132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:46]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Rætt var um sanngirni. Þá skulum við ræða málið út frá sanngirni og staðreyndum. Staðreyndirnar eru þær, og þær tala sínu máli, að við erum að stórauka framlög okkar til háskólamála. En hins vegar er það ekki rétt sem hv. þingmaður kom inn á áðan í andsvari sínu, að nemendum sé að fjölga hér sérstaklega umfram aðrar þjóðir út af því að við erum svo ung. Það eru ekki síst eldri nemendur sem streyma inn í skólakerfið að nýju, sem er mikið fagnaðarefni, hvort sem það er á framhaldsskólastigi eða á háskólastigi. Það eru eldri nemendur sem valda þessari miklu þenslu, jákvæðri þenslu innan háskólastigsins sem og á öðrum skólastigum. Þetta m.a. leiðir til að við erum að fjölga nemendum, en það skyldi þó ekki vera að það hafi verið markviss stefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum að fjölga nemendum. Það var stefna að fjölga nemendum, fjölga valkostum og valfrelsi, auka tækifæri nemenda til að fara í háskóla. Þess vegna höfum við þetta fjölbreytta háskólanám, einkaskóla sem opinbera skóla. En það var nú bara einu sinni þannig, hv. þingmaður, að að þeirri stefnu stóðum við ein, því ekki varð betur séð en bæði Samfylkingin og Vinstri grænir berðust hatrammlega gagnvart fjölbreytninni í skólakerfinu og þá sérstaklega gagnvart einkaskólunum.

Ég vil einnig taka fram varðandi málefni Háskóla Íslands að sá skóli er á fleygiferð. Hann ætlar sér að vera á toppnum og mér sýnist hann vera á góðri leið til að verða meðal háskóla í allra fremstu röð. Og ég vil taka undir áform háskólarektors, metnaðurinn á þeim bænum er mikill sem er mjög mikið fagnaðarefni og ég vil gera allt mitt til að stuðla að því að háskólinn verði háskóli í fremstu röð, þar á meðal að efla framhaldsnámið.

En það ber að taka fram að umræðan til að mynda sem átti sér stað hér á síðasta ári varðandi launastikuna, hún er ekki lengur til staðar, og af hverju er það? Af því að í gegnum þau fjárlög sem við erum að ræða núna er búið að leiðrétta þau mál. Það er búið að leiðrétta þau mál þannig að Háskóli Íslands, sem aðrir háskólar, fær stóraukningu á framlögum til sinna mikilvægu mála (Forseti hringir.) en að sjálfsögðu viljum við gera enn betur.