132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:51]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti sem ég stend að fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs sem fulltrúi í fjárlaganefnd. En eins og þegar hefur komið fram í umræðunni er frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006 nú að koma til lokaafgreiðslu. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur ekki séð ástæðu til að endurskoða frumvarpið eða gera á því breytingar eftir 2. umr. þó svo að gögn og skýrslur hafi borist sem gefa ríkulegt tilefni til að ákveðnir þættir bæði í tekjum og gjöldum frumvarpsins væru endurskoðaðir. Má þar nefna nýja spá Seðlabankans um efnahagsþróun, bæði á þessu ári en þó sérstaklega á því næsta, sem víkur í mörgu mjög frá áætlunum fjármálaráðuneytisins.

Starfsemi og fjármögnun Byggðastofnunar er í uppnámi og byggðaáætlun fyrir næsta ár er ekki komin fram. En sú sem er rennur út nú um áramótin og þó svo hún væri ekki merkileg hefur það þó verið svo, að við höfum verið með samþykkta byggðaáætlun.

Ný skýrsla frá Ríkisendurskoðun um fjármögnun háskólanna sýnir fjárskort ríkisháskólanna allra en þó sérstaklega hjá háskólanum á Akureyri sem settur er skör neðar en aðrir í fjárveitingum. Hvergi er tekið á fjárskorti elli- og hjúkrunarheimilanna þótt ný gögn sýni nákvæmlega hver skorturinn er, hver þörfin er. Ný skýrsla Stefáns Ólafssonar um stöðu öryrkja gæfi einnig fjárlaganefnd tilefni til að fara yfir þau mál. Hvernig skattbyrði á lægstu launin hefur vaxið og hvernig tekjustaða einmitt þessara þjóðfélagshópa hefur skerst á undanförnum árum. Þegar svo meiri hlutinn afgreiddi fjárlagafrumvarpið til 3. umr. án þess að taka það inn í nefnd, mótmælti ég því og sendi formanni nefndarinnar bréf þar sem ég óskaði eftir að frumvarpið kæmi til nefndarinnar og fyrrgreind efnisatriði tekin fyrir.

Þegar til kom reyndist það vera andstætt þingsköpum að taka ekki fjárlagafrumvarpið til nefndar eftir 2. umr. og var því haldinn fundur þar sem þeirri skyldu var fullnægt en enginn efnisumræða fór fram um þá þætti sem ég hafði lagt áherslu á að nefndin tæki til umræðu og afgreiðslu áður en það væri tekið til 3. umr. en það var, eins og ég nefndi áðan, frú forseti, rekstrargrunnur og fjárhagsstaða öldrunarheimila, staða öryrkja í ljósi nýútkominnar skýrslu Stefáns Ólafssonar, fjárhagsstaða Háskólans á Akureyri í ljósi nýrra skýrslu Ríkisendurskoðunar um samanburð á háskólum og fjárhagur Byggðastofnunar og verkefni á hennar vegum. Þarna hefðum við á milli 2. og 3. umr. fengið nýjar upplýsingar sem gáfu fyllilega tilefni til þess að fjárlaganefnd færi yfir þau mál og eftir atvikum endurskoðaði tillögur sínar hvað þau viðvék.

Auk þess kom ný skýrsla frá Seðlabankanum um peningamál, desemberskýrsla, sem sýndi aðra hlið á stöðu efnahagsmála en ríkisstjórnin og fjármálaráðuneytið og meiri hluti fjárlaganefndar vill viðurkenna eða láta koma fram í því fjárlagafrumvarpi sem við erum að fjalla um.

Frú forseti. Ég vil árétta að ég átel þessa vinnu fjárlaganefndar. Að taka ekki inn skýrslur og ný efnisatriði varðandi veigamikla þætti fjárlagagerðarinnar sem berast milli 2. og 3. umr. og fjalla um það efnislega. Ég átel þau vinnubrögð fjárlaganefndar að hafa ekki gert það.

Í frumvarpinu með þeim breytingum sem gerðar voru við 2. umr. er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 315 milljarðar kr. og þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi í skýrslu sinni frá því í júní á þessu ári bent á að margir fjárlagaliðir safni stöðugt upp meiri halla er ekki tekið á þeim vanda nema að litlu leyti. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 334,6 milljarðar kr., og gert er ráð fyrir 20 milljarða kr. afgangi á þessu ári. En ef tekið er tillit til þess að vitað er að margar stofnanir fara núna inn í næsta ár með halla þá er það í rauninni sýndartala.

Vinstri hreyfingin — grænt framboð áréttar enn þá kröfu að vandað sé til fjárlagagerðarinnar og hið raunverulega rekstrarumfang komi fram í fjárlögum og fái þar efnislega umræðu en ríkisstjórnin sé ekki síðan að læða inn í rauninni í fjáraukalögum og lokafjárlögum þeim rekstrarvanda eða þeirri rekstrarþörf og fjárþörf sem fyrirsjáanleg er við gerð fjárlaga. Það er rétt að vera minnug þess að ekkert gjald má greiða af hendi nema að heimild sé til þess í fjárlögum og á fjáraukalögum.

Frú forseti. Þá hefur mjög skort á að fjárlaganefnd fengi eðlilegar upplýsingar um stöðu einstakra stofnana og viðfangsefna á vegum ríkisins. Þrátt fyrir gríðarlegar upphæðir sem veittar hafa verið til að endurnýja tölvu- og bókhaldskerfi ríkisstofnana, verið einkavætt og varið til þess miklum fjármunum, þá hefur sú staða að veita upplýsingar bæði til Alþingis, til fjárlaganefndar og til stofnana síst batnað. Ég tel að eitt brýnasta mál nú fyrir fjársýslu ríkisins og fyrir stjórnun fjármála ríkisins sé að fara í gegnum þessi mál, innri mál sín, og kanna hvort ekki sé réttara að taka þennan málaflokk aftur inn til ríkisfjárhirslunnar, bókhaldið og uppgjörið þannig að bæði Alþingi og stofnanir geti átt þá eðlilegra og greiðari aðgang að upplýsingunum. Eins og nú er, er staða bókhalds og fjársýslunnar og upplýsingagjafar innan ársins varðandi rekstur ríkisins algerlega ófullnægjandi. Og fjárlagagerðin og umfjöllun um einstaka fjárlagaliði eðlilega geldur þess.

Í fyrra nefndaráliti með fjárlögum við 2. umr. var farið yfir hversu efnahagslegar forsendur fjárlaganna hafa reynst veikar. Meðal annars var bent á að gert var ráð fyrir að gengisvísitalan yrði um 125 stig á árinu 2005 en hún fór niður undir 100 og er nú um 106 og ekki er enn vitað hvert verði meðatal ársins. Líklega verður það nálægt 110 og víkur það allmikið frá því sem áætlað var, að gengisvísitalan yrði 125 og sér hver heilvita maður, að ætla að reka fyrirtæki eða atvinnurekstur við svona miklar gengissveiflur og svona óáreiðanlegar áætlanir um gengi er mjög erfitt.

Þá má benda á að gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir ári að viðskiptahallinn yrði rúmir 100 milljarðar en nú telur fjármálaráðuneytið að hann verði jafnvel yfir 130 milljarða og Seðlabankinn telur í nýrri skýrslu sinni að viðskiptahallinn fyrir árið í ár verði um 15,5% af landsframleiðslu eða nálgist 150–160 milljarða kr. Það er nokkur breyting frá því sem áætlað var við gerð fjárlaga eða upp á 30–50 milljarða sem viðskiptahallinn verður meiri á árinu 2005 en fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir.

Aðstæður fjárlaganefndar til að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda- og tekjuhliðar frumvarpsins hafa versnað stórum á undanförnum árum, m.a. af því sem ég greindi frá að skýrslugerð, bókhald og annað því um líkt hefur síst batnað. Auk þess var Þjóðhagsstofnun lögð niður og nú hefur Alþingi enga sjálfstæða stofnun til að leita til varðandi aðstoð og ráðgjöf við mat á efnahagsforsendum og þróun efnahagsmála. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað lagt til á Alþingi að stofnuð verði sérstök efnahagsskrifstofa þingsins sem gæti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála ríkisins og verið þingmönnum og nefndum þingsins til ráðuneytis um mat og tillögugerð í þeim efnum. Ég tel þetta mjög brýnt, frú forseti.

Það var fyllilega ástæða til að fjárlaganefnd tæki fyrir breyttar horfur í efnahagsmálum, m.a. í ljósi desemberheftis Peningamála, nýs rits frá Seðlabanka Íslands um horfur í efnahagsmálum, bæði fyrir þetta ár og næsta ár og hefði verið eðlilegt að fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu hefðu komið á fund nefndarinnar og farið yfir og borið saman þann mismun sem augljóslega er á. Meiri hluta fjárlaganefndar fannst það ekkert tiltökumál þó að efnahagslegar forsendur gætu verið að breytast mjög hratt, það væri í sjálfu sér eitthvað sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af. Ég er því ekki sammála. Ef aðeins er litið á nokkur atriði sem Seðlabankinn bendir á í nýrri skýrslu sinni þá segir þar að Seðlabankinn taki sérstaklega fram að enn sé mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Áætlað sé að viðskiptahallinn verði 15,6% af landsframleiðslu ársins 2005. Síðasta áætlun fjármálaráðuneytisins hljóðaði upp á rúm 13% og að viðskiptahallinn verði um 154 milljarðar kr. á þessu ári. Fyrsta áætlun fjármálaráðuneytisins við afgreiðslu fjárlaga í fyrra gerði ráð fyrir liðlega 100 milljörðum þannig að það sést hve gríðarlegur munur er að verða hér á. Seðlabankinn spáir að viðskiptahallinn verði 11,9% af landsframleiðslu ársins 2006 eða um 132 milljarðar en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir örlítið meiri viðskiptahalla. Seðlabankinn spáir að einkaneysla verði 8 milljörðum kr. meiri en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir og svo mætti áfram telja varðandi allmörg atriði sem við byggjum efnahagsstefnu okkar á. Við byggjum á þessum grunnforsendum.

Það er alveg ljóst að í því óörugga efnahagsástandi sem við búum nú við, sem kallað hefur verið ógnarjafnvægi í efnahagsmálum, þá eru það m.a. hinar gríðarlegu samþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir sem ákveðið var að ráðast í, bæði fyrir austan og hér á suðvesturhorninu, sem valda þessum áhrifum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað bent á erfiða stöðu útflutningsgreina ferðaþjónustunnar vegna allt of hás gengis krónunnar. Jafnframt blasir við sívaxandi viðskiptahalli með tilheyrandi skuldasöfnun og það getur ekki gengið til lengdar. Á innan við ári hefur störfum í sjávarútvegi fækkað um 500. Útflutnings- og samkeppnisiðnaður bregst við með því að leggja niður starfsemi eða flytja hana úr landi. Talsmenn atvinnulífsins vítt og breitt um land sem og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentu ítrekað á þá hættu sem ruðningsáhrif stóriðjunnar mundu hafa á hagkerfið og aðrar atvinnugreinar í landinu. Samþjöppun í stóriðjuframkvæmdum mundi stefna efnahagslegum stöðugleika í voða. Sama lagði Seðlabankinn áherslu á í skýrslu sinni fyrir ári síðan. Þessar gríðarlegu samþjöppuðu framkvæmdir eru allt of stórar fyrir okkar litla hagkerfi og okkar litla vinnumarkað, enda er reyndin sú að ruðningsáhrifin koma fram í erfiðleikum í sjávarútvegi og í öðrum útflutningsatvinnugreinum, ferðaþjónustunni, hátækniiðnaðinum. Til viðbótar eykur svo ríkisstjórnin á þessa misskiptingu, á þessa þenslu með því að lækka skatta á þeim sem hafa hæstar tekjur og ekki bætir það úr skák að það leiðir til aukins svokallaðs ógnarjafnvægis í efnahagsmálum eins og menn hafa kallað það.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst algerri andstöðu við þá vaxandi misskiptingu sem núverandi ríkisstjórn hefur stuðlað að. Áður hefur verið minnst á að Gini-stuðullinn svonefndi, sem notaður hefur verið til að bera saman launa- eða tekjuskiptingu innan þjóðarinnar, er að breytast hér á landi. Því lægri sem stuðullinn er því minni misskipting. Meðan hinar Norðurlandaþjóðirnar eru með um 25 í Gini-stuðul fyrir tekjur hefur Ísland hækkað úr 21 í 31 frá árinu 1995 til 2003. Eftir síðustu skattkerfisbreytingu, sem samþykkt var á síðasta þingi, færumst við enn fjær og hraðar frá öðrum Norðurlandaþjóðum hvað varðar innri jöfnuð tekna.

Þegar lög um breytingar á skattkerfinu voru samþykkt á síðasta þingi benti Vinstri hreyfingin – grænt framboð á að breytingar á tekjuskatti og eignarskatti kæmu langbest við þá efnameiri í þjóðfélaginu. Ef skattleysismörk hefðu fylgt þróun neysluvísitölunnar frá árinu 1988 væru skattleysismörkin ekki 75 þús. kr. heldur ríflega 100 þús. kr. og um 130 þús. kr. ef þau hefðu hækkað í samræmi við hækkun launavísitölunnar. Á árinu sem nú er að líða hækkar neysluvísitalan um ríflega 4% en persónuafslátturinn hækkar aðeins um 2,5% fyrir árið 2006. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi eru því með aðgerðum sínum að færa skattleysismörkin stöðugt neðar. Þessi framkvæmd kemur þeim sem lægstar hafa tekjurnar verst en lækkunin á skattprósentunni kemur þeim best sem hæstar hafa tekjurnar. Það er markmið þessarar ríkisstjórnar að ívilna og gera best við þá sem hafa hæstar tekjurnar en láta þá sem eru á lægstu tekjum stöðugt bera hlutfallslega stærri hlut af skattbyrðinni eða sameiginlegum framlögum okkar til samneyslunnar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að lágmarkskrafa sé að skattleysismörk fylgi almennum verðlagsbreytingum en til þess þarf að verða grundvallarstefnubreyting á hjá þessari ríkisstjórn.

Tekjumyndun í þjóðfélaginu hefur breyst gífurlega á síðustu árum. Sífellt fleiri Íslendingar hafa mjög háar tekjur af eignum sínum. Þær bera aðeins 10% skatt en skattprósentan á launatekjur er um 37%. Til þess að jafna og gera skattlagninguna réttlátari hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar hækki úr 10% í 18% eftir að 120 þús. kr. fjármagnstekjum er náð. Við leggjum áherslu á það í tillögum okkar að eðlilegt sé að stuðla að sparnaði og að einstaklingar geti lagt fyrir nokkra upphæð án þess að það sé skattlagt eða hafi áhrif á aðrar greiðslur. Við viljum afnema að lágmarkssparnaður hafi áhrif t.d. á greiðslu almannatrygginga eða greiðslu barnabóta, en þegar komið er yfir ákveðið hámark í fjármagnstekjum geti viðkomandi greitt skatta meira í líkingu við það sem gert er af launum. Við leggjum til að það sé aðeins helmingur af því sem greitt er af launum en það er samt veruleg breyting frá því sem nú er þegar lagður er flatur 10% fjármagnstekjuskattur á allar fjármagnstekjur. Í fylgigögnum með frumvarpinu eru dæmi sem sýna að skattlagning fjármagnstekna er almennt lægri hér á landi en í flestum viðmiðunarlöndum okkar. Núverandi ríkisstjórn létti skattbyrðinni mest af stóreignamönnum þegar eignarskatturinn var afnuminn. 2. minni hluti leggur til að nú þegar stór hluti tekna í þjóðfélaginu skapast af eignum verði skattbyrði réttlátari með því að jafna betur skattana á milli tekna af launum og fjármagns og arðgreiðslna. Það er fullkomið réttlætismál að meiri jöfnuður verði á milli skatta af arði og fjármagnstekjum og af launum.

Í ljósi þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt verðlagsþróuninni hefur skattbyrðin á þá sem hafa lægstar tekjur hækkað verulega og ráðstöfunartekjur versnað að sama skapi. Þessi staðreynd kemur vel fram í skýrslu Félagsvísindastofnunar frá 1. desember 2005. Allt virðist leggjast á eitt með að gera samanburð við önnur ríki á Norðurlöndum óhagstæðan. Á undanförnum árum hefur atvinnuþátttaka öryrkja minnkað úr 42% í 38,5%. Á árinu 2003 var starfsendurhæfing hér á landi rúm 4%, en um 20% í Danmörku og tæp 40% í Noregi. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar kemur fram að hlutfall tekna öryrkja miðað við aðra þjóðfélagshópa er mun lakari á Íslandi en hjá öðrum OECD-ríkjum. Miðað við stöðuna eins og hún var 1999 var hlutfallið í Danmörku um 86% og Noregi 79% en 65% á Íslandi. Áhrifin af breytingunum sem gerðar voru 2004 koma hlutfallinu á Íslandi aðeins í 67% það ár. Þegar tekjurnar og samfélagsþátttakan er vegin saman er Ísland í einu af neðstu sætum OECD-ríkjanna. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að þessi staða er algerlega óviðunandi og gerir kröfu til þess að brugðist verði við þessum vanda nú þegar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlast til þess að stjórnvöld vinni samkvæmt lögunum frá árinu 1992 um málefni fatlaðra. Í 1. gr. þeirra laga segir: „Markmið þessara laga er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

Þrátt fyrir að íslenskt samfélag mælist nú með einna hæstu tekjur í heiminum á hvern íbúa, hefur núverandi ríkisstjórn ekki séð sóma sinn í því að sinna þeim sem lægst hafa kjörin, heldur aukið misréttið með því að létta skattbyrðinni af þeim betur settu en þyngja hana hlutfallslega á þeim sem lægri hafa tekjur. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að þessari þróun verði að snúa við með því að bæta kjör öryrkja, aldraðra og þeirra launamanna sem lægst hafa kjörin. Þá er sérstaklega bent á smánarleg kjör þeirra sem vinna að umönnun barna, sjúkra og eldri borgara, enda kemur það í ljós hversu erfitt er að manna einmitt þau störf. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til að persónuafslátturinn verði hækkaður þannig að skattleysismörkin hætti í stað þeirra ívilnana og skattalækkana á hátekjufólki sem ríkisstjórnin keyrir nú í gegn. Það mun leiðrétta kjör öryrkja, aldraðra og þeirra sem verst eru settir hvað kjör varðar. Til að mæta þessum útgjöldum að hluta er bent á að hækkun á skatti af fjármagns- og arðgreiðslum úr 10% í 18% eftir að 120 þús. kr. markinu er náð mundi jafna nokkuð þann mun sem hér um ræðir.

Frú forseti. Þrátt fyrir þá miklu umræðu sem hefur verið um að bæta þurfi aðbúnað eldri borgara, þá er framlag til Framkvæmdasjóðs aldraðra ekki nægjanlegt til að standa undir rekstri sjóðsins miðað við núverandi rekstur. Uppsafnaður halli sjóðsins var 174 millj. kr. í árslok 2004. Miðað við fjárlögin fyrir árið 2006 þarf sjóðurinn að minnka umsvif sín verulega. Þá vekur það athygli að framlög til bygginga og viðhalds hjúkrunar- og öldrunarrýma lækka um rúmar 300 millj. kr. frá fjárlögum 2005.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð kallar eftir viðeigandi aðgerðum til að tryggja eldri borgurum þessa lands eðlilegan aðbúnað og umönnun. Vísað er til meðfylgjandi bréfs frá fulltrúum öldrunarstofnana sem fylgir með þessu nefndaráliti. Hér er bréf frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um rekstrarhalla öldrunarheimila, dagsett 2. desember 2005. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundi með fjárlaganefnd Alþingis þann 16. nóvember sl. var óskað eftir að SFH fengi upplýsingar hjá öldrunarheimilum innan samtakanna um áætlaða rekstrarniðurstöðu ársins í ár. Send var fyrirspurn til þeirra og hafa 20 svarað. Áætla stjórnendur heimilanna að rekstrarniðurstaða ársins verði neikvæð um 420 millj. króna fyrir afskriftir, sem er um 7,2% af tekjum þeirra.

Einnig var spurt um uppsafnaðan rekstrarhalla til 31. 12. 2004 og er hann alls 690 millj. króna hjá þessum heimilum. Framlög sveitarfélaga fram til sama tíma eru um 235 millj. króna

Það er því ekki að ástæðulausu sem forsvarsmenn öldrunarheimila hafa áhyggjur af stöðu og framtíð heimilanna og þeim öldruðum sjúkum sem þar dvelja.“

Frú forseti. Ég nefni þetta vegna þess að ítrekað hefur komið fram í umræðunni að fjárhagsstaða öldrunarheimilanna væri í skoðun í heilbrigðisráðuneytinu, í skoðun. Það hefur jafnframt komið fram að nefnd var skipuð fyrir nokkrum árum og henni falið að skoða rekstrargrunn öldrunarheimilanna. Hún komst að þeirri niðurstöðu að það vantaði, að mig minnir, 8–10% í rekstrargrunninn til þess að hann væri réttur. Ekki þótti þetta nægilegt þannig að önnur nefnd var skipuð til þess að fara ofan í sömu hluti og auðvitað er niðurstaðan nákvæmlega sú sama. Það er því fullkomlega óábyrgur fyrirsláttur að segja að upplýsingar liggi ekki fyrir um rekstrarþörf og fjárhagsstöðu öldrunarheimilanna. Þær liggja fyrir. Það vantar bara viljann til að taka á því. Mér finnst eitt hið daprasta við afgreiðslu fjárlaga vera að ekki skuli tekið á augljósri rekstrarþörf elli- og hjúkrunarheimilanna og reyndar líka heimahjúkrunarinnar sem líka stórlega skortir fjármagn, að ekki skuli tekið á því í fjárlagafrumvarpinu, ég tala nú ekki um eftir allt tal forustumanna stjórnarflokkanna, ráðherranna, um góðærið mikla og þær miklu tekjur sem séu í íslensku samfélagi. En þá er ekki vera hægt að koma til móts við sjálfsagða þörf sem liggur fyrir í rekstri elli- og hjúkrunarheimila. Menn tala um að ríkissjóður hafi allt of mikla peninga. Því sér ekki stað þegar tekið er á halla, rekstrarþörf og uppbyggingu elli- og hjúkrunarheimila, frú forseti, og ég átel það.

Það hefur verið fjallað um menntamálin og stöðu háskólanna fyrr í þessari umræðu. Það kom skýrsla frá Ríkisendurskoðun um stöðu ríkisháskólanna hér á landi í samanburði við háskóla erlendis. Það kom einmitt fram að fjárframlög til Háskóla Íslands, flaggskips íslenskra mennta, eru ein þau lægstu í samanburði við ríkisháskóla í öðrum löndum. Til viðbótar hefur komið fram skýrsla eða minnisblað frá Ríkisendurskoðun um stöðu háskólanna hér á landi. Þar kemur einmitt fram að Háskólinn á Akureyri býr við sérstaklega skertar fjárveitingar miðað við aðra háskóla í landinu. Ég óskaði eftir því að á þessum málum yrði tekið innan fjárlaganefndar áður en fjárlög yrðu afgreidd til 3. umr. en því hafnaði meiri hlutinn. Því leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, til nú við 3. umr. að veita aukið fé til háskólanna og koma þar með að nokkru til móts við augljósa og eðlilega fjárþörf til þess að starfsemin geti svarað kröfum og væntingum okkar.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki tekið á hallarekstri margra framhaldsskóla. Reiknilíkanið sem unnið er eftir leysir ekki þennan vanda. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri leið sem menntamálaráðherra hefur boðað með skerðingu náms til stúdentsprófs að því er virðist með það að meginmarkmiði að spara fjármagn til framhaldsskólans. Það hefur verið lagt til að færa hluta af þeirri kennslu og starfsemi sem nú er í framhaldsskólunum í grunnskólann. En mér er ekki kunnugt um að nokkrar viðræður hafi farið fram á milli ríkis og sveitarfélaga um að sveitarfélögin taki stærri hluta framhaldsskólanámsins á sínar herðar. Ég veit ekki betur en að sveitarfélögin telji sig fullsödd af að axla fjárhagslega ábyrgð á grunnskólanum og telji sig hafa fengið minna fjármagn frá ríkinu til reksturs grunnskólans en þörf var á þegar grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna. Þess vegna eru það mjög furðuleg vinnubrögð stjórnvalda og hæstv. menntamálaráðherra að fara einhliða í þetta með þeim hætti að skerða nám til stúdentsprófs með styttingu námstíma í framhaldsskóla en ætla síðan að færa hluta af náminu niður í grunnskólann án þess að eiga nokkrar viðræður við samtök kennara eða Samtök sveitarfélaga um það mál enda er sparnaðarhugmynd ríkisins augljós og yfirgnæfir allt í þeirri vegferð sem hæstv. menntamálaráðherra er þar að leggja upp í.

Þá vil ég og minnast á tónlistarnámið. Fyrirkomulag tónlistarnáms í grunn- og framhaldsskólum hefur verið í vissu uppnámi. Gert var sérstakt samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um að ríkið veitti nokkurn fjárstuðning til tónlistarnáms í framhaldsskólum. Sá samningur rennur út nú um áramótin og hvorki bólar á að sá samningur verði endurnýjaður né að neinar aðgerðir komi til þess að tryggja áframhaldandi nokkurt jafnræði við tónlistarnám í framhaldsskóla.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig á að taka á málefnum tónlistarnámsins, t.d. í framhaldsskólanum, nú þegar sú fjárveiting sem um var samið á milli aðilanna fellur niður um áramót og ekki er gert ráð fyrir neinu fjármagni þar inn? Á tónlistarnámið að vera áfram hornreka í starfi og námi í framhaldsskólum landsins? Kannski lýsir stefna menntamálaráðuneytisins sér best og afstaða þess til menntamála í því sem er að gerast við einkavæðingu Listdansskólans. Þar á að einkavæða listdansnámið og væntanlega reka skólann að stórum hluta með skólagjöldum þannig að það nám verði fyrst og fremst forréttindi hinna ríku. Er það afstaða menntamálaráðherra til listnáms að það skuli vera forréttindanám fyrir þá sem hæstar hafa tekjurnar og geta greitt hæstu skólagjöldin?

Frú forseti. Með þessu nefndaráliti fylgir ályktun frá Félagi framhaldsskólakennara um fjárveitingar til framhaldsskólanna og fjárhagsstöðu þeirra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Félags framhaldsskólakennara hvetur Alþingi til að veita framhaldsskólum það fjármagn sem þeir þurfa til að tryggja jafnrétti til náms, kennslu við hæfi og fjölbreytt námsframboð fyrir þá sem þess óska.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2006 eru fjárveitingar til framhaldsskóla enn á ný stórlega vanáætlaðar. Á sama tíma hafa stjórnvöld uppi áform um að stytta nám til stúdentsprófs. Þetta á sér stað um leið og æ fleiri sækja um inngöngu í framhaldsskóla. Ekki er hægt að skilja þessi áform öðruvísi en sem ásetning um að koma böndum á fjölda framhaldsskólanemenda til að spara í rekstri skólanna.“

Svo segir á ályktun Félags framhaldsskólakennara sem barst okkur í fjárlaganefnd einmitt í dag.

Áfram er rakið í ályktun Félags framhaldsskólakennara hvernig grófleg og árviss vanáætlun hafi viðgengist við að áætla fjármagn til framhaldsskólanna, með leyfi forseta.

„Í fjárlagafrumvarpi árið 2003 var gert ráð fyrir að útgjöld til skólanna myndu aukast um 3% og um 4% á næstu árum vegna fjölmennari aldursárganga. Útgjaldarammi framhaldsskóla hefur hins vegar staðið í stað og aðeins hækkað árlega um liðlega 3%.“ — Í heild sinni frá þessum tíma. — „Fjárveitingum til skólanna, samkvæmt gildandi fjárlögum hverju sinni, hefur auk þess verið „þjappað saman“ í reiknilíkani menntamálaráðuneytis sem þýðir enn frekari skerðingu á fjárheimildum.“

Í þessari ítarlegu ályktun Félags framhaldsskólakennara er rakið hvernig kerfislega hefur verið dregið úr framlögum til framhaldsskólanna miðað við fjölda nemenda, þeim haldið í spennitreyju og að skólar hafi orðið að vísa frá nemendum, meira að segja skólar þar sem talið er að fjölgun nemenda gæti aukið hagræði og hagkvæmni í rekstri. Þeim hefur verið gert að vísa nemendum frá vegna þess að fjárhagsrammi þeirra hefur verið settur svo stífur og strangur að þeir hafa ekki getað tekið við öllum þeim nemendum sem vildu sækja þar skólavist.

Sem dæmi má nefna að útreikningar í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005, eins og það var samþykkt, byggðust á að nemendur væru 18.200 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir að þeir verði 18.900 en vitað er að fjöldinn er meiri. Það liggur nú þegar fyrir.

Frú forseti. Ég vísa að öðru leyti til þessarar ítarlegu ályktunar Félags framhaldsskólakennara sem barst okkur. Það hefði í sjálfu sér verið eðlilegt að fjárlaganefnd hefði fjallað um hana áður en hún afgreiðir fjárlagafrumvarpið frá sér með svo kæruleysislegum hætti eins og ég hef hér áður vikið að.

Þá má og nefna það sem hér hefur komið til tals áður, það eru fjárveitingar til leikhúsanna, til sjálfstæðu leikhúsanna eða til Leikfélags Reykjavíkur.

Frú forseti. Ég stóð sjálfur í þeirri meiningu að verið væri að afgreiða fjárveitingu til sjálfstæðu leikhúsanna þegar verið var að afgreiða þetta hér við 2. umr. Síðan hefur komið í ljós að sú fjárveiting er áætluð til Leikfélags Reykjavíkur. Ég tel líka eðlilegt að Alþingi horfi til Leikfélags Reykjavíkur og veiti því nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning. Það er eðlilegt og sjálfsagt. Öflugt leikhúslíf er stolt okkar og skiptir menningu okkar og afl miklu máli — að standa að baki þeim sem leggja á sig ómælda vinnu öðrum til ánægju, menningarauka og uppörvunar. Það er alveg sjálfsagt að samþykkja að veita Leikfélagi Reykjavíkur fjárhagsstuðning. En það hafði bara ekkert að gera með fjárstuðning til sjálfstæðu leikhúsanna og það á alls ekki að blanda þessu tvennu saman. Um tvo ólíka, sjálfstæða aðila er að ræða þótt vissulega njóti þeir í mörgum tilvikum stuðnings hvor hjá öðrum eins og eðlilegt er. Ég hygg að einmitt Leikfélagi Reykjavíkur og Borgarleikhúsinu sé ekki hvað síst stuðningur að starfi sjálfstæðu leikhúsanna sem koma þar inn með sínar góðu og öflugu sýningar. En það á ekkert skylt við það þegar Alþingi tekur ákvörðun um að veita þessum aðilum stuðning til að standa við sitt öfluga starf og hvetja til enn frekari dáða. Leikfélag Reykjavíkur er vel komið að fjárstuðningi alveg eins og sjálfstæðu leikhúsin eru vel komin að sjálfstæðum stuðningi. Þannig að mér finnst, frú forseti, eins og málin hafa síðan þróast, að þá sé erfitt að skilja hina efnislegu röksemd á bak við þessar tilfæringar í fjárveitingum til leiklistarfélaganna hér í Reykjavík. Mér fannst það á allan hátt skiljanlegt þegar fulltrúar sjálfstæðu leikhúsanna komu á fund fjárlaganefndar og greindu frá sínu merka starfi, væntingum og metnaði og greindu frá því til hvers þau væru að sækja stuðning. Mér fannst full ástæða til þess í sjálfu sér að styðja það. Það er mín skoðun.

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagnar auknum framlögum til barnabóta í frumvarpinu. En til lengri tíma litið er það eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að foreldrum séu sköpuð skilyrði til samveru með börnum sínum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur einmitt haft forustu í umræðunni um gjaldfrjálsan leikskóla og þingflokkurinn hefur í tillögu til þingsályktunar lagt til að unnið verði að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan í áföngum. Slíkt jafnar aðstöðu barnafjölskyldna og gefur þeim aukið tekju- og fjölskyldulegt svigrúm. Til að þetta verði mögulegt er lagt til að ríkið komi til móts við sveitarfélögin með sérstakri fjárveitingu til að hrinda í framkvæmd fyrsta áfanga áætlunar um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir alla. Nánar er gerð grein fyrir þessu máli í meðfylgjandi þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um gjaldfrjálsan leikskóla, sem hefur verið flutt hér á Alþingi.

Frú forseti. Ef litið er til ýmissa þátta atvinnulífsins kemst ég ekki hjá því að minnast á stöðu ferðaþjónustunnar. En stóriðjustefnan, hátt gengi íslensku krónunnar, ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar koma hvað harðast niður á þeirri atvinnugrein. Ef horft er til þess að verð á ferðum til Íslands í dollurum hefur á tveggja, þriggja ára bili lækkað um kannski 20, 30, 40%. Hvernig á þá innlend ferðaþjónusta bæði að taka á sig þessa miklu gengisbreytingu — og mæta auknum kostnaði innan lands sem er óhjákvæmilegur líka — og standa að uppbyggingu ferðaþjónustunnar? Ofan á þetta bætist að ríkisvaldið dregur úr fjárframlögum til grunnstoða ferðaþjónustunnar eins og markaðsstarfs. Fjármagn var í nokkrum mæli aukið til ferðaþjónustu á árunum 2001 og 2002. En á árunum 2004 og 2005 og aftur núna hefur verið dregið úr fjárframlögum til ferðaþjónustunnar. Fulltrúar samtaka ferðaþjónustunnar komu einmitt á fund samgöngunefndar, þar sem ég átti sæti, og greindu frá þessari stöðu. Þegar þeir voru spurðir að því hvað þeir teldu að nú þyrfti að gera lögðu þeir áherslu á að breyta þyrfti efnahagsumhverfinu þannig að gengisskráningin væri nær íslenskum viðskiptajöfnuði, til þess að við næðum jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Þeir bentu á að hægt væri að setja fjármagn inn í markaðsstarf ferðaþjónustunnar, bæði erlendis og innanlands. En það er ekki gert. Heldur er það látið standa í stað á milli ára. (BJJ: Er ekki Ferðamálaráð?) Hv. þm. Birkir Jón Jónsson talar um Ferðamálaráð, en Ferðamálaráð sem hefur litla fjármuni getur nú lítið gert. Hugsið ykkur t.d. ef Þingeyingar fengju verulegan fjárstuðning til uppbyggingar ferðamála. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gæti komið og montað sig af því í Þingeyjarsýslu að kannski hálfur milljarður eða milljarður væri lagður í grunnstuðning við ferðamál í Þingeyjarsýslu. Hvað er nú verið að leggja í að rannsaka forsendur fyrir álveri í Þingeyjarsýslu af hálfu ríkisins? Eru það ekki nokkrir tugir eða nokkur hundruð milljóna á ferð? Það eru til peningar þegar á að rannsaka forsendur álvers eða virkjun Skjálfandafljóts. Taka Aldeyjarfoss. Þá eru til peningar til að segja við Þingeyinga: Við skulum rannsaka forsendur fyrir álver og virkja Skjálfandafljót og eyðileggja Aldeyjarfoss. Ef Þingeyingar stæðu nú frammi fyrir einmitt því vali að fá þá peninga sem nú er verið að leggja í að undirbúna álver, stíflur og stórvirkjanir á svæðinu til að byggja upp ferðaþjónustu. Hvort mundu þeir velja? (BJJ: Byggja upp hvalasafn.) Ætli þeir vilji ekki byggja upp hvalasafn. (BJJ: Við höfum stutt það.) Allt of lítið, frú forseti. Ef fjármagni sem núna á að leggja í stóriðjudrauma Framsóknarflokksins, álráðherrans, á Þingeyjarsýslusvæðinu væri varið í ferðaþjónustu, ætli Þingeyingar mundu ekki velja ferðaþjónustuna. En ríkið og ríkisstjórnin velur að setja peninga í álbræðslur, setja peninga í stórvirkjanir. Þá eru nógir peningar. En þegar kemur að öðru atvinnulífi eins og ferðaþjónustu — vistvænni ferðaþjónustu sem byggist á því að Skjálfandafljótið og Aldeyjarfoss séu ósnert, að jökulsárnar í Skagafirði séu ósnertar — þá er ekki til fjármagn. Nei. En ef við ætlum að setja fjármagnið í að rannsaka náttúruna sem stórvirkjunarkost, til álbræðslu, þá er til nóg fé. Frú forseti. Þessar áherslur stóriðjuríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnarinnar sem er á móti náttúrunni, eru dapurlegar.

Því leggjum við hér til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í okkar breytingartillögum, að viðbótarfjármagni við það sem nú er gert, og meiri hlutinn hefur lagt til, sé varið til upplýsingamiðstöðva á landsbyggðinni. Slíkar upplýsingamiðstöðvar eru ein af grunnstoðunum í eflingu ferðaþjónustu út um land og koma öllum sem starfa að ferðaþjónustu til góða. Aukningin, þessar 50 millj. kr., mun koma að miklum notum þó að aðeins þessi upphæð verði samþykkt. Sömuleiðis leggjum við til að varið verði 250 millj. kr. til viðbótar í markaðssókn í ferðaþjónustu sem er þó aðeins rétt til þess að færa þær upphæðir í sama horf og var fyrir þremur, fjórum árum.

Frú forseti. Þá leggjum við líka til að hugað sé að áningarstöðum fyrir ferðafólk út um land og grunnstoðir ferðaþjónustunnar verði styrktar. Þetta er það sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljum leggja áherslu á. En ekki þessa ofurtrú á álbræðslur um allt land, stórvirkjanir og spillingu á náttúruauðlindum landsins. Eigum við ekki að stöðva þær nú og ljúka því sem í gangi er áður en við göngum lengra? Tökum þá peninga sem nú er verið að setja í áframhaldandi rannsóknir og skoðanir og samninga um nýjar álbræðslur. Tökum þá og setjum þá í ferðaþjónustuna út um land. Ég er viss um að sá er vilji landsmanna en ekki frekari álbræðslur.

Frú forseti. Í nýjasta hefti Peningamála frá því í desember 2005, sem birtist nú fyrir tveimur dögum, segir, með leyfi forseta:

„Mikið ójafnvægi einkennir núverandi ástand efnahagsmála þar sem saman fer metviðskiptahalli, raungengi í sögulegum hæðum, mikil hækkun íbúðaverðs, vaxandi skuldsetning heimila, fyrirtækja og þjóðarbúskaparins í heild sinni og verðbólga yfir markmiðum Seðlabankans.“

Frú forseti. Ég er að lesa upp úr nýjasta hefti Peningamála. Áfram koma hér fulltrúar ríkisstjórnarinnar, fjármálaráðherrann, og segir að ástandið hafi aldrei verið betra. Kannski ekki í hans ráðherratíð, enda er hún svo stutt og verður vonandi ekki löng — ekki sem fjármálaráðherra. En það sýnir hversu óraunsætt mat forsvarsmenn þessarar ríkisstjórnar leggja á stöðu efnahagsmála. Seðlabankinn, forustumenn hans, viðurkenna þetta. Atvinnulífið viðurkennir þetta. En ríkisstjórnin lemur hausnum við steininn. Samkeppnisstaða útflutningsgreinanna, sjávarútvegs, fiskvinnslu, ferðaþjónustu og hátækniiðnaðar og samkeppnisstaða alls frumkvöðlastarfs veikist stöðugt einmitt fyrir ruðningsáhrif stóriðjustefnu þessarar ríkisstjórnar. Ruðningsáhrifin geta líka verið af hinu góða, var kveðja iðnaðarráðherra til Vestfirðinga í vor í fjölmiðlum þegar fjölda manns var sagt þar upp og fiskvinnslu lokað. Er verið að gera Ísland náttúrulaust, spyrja samtök sem boða til mikillar samkomu í byrjun janúar og verið er að boða til einnar mestu tónlistarhátíðar vetrarins, baráttutónleika gegn áframhaldandi náttúrufórnum og álbræðslum. Þar segir í fréttatilkynningu, með leyfi forseta:

„Stórtónleikar. Náttúrufélag Íslands. Viltu verða náttúrulaus? Laugardaginn 7. janúar nk. verða haldnir sannkallaðir stórtónleikar í Laugardalshöll. Þar munu leiða saman hesta sína stórskotalið íslenskra og erlendra tónlistarmanna. Tilefnið er: Náttúra Íslands og umgengni okkar við hana. Með tónleikunum viljum við, skipuleggjendur og listamenn, beina fókusnum að þessari náttúru og að hún sé ekki sjálfsögð uppspretta raforkuvera og álvera. Er ekki kominn tími til að stöðva stíflurnar?“ — segir í fréttatilkynningu frá þessum samtökum.

Viljum við verða náttúrulaus? Viljum við að ríkisstjórn Íslands, með hæstv. iðnaðarráðherra í fararbroddi, geri Ísland náttúrulaust? Með tónleikum þessum gefst fólki tækifæri til að njóta tónlistar á heimsmælikvarða og því að sýna hug sinn í verki.

Frú forseti. Varla liðu nema nokkrar mínútur frá því að opnað var fyrir miðasölu á tónleikana þar til uppselt var. Það sýnir hvaða hug fólk, venjulegt fólk, almenningur, ungt fólk, ber til náttúru Íslands og krefst þess að nú verði sagt stopp. Við skulum ekki fórna að tilefnislausu frekari náttúruperlum, vatnsföllum, á altari álvera og stóriðju núverandi ríkisstjórnar. Eigum við ekki að segja stopp og reyna að ljúka því sem í gangi er áður en áfram er haldið?

Frú forseti. Ánægjulegt er að fólk geri sér æ betur grein fyrir að stóriðjustefnan, sem einmitt stýrir nú efnahagskerfi þjóðarinnar, skili ekki aðeins afar litlum þjóðhagslegum ábata og krefst gríðarlegra óafturkræfra náttúrufórna heldur er hún einnig að rústa grunngerð íslensks atvinnulífs, búsetu og samfélagsmunstri. Við höfum tölur um flutning fólks og stöðu atvinnulífs á Vestfjörðum, á Norðurlandi, meira að segja á Austurlandi innan ákveðinna hluta sem ekki eru í næsta nágrenni við stóriðjuframkvæmdirnar þar. Viljum við fá breytingu í grunngerð íslensks atvinnulífs sem álbræðslur úti um allt land munu kalla fram? Ég segi nei. Stór og vaxandi hópur þjóðarinnar segir nei, nú er nóg komið. Nú blæs ungt fólk til sóknar gegn blindri áltrú ríkisstjórnarinnar, græðgi og virðingarleysi fyrir náttúrunni og dýrustu perlum landsins. Við tökum undir með því unga fólki og segjum: Við viljum ekki náttúrulaust Ísland.

Frú forseti. Vinstri hreyfingin — grænt framboð getur ekki samþykkt þær áherslur sem fram koma í þessu fjárlagafrumvarpi. Frumvarpið er í samræmi við fyrri frumvörp núverandi ríkisstjórnar þó þannig að nú er enn meiri áhersla lögð á að færa þeim einstaklingum mest sem hafa mest fyrir. Staðreyndirnar tala sínu máli, samanber ný skýrsla Stefáns Ólafssonar um stöðu öryrkja. Vinstri hreyfingin — grænt framboð mótmælir þessum áherslum og vill að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna stjórnvaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar sem leitt hafa til stóraukinnar mismununar á lífskjörum fólks. Vinstri hreyfingin — grænt framboð leggur áherslu á aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags sem er að tryggja öllum þegnum þjóðfélagsins mannsæmandi lífskjör og þjóðfélagslegan rétt. Vinstri hreyfingin — grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindirnar eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Með hliðsjón af þessu er mikilvægt að efla stofnanir á þessu sviði og gera þeim kleift að sinna þýðingarmiklu hlutverki sínu. Lögð er áhersla á að framlög til þjóðgarða og friðlýstra svæða og landvörslu séu aukin. Vakin er athygli á að hvergi er ætlað fjármagn, t.d. til náttúruverndaráætlunar, sem þó hefur verið samþykkt á Alþingi. Ég leyfi mér að vísa til álits 2. minni hluta umhverfisnefndar, frá fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni.

Vinstri hreyfingin — grænt framboð leggur áherslu á að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, framlög til umhverfismála verði aukin og tekið verði upp „grænt bókhald“ þar sem meta skal út frá þeim forsendum arðsemi í rekstri og framkvæmdum. Stjórnvöld þurfa að stuðla að fjölbreyttari atvinnustefnu en nú er, stefna þeirra snýst nú nánast alfarið um að byggja hér upp erlenda stóriðju. Því miður hafa viðvaranir Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs um ruðningsáhrif þessarar stefnu reynst réttmætar.

En frú forseti. Ég treysti því að sú bylgja sem nú er að vakna meðal þjóðarinnar, meðal ungs fólks, leiði til þess að teknar verði upp breyttar áherslu í umhverfis-, náttúru- og atvinnumálum. Við viljum ekki náttúrulaust Ísland, segir þetta unga fólk sem boðar til stórtónleika til stuðnings íslenskri náttúru.

Frú forseti. Með nefndarálitinu fylgja allmörg álit áskorunar um stuðning við Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég hef rakið ýmis atriði, t.d. að skattbyrði af heildartekjum öryrkja hefur aukist verulega. Hér er einnig álit frá Félagi framhaldsskólakennara eins og ég nefndi áðan.

Frú forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar. Ég sit í fjárlaganefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs og ég ítreka að við krefjumst breyttrar stefnu, nútímastefnu, í atvinnumálum, í umhverfismálum, í velferðarmálum. Það er tími til kominn. En það gerist ekki með núverandi ríkisstjórn. Við þurfum að koma henni sem allra fyrst frá.