132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn.

286. mál
[19:17]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar á þskj. 466, við 286. mál sem er tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 og 134/2004, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn, en hann fjallar um umhverfismál.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2004 frá 4. júní 2004 og 134/2004 frá 24. september 2004, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2002/96/EB frá 27. janúar 2003 um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og 2003/108/EB frá 8. desember 2003 um breytingu á tilskipun 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang.

Markmið tilskipunar 2002/96/EB er að draga úr myndun raftækja- og rafeindatækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra aðila sem koma að lífsferli vörunnar en í henni eru m.a. ákvæði um hvernig skuli fjármagna, safna, meðhöndla og endurnýta raftækja- og rafeindatækjaúrgang. Tilskipun 2003/108/EB felur í sér breytingar á fyrrnefndri tilskipun.

Innleiðing tilskipananna krefst lagabreytinga hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.