132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

287. mál
[19:19]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar á þskj. 467, við 287. mál sem er tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn en hann fjallar um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 44/2004 frá 23. apríl 2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2003/72/EB frá 22. júlí 2003 um viðbætur við samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög að því er varðar aðild starfsmanna.

Meginmarkmið löggjafar um evrópsk samvinnufélög er að gera einstaklingum, með búsetu í mismunandi aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eða lögaðilum, sem stofnaðir eru samkvæmt lögum mismunandi aðildarríkja, kleift að stofna evrópskt samvinnufélag. Tilskipun 2003/72/EB er svo ætlað að vernda rétt starfsmanna til aðildar að málum og ákvörðunum sem snerta starfsemi evrópska samvinnufélagsins sem þeir vinna hjá.

Innleiðing tilskipunarinnar krefst lagabreytinga hér á landi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.