132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Samráðsskylda stjórnvalda við samtök fatlaðra.

385. mál
[19:05]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða mjög áhugavert mál sem væri vissulega ástæða til að ræða í þó nokkurn tíma. En mér skilst að menn hafi gert óformlegt samkomulag um að ljúka þessari umræðu tiltölulega fljótt og ég skal reyna að verða við því.

Af okkar hálfu í Frjálslynda flokknum tökum við mjög undir það sem hér er verið að leggja upp með í umræddri þingsályktunartillögu um samráðsskyldu stjórnvalda við samtök fatlaða, að slíkt samráð verði tekið upp. Í nýlegri skýrslu sem Stefán Ólafsson hefur unnið hefur hann m.a. bent á að þannig væri þessu fyrirkomið í nágrannalöndum okkar. Þar er dreginn upp samanburður á kjörum öryrkja hér á landi og í nágrannalöndunum. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það er fátt sem kemur þar á óvart að mínu viti. Við höfum bent á þau skerðingarákvæði sem eru í gildi hjá Tryggingastofnun varðandi afkomu aldraðra og öryrkja undanfarin ár. Ég hef löngum gert mér grein fyrir að í því fyrirkomulagi sem er á möguleikum aldraðra og öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu undir þeim skilyrðum sem ríkisstjórnin hefur skapað er varla hægt að ætlast til að fólk geri það þegar staðan er sú að ef fólk fer út á vinnumarkaðinn þá haldi það sáralitlu í raun og veru eftir af viðbótartekjunum. Eins og skerðingarákvæðunum er háttað lýkur þeim ekki hjá fólki almennt sem er að reyna að bæta við sig tekjum, hvort sem það eru aldraðir borgarar eða öryrkjar, fyrr en fólk er búið að þéna upp undir 160 þús. á mánuði því að 45% reglan skerðir alveg niður að grunnlífeyri.

Þannig er þetta uppbyggt, því miður, og í rauninni afleit niðurstaða, held ég, að hafa kerfið eins og það er. Það getur ekki verið annað en vinnuletjandi, bæði fyrir aldraða og öryrkja. Einnig er sú þróun á vinnumarkaðnum hér sem hefur kannski verið þannig að viðhorf til vinnuaflsins hefur harðnað. Gerð er meiri krafa um að fólk vinni allan vinnudaginn og erfiðara er að semja um hlutastörf o.s.frv. En þegar fólk stendur uppi með það ef það fer út á vinnumarkaðinn og hefur unnið sér inn 10 þús. kr. að halda ekki eftir nema 2 þús. kr. í raungildi eftir 45% skerðingu og síðan 37,73% tekjuskatt, þá er náttúrulega ekki hægt að segja fólki að fara út á vinnumarkaðinn ánægjunnar vegna, þótt sumir geri það. Það er staðreynd. Sumir gera það. Þrátt fyrir þessar reglur fer fólk út á vinnumarkaðinn ánægjunnar vegna og vegna þess að það vill fá að starfa.

Ef fólk heldur að þetta séu eingöngu mín orð er auðvelt að fara aftast í skýrslu Stefáns Ólafssonar og lesa þar eina málsgrein, með leyfi forseta. Hún hljóðar svona:

„Efla þarf vinnuhvata með því að gera atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega ábatasamari, með minnkun tekjuskerðinga í almannatryggingakerfinu, skattaívilnunum eða öðrum aðferðum.“

Skýrara getur það varla verið, hæstv. forseti. Ég held að þetta segi miklu meira en þó ég héldi ræðunni langt fram eftir kvöldi.