132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:43]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að tilraun með samræmd stúdentspróf í þessum farvegi hefur mistekist. Framhaldsskólanemar taka ekki mark á þeim enda skil ég þau vel þar sem þau þurfa að velja á milli stúdentsprófanna sinna og þessara prófa sem hafa ekkert vægi fyrir þau. Ég er ekki í vafa um að ég hefði valið eins í sömu stöðu.

Markmiðin að mínu mati voru ekki síst þau að fá fram mælingu milli skóla um frammistöðu eða gæði kennslu. Þau markmið munu ekki nást nema með því að gera nemana samvirka. Að öðrum kosti eru prófin marklaus. Það er mikil hætta á því að stýra öllum í sama farveg og ég er ekki hrifin af slíkri miðstýringu þegar komið er upp á framhaldsskólastigið. Við höfum það á stefnuskrá okkar í Framsóknarflokknum að endurskoða alvarlega þessa framkvæmd. Ef það er nauðsynlegt að mæla stöðu skólanna held ég að það væri farsælla að leggja fyrir einhvers konar könnunarpróf og tengja þau alls ekki við útskriftina.

Ég fagna því sérstaklega orðum hæstv. menntamálaráðherra þar sem hún lýsir yfir áhyggjum sínum af prófunum og ég tel að hæstv. ráðherra taki mjög faglega á málinu.

Ég lýsi líka yfir furðu minni vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vegna hæstv. menntamálaráðherra. Ég tel mjög eðlilegt að hæstv. ráðherra lýsi frumvarpi um Ríkisútvarpið fyrir alþjóð þó svo að ekki sé búið að dreifa því. Þetta er ekkert einsdæmi í sögunni og mér finnst hæstv. ráðherra hafa haldið mjög vel á því máli og eins og ég segi eru mörg fordæmi fyrir því að þingflokkar, ekki bara hæstv. ríkisstjórn, kynni mál sín áður en þeim er dreift á hinu háa Alþingi.