árnason, að hér sé verið að stíga þetta skref. Tilgangur sameiningarinnar er að efla rannsóknarstarf og miðlun á sviði íslenskra fræða og efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu. Ég hefði talið að með því að skipa málum með þessum hætti styrktum við það starf sem fram á að fara í þessari stofnun. Ég hefði talið að hv. þingmaður ætti að taka undir það.

Ég nefni sem dæmi að á Örnefnastofnun starfar einn maður og það sama á við um Stofnun Sigurðar Nordals. Mig langar til að fá afstöðu hjá hv. þingmanni til þess hvort hún telur ekki að sameining þessara stofnana, og samnýting kraftanna, verði íslenskum fræðum til eflingar.