132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:40]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég lít á það sem misskilning af hálfu menntamálaráðherra að hægt sé að styrkja málnefndina með því að leggja niður þennan mikla lagabálk, sem er nú ekki nema níu greinar. Ég tel að hún sé þess eðlis að hún eigi áfram að hafa lög og vera sjálfstæð stofnun eða stjórnvald þó að hún semji við Stofnun íslenskra fræða, þá sem ef til vill kemur, um skrifstofustörf og rannsóknastörf.

Þá vil ég enn ítreka hina spurninguna vegna þess að hún er mjög mikilvæg. Hún skiptir fræðimennina miklu máli og hún skiptir rannsóknar- og fræðistarf miklu og reyndar allt það starf sem fer fram á hinni nýju stofnun ef af verður. Hún fjallar um þetta: Hversu valdamikill er forstöðumaðurinn?

Hægt væri að hugsa sér — og það misskildi hæstv. ráðherra áðan, og ég skal fyrirgefa henni það vegna þess að ræðustíll manna hér í stólnum þegar mikið er að segja á litlum tíma getur orðið með ýmsum hætti — að annaðhvort styddist forstöðumaðurinn við stjórn og væri framkvæmdastjóri hennar eða þá, sem hér er hugsunin, að hann sé með ráðgefandi menn í stjórninni. Hins vegar er gallinn á því sá að honum er ekki sett að hafa samráð um hinn fræðilega part. Af hverju — ef það er ekki handvömm sem er fyrsta skýring mín — er 4. gr. í lögum um Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi ekki framlengd í þessu frumvarpi? Að forstöðumaðurinn annist rekstur stofnunarinnar og, með leyfi forseta: „Hann annast og fræðilega stjórn stofnunarinnar ásamt öðrum starfsmönnum samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.“

Í reglugerðinni frá Vilhjálmi Hjálmarssyni kemur fram að þetta geri hann á svokölluðum húsþingum þar sem eiga sæti hinir fræðilegu starfsmenn stofnunarinnar. Þar eru t.d. teknar ákvarðanir um útgáfu og önnur fræðileg viðfangsefni. Húsþingið hefur líka þjónað hlutverki eins konar deildarráðs við að hafa umsagnir um þá sem koma til greina í (Forseti hringir.) stöður o.s.frv.