132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Innflutningur dýra.

390. mál
[18:50]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir að Alþingi samþykkti á sínum tíma að einkaaðili geti rekið slíka stöð þykir eðlilegast að ríkið hverfi út úr þeim rekstri en hafi aftur á móti eftirlit með honum. Það kann vel að vera, eins og hér hefur komið fram, að duglegir athafnamenn á Eyjafjarðarsvæðinu muni kaupa stöðina í Hrísey og þess vegna reka hana í samkeppni við hina. Mér finnst það mjög líklegt og menn hafa gefið það til kynna. En ég hygg að þeir mundu ekki taka hana að sér nema fá hana keypta til rekstursins þannig að það er niðurstaðan að ríkið selji stöðina. Hvað gjaldtökuna varðar þá er það nú svo að þegar ríkið hefur horfið úr rekstrinum þykir eðlilegast að sá sem stöðvarnar rekur, hvort sem það er ein eða fleiri, ákveði verð til viðskiptavina sinna.

Ég tel það mjög heppilegt fyrir Hrísey að sem fyrst sé hægt að bjóða stöðina til reksturs. Hún verður líklega í rekstri til marsloka og vonandi gefur kaupandi sig fram á þeim tíma. Kaupandi sem vill nýta sér þá þekkingu sem fyrir er í eynni og þá góðu þjónustu sem þar hefur verið veitt til þess, ef því er að skipta, að reka stöðina áfram.