132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:47]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að halda mig hér við umræðuna um samræmdu prófin. Ég fagna því að þetta mál sé tekið upp á Alþingi vegna þess að framkvæmd prófanna er og hefur verið fullkomlega galin, framkvæmd samræmdu prófanna í framhaldsskólunum. Því er vissulega mikilvægt að taka málið hér upp vegna þess að núna eru brögð að því að nemendur neiti að taka þessi próf, þau mæta í prófin og skila auðu vegna þess að prófin eru fullkomlega tilgangslaus. Þessi próf koma ofan í önnur próf, önnur mikilvæg próf sem framhaldsskólanemendur þurfa virkilega á að halda til að fá inngöngu í háskóla landsins. Við erum með fjölbreytta háskóla sem krefjast fjölbreytts undirbúnings. Þá eigum við ekki að vera með miðstýrð samræmd stúdentspróf í framhaldsskólunum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að framkvæmdin á þessum stúdentsprófum er það meingölluð að ég spyr hæstv. menntamálaráðherra, sem var líka efins um þessi próf í umræðunum áðan, hvort samræmd stúdentspróf verði framkvæmd næsta vor í sömu mynd og þau eru núna. Mér finnst að nemendur framhaldsskólanna þurfi að fá að heyra hér að þessi próf verði lögð niður strax þegar þing kemur saman eftir áramót þannig að þau þurfi ekki að þreyta þau næsta vor.

Við í Samfylkingunni mótmæltum þessari framkvæmd fyrir þremur árum þegar við sáum í hvað stefndi, þegar við sáum hvernig framkvæmd þessara prófa yrði. Þá töluðum við fyrir daufum eyrum. Þáverandi menntamálaráðherra lokaði eyrunum fyrir þeirri gagnrýni sem þá þegar var komin fram. Auðvitað fagna ég því að loksins hafi náðst til eyrna hæstv. menntamálaráðherra þó að ég vildi að hún hefði kveðið skýrar að. Framkvæmdin eins og hún er núna er fullkomlega galin, og samræmd stúdentspróf í framhaldsskólanum eru skrípaleikur eins og þau eru núna.