132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg óþarfi að einhver hundur sé í mönnum yfir svona mikilvægu og merku máli og þó maður nefni fleiri háskóla en Háskóla Íslands þurfa menn ekki að fara alveg af hjörunum.

En það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði að tengslin við Háskóla Íslands skipta mestu máli. Háskóli Íslands er vagga, eins og hv. þingmaður komst að orði, íslenskra fræða. Við höfum falið Háskóla Íslands það mikilvæga hlutverk að standa vel að kennslu, þekkingarleit, rannsóknum o.fl. varðandi íslenskuna og á því verður engin breyting. Með frumvarpinu erum við í rauninni að hnykkja á því mikla og góða samstarfi sem hefur verið við Háskóla Íslands og þau mikilvægu störf sem þar hafa verið innt af hendi í tengslum við íslenskuna.

Þess vegna fagna ég því að fá þá tækifæri til að brýna orð mín enn frekar og minna á það sem kemur fram í frumvarpinu að það er ekki tilviljun að þetta er háskólastofnun og það er heldur ekki tilviljun að þetta er háskólastofnun með sérstök tengsl við Háskóla Íslands því að eins og hv. þingmaður kom inn á eru sérstök lög í gildi um Stofnun Árna Magnússonar þar sem sérstaklega er kveðið á um skyldur íslenskra stjórnvalda samkvæmt danska sáttmálanum sem gerður var á sínum tíma. Það er sérstaklega verið að virða þann sáttmála í frumvarpinu. Við erum sérstaklega að hnykkja á þeim tengslum um leið og við nýtum tækifærið til að segja: Já, við ætlum að efla enn frekar Háskóla Íslands sem rannsóknastofnun, sem háskólastofnun í nánum tengslum við þá mikilvægu stofnun sem við ræðum nú um.