132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:42]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um breytta stjórnskipan á þessari stofnun miðað við það sem nú er. Við erum að tala um nútímalegri stjórnarhætti, ef má orða það svo. Við erum einfaldlega að tala um að forstöðumaðurinn beri ábyrgð á stjórn og rekstri stofnunarinnar, svo einfalt er það. Við verðum að treysta því að þessi forstöðumaður eins og forstöðumenn annarra ríkisstofnana axli þá ábyrgð sem í því felst, þá miklu ábyrgð að vera forstöðumaður ríkisstofnunar. Við verðum einfaldlega að treysta þeim forstöðumanni sem verður síðan ráðinn þegar þar að kemur.

Ég vil sérstaklega ítreka eitt í sambandi við vald forstöðumanns. Hann kemur ekki til með að ráða yfir Íslenskri málnefnd. Hún er sjálfstætt fyrirbæri. Hún kemur til með að vera hjá stofnuninni, eiga heima þar en forstöðumaðurinn mun ekki stjórna Íslenskri málnefnd, hún kemur til með að vera sjálfstæð nefnd. Það undirstrikar enn og aftur mikilvægi og hlutverk Íslenskrar málnefndar, svo við höfum það alveg á hreinu og menn fari ekki að tala um einhvern misskilning og að menn hafi ekki talað skýrt hér.

Það er alveg skýrt af minni hálfu að forstöðumaðurinn kemur til með að bera ábyrgð á rekstri og stjórn stofnunarinnar. Hann mun eftir sem áður hugsanlega styðjast við íslenska hefð, hefðina sem hefur skapast innan þeirrar stofnunar sem um ræðir. En þetta er fyrirkomulagið eins og það er ákveðið í þessu frumvarpi sem og í mörgum öðrum frumvörpum er varða stjórn stofnana á vegum ríkisins. Það hlutverk er breytt frá því að lög um Stofnun Árna Magnússonar voru sett á sínum tíma. Það er rétt að menn nútímavæðist.