132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:14]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar um metnaðarleysi og notar ýmis lýsingarorð hér. Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með hvað okkur hefur tekist að auka framlög til háskólastigsins á Íslandi síðustu árin. Mér finnst það bera vitni um ágætan metnað í þeim málaflokki. Ég tel að við munum halda áfram að auka þessi framlög til háskólastigsins og það er auðvitað mikill metnaður í því.

Menn geta velt fyrir sér ýmsum tölum í samanburði en þetta er staðreynd og ég lýsi bara ánægju með að það skuli hafa náð fram að ganga að auka svona framlög til háskólastigsins. Við vitum það að háskólanám hefur verið byggt upp í miklum mæli hér á landi á síðustu árum. Hér hafa sprottið upp nýir skólar þannig að mér sýnist vera töluvert mikill metnaður í þessum málaflokki, hv. þingmaður.