132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:19]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið er nú að koma til 3. umr. og hv. þm. Magnús Stefánsson hefur mælt fyrir því til 3. umr. Ég vil í sjálfu sér þakka fyrir samstarf í nefndinni þó svo ég gagnrýni að meiri hluti nefndarinnar afgreiði nú frumvarpið frá sér til 3. umr. án þess að taka þar á veigamiklum málaflokkum.

Ég nefni fyrst málefni öldrunarheimila, elli- og hjúkrunarheimila. Alveg frá byrjun í umræðum um fjárlög í haust, og reyndar líka í fyrra, var vitað að þessi heimili búa við mikinn rekstrarhalla, uppsafnaðan rekstrarhalla, og mjög skertan rekstrargrunn. Allar tölulegar upplýsingar liggja fyrir og mér fannst í umræðunni í haust að ætlunin væri að taka á þessum málum.

Mér finnst, frú forseti, framkoma Alþingis gagnvart öldrunarheimilunum, að rétta ekki rekstrarstöðu þeirra og halla, til skammar.

Við höfum hér bréf frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, dagsett 2. desember, þar sem er tilgreint að miðað við þær upplýsingar sem þau hafa verði rekstrarniðurstaða ársins neikvæð um 420 millj. kr. og uppsafnaður halli 31. desember 690 millj. kr. og auk þess hafa sveitarfélögin lagt til 235 millj. kr. þannig að uppsafnaður halli fer að nálgast milljarð. Allt liggur þetta fyrir. Það er talað um að málið sé í nefnd og málið sé í annarri nefnd sem er að endurskoða störf fyrri nefndar. Hvers vegna er ekki tekið á málum öldrunarheimila?