132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi framlög til háskólastigsins þá höfum við aukið mjög verulega framlög til háskólanna á síðustu árum. Ég hygg að það sé leitun að þjóðum sem hafa aukið jafnmikið framlög til háskólamenntunar undanfarin ár eins og við Íslendingar. Ef ég man rétt erum við í dag komin nálægt meðaltali innan OECD-ríkjanna í framlögum til háskólastigsins.

Hv. þingmaður nefndi þjóðir vestan hafs í þessu sambandi. Við vitum auðvitað að stór hluti tekna þessara skóla er í formi skólagjalda þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að við berum saman rétta hluti. Meginmálið er það að við höfum stóraukið framlög til háskólastigsins í landinu á síðustu árum og það er auðvitað það sem skiptir máli í mínum huga á þessari stundu.