132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:36]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka menntamálaráðherra fyrir ýmsar mikilvægar yfirlýsingar í þessari umræðu og ég efast ekki um að þær verði notaðar, ef ekki sem lögskýringargögn þá sem rökstuðningur við ýmsar beiðnir, bæði um skipulag og fjárveitingar í framtíðinni. Umræða í andsvörum getur því miður ekki orðið löng, því verð ég að takmarka mig. En mig langar að spyrja um tvennt.

Í fyrsta lagi um tengsl Íslenskrar málnefndar eða réttara sagt um stöðu Íslenskrar málnefndar í þessu lagafrumvarpi. Hefur Íslensk málnefnd sérstaka fjárveitingu? Er það svo að hún hafi sérstaka fjárveitingu samkvæmt lagafrumvarpinu? Það sýnir gjarnan sjálfstæði stjórnvalds eða stofnunar af þessu tagi hvort fjárveiting er til reiðu eða hvort hún þarf að sækja fjárveitingu sína til forstöðumanns yfirstofnunar.

Í öðru lagi. Hver eru tengsl forstöðumanns hinnar nýju stofnunar og formanns Íslenskrar málnefndar? Á að líta svo á að forstöðumaðurinn sé yfirmaður, verður að líta svo á að forstöðumaður — forseti, menntamálaráðherra heyrir ekki, það er galli — (Gripið fram í: Hún er að koma.) sé yfirmaður formanns Íslenskrar málnefndar? Hvernig er þeim tengslum háttað? Þau koma hvergi fram í frumvarpinu.

Í þriðja lagi, sem mér finnst mikilvægt að fá svar við. Ég bið menntamálaráðherra að staðfesta það við mig sem ég sagði í ræðu minni áðan að það væri handvömm í frumvarpinu að gera ekki ráð fyrir fræðilegri stjórnun stofnunarinnar, að hún sé í samvinnu forstöðumanns og annarra starfsmanna hennar, eins og stendur í 3. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar, og fari fram á eins konar húsþingum eins og kemur fram í 7. gr. — ég man nú ekki hvaða grein reglugerðarinnar — það er 4. gr. laga og 3. gr. reglugerðarinnar, að við getum óhrædd virt fyrir okkur vilja menntamálaráðherra í því að við ósköp einfaldlega breytum þessu í menntamálanefnd og komum því í það horf sem eðlilegt er.