132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Skýrsla Stefáns Ólafssonar um málefni og stöðu öryrkja og velferð þeirra í íslensku þjóðfélagi var kynnt fyrir fáum dögum. Svo vitnað sé í niðurstöðuna er sagt á bls. 127, með leyfi forseta:

„Íslendingar virðast vera á eftir í að bjóða upp á atvinnuaukandi aðgerðir fyrir öryrkja og aðra sem eru óvirkir í atvinnulífi.“

Síðan er sagt að of litlir hvatar séu í örorkulífeyriskerfinu fyrir atvinnuþátttöku öryrkja. Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Atvinnuþátttaka öryrkja á Íslandi hefur minnkað frá 1995 til 2004, einkum hjá einhleypum öryrkjum og einstæðum foreldrum í hópi öryrkja. Það gengur þvert á þau markmið sem flestar þjóðir hafa, þ.e. að auka atvinnuþátttöku öryrkja.

Markmið laga um málefni fatlaðra frá 1992 fela í sér að lífskjör fatlaðra og öryrkja séu færð að meðalkjörum samfélagsborgaranna. Ef markmiðinu á að ná þurfa tekjur öryrkja að hækka meira en tekjur annarra vegna þess að tekjur öryrkja eru svo miklu lægri að jafnaði en tekjur annarra þjóðfélagsþegna.“

Síðan segir í skýrslunni þegar vikið er að skattbyrðinni, með leyfi forseta:

„Skattbyrði öryrkja hefur stóraukist frá 1995 um leið og stuðningur af vaxtabótum og barnabótum hefur minnkað.

Öryrkjar með lægstu tekjur voru skattlausir á fyrri hluta tímabilsins frá 1995 til 2004 en greiða nú umtalsverðan skatt af tekjum sínum, vegna raunlækkunar skattfrelsismarka.“ Og síðan kemur dæmi:

„Einhleypir öryrkjar með meðaltekjur greiddu 7,4% af tekjum sínum árið 1995 en árið 2004 greiddu þeir 17,1%. Skattbyrðin jókst á hverju ári nema árinu 2002.“

Þá eru tekin dæmi um skattbyrði öryrkja í hjúskap og af einstæðum foreldrum í hópi öryrkja o.s.frv. Allt ber þetta að sama brunni. Og áfram segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Skattbyrði einhleypra öryrkja jókst að jafnaði um 131,1% frá 1995 til 2004. Skattbyrði er mæld sem heildarskattgreiðslur öryrkja í hlutfalli af heildartekjum þeirra.“ Tekið er dæmi af 18 ára öryrkja og 40 ára öryrkja. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Gríðarleg aukning á skattbyrði hefur þannig stórlega skert kjör öryrkja á síðasta áratug. Almennt hefur tekjuþróun öryrkja verið óhagstæð frá 1995 til 2004. Markmið laganna um málefni þeirra frá 1992, um að kjör hópsins skuli færð að meðalkjörum samfélagsborgaranna hafa ekki náðst, nema síður sé. Meginástæða þess er sú að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki hækkað nógu mikið og skattbyrði öryrkja hefur stóraukist.“

Það sama á við um aldraða og hér var nefnt um skattbyrði öryrkja. Þar þyngist skattbyrðin og eldri borgarar með lágar tekjur greiða meiri skatta en áður. Persónuafsláttur hefur lækkað og skattleysismörk fylgja ekki eftir hækkun verðlags og launa. Lágtekjufólkið greiðir skatta og þeim fjölgar í hópi lágtekjufólks sem greiða skatta.

Við sitjum sem sagt uppi með skattstefnu ríkisstjórnarinnar með þeim röngu áherslum sem þar eru uppi. Áherslum sem auka á misskiptingu þegna landsins, stefnu sem verður til að hækka ráðstöfunartekjur þeirra verulega sem eru með há laun, þ.e. yfir 500 þús. kr. á mánuði eða meira, en færa lágtekjufólki örfáar krónur. Það virkar jafnvel þannig vegna lágs persónuafsláttar sem hefur ekki haldið raungildi sínu að fólk með lægstu tekjur, undir 100 þús. kr. á mánuði, greiðir nú allt að 9 þús. kr. í skatt til ríkissjóðs.

Fjölgun tekjuskattsgreiðenda í tíð núverandi ríkisstjórnar er að finna í hópi eldri borgara, í hópi öryrkja og láglaunafólks. Ríkisstjórnin vinnur að því með stefnu sinni að breikka bilið milli þjóðfélagshópanna. Hleður undir þá sem hæstar hafa tekjur en vegur að lífskjörum þeirra sem eru tekjulægri. Það er mikil þörf á að endurskoða stefnuna í skattamálum og hætta við þá stefnu sem ríkisstjórnin keyrir fram. Ég þykist vita að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin sé ekki sammála mér í þeirri niðurstöðu. En ég tel að sú útfærsla sem er í skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar þjóni ekki þeim markmiðum að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og þjóni heldur ekki nægjanlega þeim markmiðum að koma til móts við þá sem lægri tekjur hafa í þjóðfélaginu sem ég held að séu mjög nauðsynlegt í núverandi stöðu, hæstv. forseti.

Skýrslan um stöðu öryrkja í íslensku samfélagi, sem ég vitnaði til í upphafi máls, sannar að ójöfnuður er vaxandi hér á landi. Við vitum um mikla óánægju verkalýðshreyfingarinnar með hvernig mál hafa þróast hér á landi. Talað eru um að meðaltalskaupmáttur hafi aukist verulega en það er auðvitað svo að meðaltalskaupmátturinn tekur mið af þeim launabreytingum sem hafa orðið í þjóðfélaginu. Við vitum að þeir sem hafa hærri launin hafa verið að bæta við sig og það er launaskrið sums staðar í fyrirtækjum og einkum á þeim stöðum þar sem greitt er hærra kaupið. Hinir föstu samningar verkalýðshreyfingarinnar hafa jafnan gert það að verkum að í slíku ástandi dregst kaupmáttur verkamanna meira saman en meðaltalstölur sýna. Það hefur gerst hjá okkur nú og margir í verkalýðshreyfingunni telja að láglaunafólkið sitji mjög verulega eftir í launabótum. Sama á við um aldraða og öryrkja og á það hafa forsvarsmenn þeirra samtaka fært sönnur, eins og dæmin sanna.

Þess vegna er það að mínu mati mjög verðugt verkefni núverandi ríkisstjórnar að endurskoða skattastefnu sína, m.a. með það að markmiði að í stað þess að fara í flata prósentulækkun í tekjuskattinum upp á 1% og síðan 2% 2007, að skoða hvort ekki mætti koma til móts við aldraða, öryrkja og láglaunafólk á almennum vinnumarkaði með öðrum útfærslum í þessum skattalækkunum. Á þetta hefur stjórnarandstaðan öll bent og m.a. bent á hækkun persónuafsláttar. Það er mín skoðun og okkar í Frjálslynda flokknum að miklu nær hefði verið, sérstaklega eins og ástandið er núna, að setja þá fjármuni sem gert er ráð fyrir í skattalækkunum á næsta ári, sem eru 4 milljarðar kr. miðað við 1% skattalækkun, yfir í að hækka persónuafsláttinn. Ég tel að með þeim 4 milljörðum hefði verið hægt að hækka persónuafslátt á næsta ári á bilinu 2.600 til 2.800 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling. Og þá hefðum við verið að tala um nokkurn veginn sömu fjárhæð, eða um 4 milljarða króna, vegna þess eins. Með sama hætti hefði auðvitað verið hægt að taka næstum því tvöfalt það í janúar 2007 ef menn hefðu valið að fara þá leið.

Ég hygg að verkalýðshreyfingin, samtök aldraðra og öryrkja hefðu metið það talsvert ef menn hefðu farið slíka leið í skattalagabreytingunum og þannig búið til meiri jöfnuð í þjóðfélaginu. Það hefði örugglega komið þeim betur sem lægri hafa launin sem og öldruðum og öryrkjum að fá hækkun á persónuafsláttinn sem Frjálslyndi flokkurinn lagði til fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Að stefna að því að hækka persónuafsláttinn í áföngum um 10.000 kr. Það hefði verið nær frekar en að fara þá prósentutengdu flötu skattalækkun sem ríkisstjórnin vill fara og færir hátekjufólki mörg hundruð þúsund krónur á ári í auknar rauntekjur.

Við hefðum getað sleppt því að fella niður hátekjuskattinn, hæstv. forseti, og ekki setja þá forgangsröðun á undir þessum kringumstæðum að lækka sérstaklega tekjuskatt þeirra sem eru með upp undir hálfa millj. kr. á mánuði í tekjur. En þá forgangsröðun valdi ríkisstjórnin. Í skýrslu Stefáns Ólafssonar, sem ég vitnaði áður til, segir í lokin með leyfi forseta:

„Efla þarf vinnuhvata með því að gera atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega ábatasamari með minnkun tekjuskerðingar í almannatryggingakerfinu og skattaívilnunum eða öðrum aðferðum.“

Tilvitnun lýkur.

Sú skerðingarregla sem hér er vikið að er mjög ósanngjörn og heldur öldruðum og öryrkjum við fátæktarmörk þar sem allar tekjur, og þar með taldar lífeyristekjur, skerða bætur eftir 45% skerðingarreglu almannatrygginga sem eytt geta öllum bótum frá almannatryggingum til aldraðra og öryrkja. Ég vil einnig, hæstv. forseti, minna stjórnarliða á að sex sinnum höfum við í Frjálslynda flokknum á jafnmörgum þingum flutt mál um tryggan lágmarkslífeyri fólks sem gengur út á að afnema alla skerðingu á bótum almannatrygginga ef tekjur úr lífeyrissjóði eru undir 50 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingum. Síðan lögðum við til þrepaða skerðingu fyrir tekjur úr lífeyrissjóði frá 50–100 þús. kr. á mánuði þegar aftur væri komið að því að skerðingin yrði 45% eins og nú er varðandi bætur frá Tryggingastofnun. Það væri mikil kjarabót, hæstv. forseti, að slíku. Það mundi þýða að þeir sem lægstar hafa afkomutekjur hér á landi yrðu ekki fyrir þeirri bröttu skerðingu sem verður núna þegar fyrsti þúsundkallinn skerðir bætur þeirra með 45% reglunni. Það er í hvert skipti sem eldri borgari eða öryrki fær þúsund krónur til viðbótar, annaðhvort í laun eða sem bætur úr lífeyrissjóði sínum missir hann 450 kr. af bótunum frá Tryggingastofnun. Þetta finnst mér ósanngjörn regla, hæstv. forseti, og það hlýtur að vera skynsemi í að búa til einhverja þrepaskiptingu í þessar skerðingarreglur. Þannig að þeir sem lægstar hafa tekjurnar og eru í raun og veru með tekjur undir lágmarksframfærslukostnaði, eins og hann er skilgreindur í þjóðfélaginu, fái leiðréttingu sinna launa.

Á þetta er einnig mjög rækilega bent í skýrslu Stefáns Ólafssonar, eins og ég vitnaði til áðan, þar sem í lokin er minnt á hina ósanngjörnu skerðingarreglu sem öryrkjar verða fyrir og það er í raun og veru sama reglan sem gildir gagnvart öldruðum. Þarna er um að ræða hópa í þjóðfélaginu sem höfðu á árum áður oft litlar tekjur og eignuðust lítinn rétt í lífeyrissjóði, því miður. Það er þannig með marga öryrkja, þeir eiga engan rétt í lífeyrissjóði, þ.e. ef þeir hafa orðið öryrkjar á unga aldri og aldrei unnið úti á vinnumarkaðnum og þannig aflað sér lífeyrisréttinda.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig í ræðu minni að vitna til mála sem ég vék að við 2. umr. fjárlaga og við fjáraukalögin sem snúa að Landhelgisgæslu Íslands. Það var að vísu brugðist við þeirri áskorun minni að lagfæra stöðuna hjá Landhelgisgæslu Íslands með 40 millj. kr. aukafjárveitingu í fjáraukalögum ársins 2005. En ég hygg að enn þá sé staðan sú, og svo virðist vera ef marka má fréttir, að rekstrarstaða Landhelgisgæslunnar á næsta ári sé ekki tryggð. Það er okkur til vansa, hæstv. forseti, að sjá ekki til þess að Landhelgisgæslan, sem á að þjóna hér öryggishlutverki á miðum við landið og umhverfis landið og einnig inn til landsins, hafi ekki þær fjárveitingar að hún geti nokkurn veginn rekið sig í fyrirsjáanlegri framtíð. En ríkisstjórnarmeirihlutinn vill ekki bæta við þá fjármuni sem þarf til varðandi rekstur Landhelgisgæslunnar þó vafalaust komi erindi hennar inn í fjáraukalög á árinu 2006.

Hæstv. forseti. Byggðastofnun er skilin eftir í algerri óvissu. Fjárveitingar vantar ef stofnunin á að geta starfað með eðlilegum hætti. Á þessum málum er ekki tekið. Það er hins vegar tekið á málefnum Nýsköpunarsjóðs sem fær verulega aukið fjármagn en lánatap hans er mikið enda áhættufjárfestingasjóður. Byggðastofnun er einnig ætlað að taka áhættu í sínum lánveitingum en þar vill ríkisstjórnin, með byggðamálaráðherrann í fararbroddi, ekki taka á vandanum. Honum er í raun og veru ýtt inn í framtíðina. Þó hefur það verið vitað í marga mánuði að staða Byggðastofnunar væri erfið og það er lítil fyrirhyggja í þeirri byggðastefnu og byggðaútfærslu sem ríkisstjórnin sýnir í málefnum Byggðastofnunar og landsbyggðarinnar. Ætli það verði ekki að líta svo á, hæstv. forseti, að byggðastefna ríkisstjórnarinnar sé í raun og veru gjaldþrota undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra.

Varðandi samgöngumál hef ég nokkrum sinnum vikið að því hér í ræðum í haust, þegar við höfum verið að (Forseti hringir.) tala um fjárlögin.

(Forseti (SP): Til stóð að gera hlé á þessum fundi þannig að forseta leikur forvitni á að vita hversu langt hv. þingmaður á eftir í ræðu sinni.)

Þér tekst það hæstv. forseti, eftir tvær mínútur.

(Forseti (SP): Þá heldur þingmaðurinn áfram og lýkur ræðu sinni.)

Ég hef nokkrum sinnum vikið að samgöngumálum og lýst andstöðu minni við að skorið verði niður í samgöngumálum og verklegum framkvæmdum á landsbyggðinni í þeirri stöðu sem víða er uppi í hinum dreifðu byggðum landsins. Þetta hefur verið gert í ljósi þess að menn teldu að þyrfti að beita aðhaldi í ríkisfjármálunum. En það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að hin mikla þensla sem menn tala gjarnan um hér í Reykjavík finnst ekki víða á landsbyggðinni, m.a. á Vestfjörðum, Norðausturlandi og á norðausturhorni landsins. Ég hefði talið, hæstv. forseti, að falla hefði átt frá þeim 2 milljarða kr. niðurskurði sem núna er tekinn inn í verklegar framkvæmdir. Það er í raun og veru sama niðurstaða og hagsmunasamtök, t.d. á Vestfjörðum og víða annars staðar í hinum dreifðu byggðum, hafa komist að.

Hæstv. forseti. Mikil gróska og vöxtur hefur verið í kennslu og fjölgun háskóla á landinu enda væntanlega allir sammála um að framtíð okkar byggist á vaxandi og betri menntun. Ber vissulega að fagna því að kennsla á háskólastigi er að aukast. Við þurfum hins vegar að fylgja þessari þróun eftir með auknum fjárveitingum. Á það skortir hjá núverandi stjórnarflokkum og nær það bæði til framhaldsskólanna og háskólanna eins og vikið hefur verið að í ræðum og nefndarálitum stjórnarandstöðunnar nú í morgun. Við viljum efla menntun og leitast við að Háskóli Íslands fái haldið sérstöðu sinni í samanburði við erlenda og innlenda háskóla. Háskólinn á Akureyri er að þrengja að starfsemi vegna fjárskorts og við því viljum við bregðast. Leigukostnaður Háskólans á Akureyri er sérstakt vandamál sem verður að taka á sérstaklega enda málið óvenjulegt svo ekki sé meira sagt, hæstv. forseti.

Ég vil í lok ræðu minnar vísa til breytingartillagna sem við í stjórnarandstöðunni flytjum varðandi fjárveitingar til Háskólans á Akureyri en þar er lagt til að 500 millj. kr. verði settar til viðbótar við þá fjárveitingu sem gert er ráð fyrir við rekstur Háskóla Íslands. Það er gert ráð fyrir því í þessari breytingartillögu að Háskólinn á Akureyri fái 100 millj. kr. til viðbótar við það fé sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og að Kennaraháskólinn fái 150 millj. kr. til viðbótar við það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þetta teljum við að sé nauðsynlegt, hæstv. forseti, til að megi reka eðlilega starfsemi háskólanna og Kennaraháskólans hér á landi og þess vegna leggjum við þetta sem sagt til við 3. umr. þessa máls. Vonandi sjá fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna ljósið í því að það sé réttara að taka á þessu í fjárlögunum heldur en að færa þennan vanda inn í fjáraukalög næsta árs, hæstv. forseti.