132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:02]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að auðvitað verða allir sem að þessu máli koma og frumvarpið skiptir máli kallaðir fyrir nefndina til skrafs og ráðagerða um það sem þar kemur fram. Það stendur ekkert annað til í þessu máli frekar en öðrum þannig að vinnsla þessa frumvarps verður með sama hætti og annarra mála innan nefndarinnar. Við munum kalla eftir öllum þeim sjónarmiðum sem æskilegt er að komi þar fram, hvort sem þau eru neikvæð eða jákvæð í garð frumvarpsins.

Ég er þeirrar skoðunar, og tek undir það sem kemur fram í frumvarpinu, að sameiningin muni styrkja þá starfsemi sem við fjöllum hér um. Ég hef takmarkaða trú á því að stofnanir eins og Örnefnastofnun og stofnun Sigurðar Nordals, sem eru með einn starfsmann, geti sinnt almennilega þeirri starfsemi sem þar á að fara fram og þessar fræðigreinar eiga skilið. Ég held að miklu heppilegra sé fyrir þetta fræðasvið að menn reyni að samnýta kraftana. Það gildir í rauninni alveg það sama um stofnun eins og þessa og háskóla. Það eru takmörk fyrir því hversu litlar háskóladeildir geta verið til að geta borið sig og staðið undir nafni sem fræðistofnanir. Ég hefði því haldið að hv. þingmaður fagnaði þessu frumvarpi, afstaða hv. þingmanns til frumvarpsins hefur ekki komið skýrt fram en ég vona að hún komi fram í seinni ræðu hennar. Ég hefði haldið, miðað við þann metnað sem þingmaðurinn hefur og talar venjulega fyrir í garð íslenskra fræða og menningar, að þetta væri mál sem ætti að vera henni að skapi og ég vona að hún upplýsi (Forseti hringir.) mig um það í seinna andsvari sínu.