132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:34]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að fullyrða að samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum landsins hafi vakið miklar deilur að undanförnu og sætt mikilli gagnrýni í skólasamfélaginu, og ekki að ástæðulausu. Prófin fela að mínu mati í sér allt of mikla miðstýringu, þau taka sjálfstæði af skólunum og minnka til lengri tíma litið sérkenni þeirra. Tilgang fyrir prófunum er auk þess erfitt að finna þar sem þau hvorki ná því að mæla gæði skólanna né eru notuð sem inntökupróf í þær greinar háskóla þar sem þess er þörf, líkt og fram hefur komið að undanförnu.

Sterk rök eru fyrir því að mínu mati að hverfa frá samræmdum stúdentsprófum. Prófin hafa margar neikvæðar hliðar fyrir starf skólanna, en fáar ef nokkrar jákvæðar. Þau auka verulega á miðstýringu í framhaldsskólakerfinu, auka einsleitni skólanna og vega klárlega að sérstöðu þeirra. Þá er framkvæmd prófanna vanhugsuð og meingölluð með þeim hætti að skólasamfélag framhaldsskólanna hafna prófunum. Til marks um það skiluðu núna 70–80% nemenda í nokkrum skólum auðu í mótmælaskyni en í fyrra tóku prófin í mörgum skólunum nánast allir sem það áttu að gera, enda telja nemendur sig hafða að fíflum með prófunum.

Prófin eru tilgangslítil miðstýring sem gera fjölbreytt og gott skólakerfi einsleitt og verra. Undir það tók t.d. landsfundur Sjálfstæðisflokksins á dögunum og má segja að bragð sé að þá barnið finni. Við eigum þess í stað að fjölga valkostum í framhaldsskólakerfinu og auka fjölbreytni þannig að allir finni menntun við sitt hæfi en grundvallaratriðið er að framkvæmd prófanna sé sniðin að ákveðnum markmiðum þannig að þau séu tekin alvarlega af nemendum, háskólum og öðrum í skólasamfélaginu. Auk þessu eru til margar aðrar leiðir til að meta gæði skólastarfs en með miðstýrandi prófum. Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort í þessu ljósi væri til skoðunar að hennar mati að koma hingað með þingmál sem legði af samræmd stúdentspróf í framhaldsskólunum.