132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:37]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil minna þingheim á hvernig það bar til að samræmd próf voru tekin upp. Þau voru samþykkt í þinginu árið 1996 og enginn flokkur greiddi atkvæði gegn þessari tillögu. Meginforsendan á sínum tíma var sú að annars vegar vildu háskólarnir hafa svona próf, fá þau inn í skólakerfið, og hins vegar var þetta hugsað sem ákveðið gæðatæki.

Hins vegar verð ég að segja eins og er að ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, það eru líka efasemdir í mínum huga varðandi samræmd próf. Ég hef fyrir mitt leyti sagt að mér finnist þau að mörgu leyti fela í sér ákveðna miðstýringu. Mér finnst þau ekki stuðla að þeirri fjölbreytni sem við viljum öll. Ég vona að við getum öll tekið undir það að við viljum hafa fjölbreytni og valfrelsi í skólakerfinu. Mér finnst þau ekki samræmast þeirri hugsun en engu að síður vó það mjög þungt á sínum tíma að háskólarnir báðu sérstaklega um prófin og ég er með eins árs gamalt bréf frá Háskóla Íslands þar sem m.a. deildarforsetar háskólans hvetja ráðuneytið til að halda í samræmd próf og helst fjölga þeim eins og segir í bréfinu.

Ég held engu að síður að í ljósi þeirra framkvæmda sem átt hafa sér stað á undanförnum dögum sé rétt að yfirfara þetta mál og ég hef hug á því að kalla til þá aðila sem málið snertir, nemendur, skólastjórnendur, kennara, háskólann og fleiri, eins og t.d. Námsmatsstofnun, til að yfirfara þetta mál. Það er alveg ljóst að sú framkvæmd sem hefur átt sér stað varðandi samræmdu prófin á undanförnum dögum hefur ekki tekist sem skyldi.