132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera að umtalsefni breytingartillögu á þskj. 480 frá hv. formanni fjárlaganefndar og hv. varaformanni hennar sem varðar starfsemi atvinnuleikhópa. Þau mistök voru gerð, eins og ég gat um í 2. umr. um fjárlög, að framlag sem fjárlaganefnd ætlaði að veita Leikfélagi Reykjavíkur var sett inn á liðinn Starfsemi atvinnuleikhópa, 10 millj. kr. Nú ætlar formaður fjárlaganefndar að leiðrétta þetta mál en gerir það með því að lækka framlagið til atvinnuleikhópa, sem við 2. umr. var 57 millj. kr., niður í 47 millj. kr. Ég vil mótmæla þessari gerð og óska eftir því að hv. formaður fjárlaganefndar tjái sig þá frekar um rök fyrir þessari breytingu og hvort það hafi aldrei verið skilningur fjárlaganefndar að starfsemi atvinnuleikhópa þyrfti meira fé. Mér er kunnugt um að fulltrúar atvinnuleikhópanna komu á fund fjárlaganefndar og óskuðu eftir sérstökum stuðningi við það að reka starfsemi sína í Tjarnarbíói. Þeir hafa af miklum myndarbrag verið að reyna að halda Tjarnarbíói í gangi sem leikhúsi en þeir fá, að því er virðist, enga umbun og enga viðurkenningu á þeirri þörf. Mér þykir illa komið fram við hópana að þeir skuli við 2. umr. fá 10 millj. kr. inn á liðinn sem er síðan tekið af þeim við 3. umr.

Mér finnst líka andstaða hæstv. menntamálaráðherra, sem kom fram í fréttaviðtali í gær, við þessa framkvæmd athyglisverð. Í fyrsta lagi spyr ég hv. formann fjárlaganefndar um rökstuðning fyrir því hvers vegna starfsemi atvinnuleikhópa fær ekki að halda þessum 10 millj. kr. Í öðru spyr ég hvað vaki fyrir fjárlaganefnd með þessum stuðningi við Leikfélag Reykjavíkur sem í áraraðir hefur sótt um að komast aftur inn á fjárlög ríkisins eftir að þeim var vísað þaðan í burtu fyrir nokkuð mörgum árum.