132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:13]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hryggilegur vitnisburður um metnaðarleysi ríkisstjórnar Íslands í menntamálum að formaður fjárlaganefndar Alþingis lýsir því yfir úr þessum ræðustól að það sé bara býsna gott að vera undir meðaltali OECD-ríkjanna, að Háskóli Íslands rétt skríði upp yfir háskóla í Króatíu í fjárframlögum. Það ber vitni um metnaðarleysi og um skammsýni vegna þess að skortur á fjárfestingu í háskólamenntun og framhaldsmenntun fyrir hinar nýju kynslóðir veikir undirstöður atvinnulífs okkar til framtíðar, veikir okkur sem þekkingarsamfélag og veikir okkur í samkeppni þjóðanna. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi engar áhyggjur af stöðu til að mynda ríkisháskólanna eins og Háskólans á Akureyri nú um stundir.