132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:33]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við tökum nú til við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2006. Það má kannski segja að að mestu leyti sé efnisumræðunni um þau lokið. En þó er það svo að það er rétt að fara hér yfir nokkur mál.

Formaður nefndarinnar, hv. þm. Magnús Stefánsson, gat þess aðeins í upphafsræðu sinni hér í morgun að fjárlaganefnd hefði á undanförnum vikum og mánuðum farið í gegnum fjárreiðulögin og hvernig þau virkuðu. Fjárreiðulögin hafa verið okkur til mikilla bóta og mikill sómi að þeim og menn hafa lagt sig fram um að fara eftir þeim til að tryggja að allar fjárheimildir séu vel grundaðar og farið sé yfir hvað verið er að gera. En við höfum rekið augun í það og veitt því athygli á undanförnum árum að svokallaðar einkaframkvæmdir hafa farið hér án þess að þingið komi þar nokkurn tíma nálægt. Það er rétt, virðulegi forseti, að athuga þá hluti nokkuð nánar.

Við höfum verið í einkaframkvæmdum á ýmsum sviðum, bæði í skólamannvirkjum, skrifstofuhúsnæði og fleira. Ég er ekki með þessum orðum að segja að ég sé í sjálfu sér á móti einkaframkvæmd. En við skulum athuga að fjárreiðulögin svo og lögin um opinberar framkvæmdir eru ákaflega ströng lög. Þau eru ströng vegna þess að það er verið að koma í veg fyrir að mistök verði. Mjög mörg mistök geta átt sér stað við ákvörðun opinberra framkvæmda og frágang þeirra og þess vegna eru þessi ströngu lög. En þegar við komum að einkaframkvæmdinni þá er það reyndar þannig að Alþingi kemur þar hvergi nærri.

Við svo búið má að okkar dómi ekki standa. Og ég vil ítreka það sem hv. þm. Magnús Stefánsson sagði hér í morgun að við komumst ekki hjá því að breyta fjárreiðulögunum til að tryggja að Alþingi komi þar nærri. Vegna þess að Alþingi er jú aðilinn einn sem getur skuldbundið ríkið. Það getur enginn gert það annar.

Eitt mál varðandi þetta hefur komið hér mjög til umræðu, þ.e. rekstrargrunnur Háskólans á Akureyri vegna tæknihússins sem þeir eru með þar og menn eru með efasemdir um að það hafi verið gert ráð fyrir því á réttum tíma hver rekstrarkostnaðurinn væri. Ég segi það, virðulegi forseti, að ég á fastlega von á því að hæstv. fjármálaráðherra muni koma inn á þau mál hér á eftir.

Það er eitt svona stórt mál í gangi og hefur verið undirbúið nokkuð lengi. Það er Austurhöfnin svokallaða, þ.e. tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Samkvæmt samningi sem okkur er sagður að gerður hafi verið hefur ríkið skuldbundið sig til að borga í þeirri framkvæmd 54% af 600 millj. kr. framlagi ár hvert í 35 ár. Á núvirði mundu það vera um 11,7 milljarðar kr. Auk þess er gert ráð fyrir í þessum samningi um 3.000 millj. kr. leigusamningi til sama tíma fyrir íslensku sinfóníuhljómsveitina þannig að hér er um skuldbindingu fyrir ríkið að ræða upp á tæpar 15.000 millj. kr.

Það hlýtur öllum að vera ljóst sem lesa fjárreiðulögin og lesa stjórnarskrána að það gengur ekki að ríkið skuldbindi sig um slíkar fjárhæðir öðruvísi en að málið verði lagt fyrir Alþingi. Slíkur samningur hefur ekkert gildi öðruvísi. Ríkisstjórn getur ekki skuldbundið Alþingi, getur ekki skuldbundið ríkið nema Alþingi komi þar til og staðfesti ákvörðunina. Það er líka mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, að menn átti sig á þessu gagnvart þriðja aðilanum þeim sem ætlar að taka að sér verkið. Það er enginn samningur í gildi um þetta nema það hafi verið lagt fyrir Alþingi og Alþingi samþykki það. Alþingi samþykki þá þessar tæplega 15.000 millj. kr. fjárskuldbindingu ríkisins. Annars er hann ekki í gildi. Þannig að þriðji aðilinn stendur ekki föstum fótum í þessum samningi og getur engu treyst öðruvísi en að þetta gangi eftir. Þannig að það er rangt sem menn hafa sagt í fréttum hvað eftir annað og hefur verið talað um opinberlega að þetta mál sé afgreitt og sé í höfn, það er það alls ekki. Ekki fyrr en þetta hefur gengið fyrir, að málið hafi verið samþykkt á Alþingi. Ég bið menn að átta sig mjög vel á þessu.

Hér í umræðunni, þriðju umræðu fjárlaga, hefur það komið núna æ ofan æ að þingmenn hafa gert mjög að umræðuefni nýlega skýrslu eftir Stefán Ólafsson prófessor um örorku og velferð á Íslandi og heilmiklar fréttir hafa verið af þeirri skýrslu. Ég fékk hana ekki í hendur fyrr en fyrir tæpum sólarhring þannig að lítill tími hefur gefist til að fara yfir hana. Þó vil ég segja það hér, virðulegi forseti, að mér koma efnistök skýrslunnar mjög spánskt fyrir sjónir. Mér finnst mjög einkennilegt hvað er verið að bera saman og spurningin er, hvers vegna er verið að bera þetta saman? Skýrslan er dálítið áróðurskennd vegna þess að höfundurinn fer ekkert dult með skoðanir sínar. Hann er að berjast fyrir því að hér á Íslandi verði sams konar velferðarkerfi og er á Norðurlöndunum. Hann telur það allt til bóta en hitt til mestu vandræða. Stefán Ólafsson er ákaflega vandaður vísindamaður. Eftir hann er til mjög merkileg bók, Íslenska leiðin, sem gefin var út að mig minnir 1999 þar sem mjög vandlega er farið ofan í þetta og mjög margt skýrt í sambandi við það. Þess vegna koma efnistökin í þessari skýrslu töluvert á óvart. Ég t.d. skil ekki, sem hefur kannski verið aðalfréttin um þetta, hvers vegna menn eru að bera saman hlutfall atvinnutekna öryrkja og heildaratvinnutekjur annarra og bera það síðan saman við önnur lönd og draga af því þær ályktanir að Íslendingar beri minna úr býtum. Það kemur engin skýring fram í skýrslunni um það. Hins vegar finnst mér alveg liggja í augum uppi hvers vegna það er. Það er minnst atvinnuleysi á Íslandi. Þar eru mestir möguleikar til að sækja sér aukatekjur auk þess sem Íslendingar eru einhver vinnufúsasta þjóð í heimi og mjög fáar þjóðir leggja svo mikla vinnu á sig. Það eru kannski helst Bandaríkin sem koma þar til samanburðar.

Ég hef heyrt í fréttum að í töflu 9.5 í þessari skýrslu sé gerð grein fyrir því að ráðstöfunartekjur öryrkja á síðustu 10 árum hafa vaxið. Ráðstöfunartekjur, þ.e. tekjurnar eftir skatt og eftir leiðrétta verðbólgu, hafa vaxið um 40% sem hlýtur að teljast gríðarlega mikill vöxtur. Er ábyggilega vandfundið það land, og finnst örugglega ekki, þar sem tekjur og kjör öryrkja hafa batnað jafnhratt og jafnmikið og á Íslandi. Þetta kemur reyndar fram í töflu 10.1 þar sem verið er að bera saman, og það er í eina skiptið sem það er gert, í erlendri mynt, í evrum, tekjur á hvern íbúa. Þá kemur einmitt þetta sama í ljós. Hvergi nokkurs staðar í þeim samanburðarlöndum sem getið er um hefur verið annar eins vöxtur. 63% raunvöxtur á tekjum öryrkja á sex árum er eitthvað sem engin þjóð getur borið sig saman við. Þetta er miklu hærra en á Norðurlöndunum. Það er ekki reynt í þessari skýrslu að bera saman rauntekjurnar sem hafa vaxið mjög mikið hin seinni ár — tekjur Íslendinga eru núna áætlaðar um 1.000 milljarðar. Það mundi vera tæplega 50 þús. dollarar á mann sem er með því hæsta í heiminum. Það eru varla nema Sviss, Lúxemborg, Bandaríkin og Noregur sem eru jafnhá. Ef við gerðum þetta svona er ég viss um að það væri alveg ljóst að hvergi nokkurs staðar hafa kjör öryrkja batnað jafnhratt og mikið og á Íslandi. Það er alveg ljóst. Þess vegna er það skrýtið hvernig þessari skýrslu er hent fram og hvernig hún er meðhöndluð. Það er hægt að fara nákvæmar yfir það. Ég tel af og frá að hún sé einhver áfellisdómur um þá efnahagspólitík sem rekin hefur verið á Íslandi. Það er af og frá. Hins vegar kemur ýmislegt fram í henni sem gaman er að benda á. Ekki gaman, kannski sorglegt að benda á og mætti t.d. minnast á að það er einn þáttur í félagsmálaumhverfinu sem hefur mjög rýrnað á síðustu árum. Rýrnað. Alveg öfugt við örorkulífeyrinn sem hefur vaxið mjög hratt. Einn mjög mikill og veigamikill þáttur sem hefur rýrnað á undanförnum árum. En það er félagsaðstoð sveitarfélaga sem hefur rýrnað stórkostlega. Þar munar mest um þá miklu rýrnun á því sem hefur orðið hér í Reykjavík. Mér finnst undarlegt að heyra hér fyrrverandi borgarstjóra, sem er tiltölulega nýhætt, tala hér um smánarbletti. Sumum ferst nú að tala um en öðrum ekki. Þannig að menn skulu nú fara varlega í þessu. Mjög varlega.

Það er líka veruleg ástæða til að gera athugasemd við umfjöllun um skattamál í þessari skýrslu því þar er mjög einhliða sagt frá og einhliða farið í gegnum hlutina. Þar er margsinnis fullyrt, og hefur komið fram í ræðum manna hér í dag, að það sé hið versta mál og svívirðilegt að skattleysismörk skuli ekki fylgja launavísitölu.

Virðulegi forseti. Ég bið menn að hugsa aðeins hvernig þetta er. Menn skulu átta sig á því að í lögunum um almannatryggingar segir að örorkubætur og ellilífeyrisbætur skuli fylgja almennri launaþróun nema ef framfærsluvísitalan verður hærri, sem er aðalatriðið og ég ætla að sé einsdæmi í velferðarlöggjöf vestrænna ríkja. Hvað gerist ef framfærsluvísitalan verður hærri en launavísitalan? Það sem gerist er að kjör fólks rýrna. Kjör þjóðarinnar rýrna. Þá er kaupmáttarskerðing hjá almenningi í landinu, öllum nema öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Þetta settum við inn í löggjöfina 1997 til að tryggja það að tímabil eins og frá 1988 til 1992 kæmi aldrei aftur. En hvað gerðist á því tímabili, virðulegi forseti? Þá varð kjararýrnun í landinu. Það var svo sem ekkert við því að segja. Efnahagslífið stóð illa og það varð kjararýrnun í landinu. Kjararýrnun launþega á þessu tímabili varð 10%. En kjararýrnun öryrkja og ellilífeyrisþega varð 16%. Menn mættu nú rifja þetta upp vegna þess að sumir eiga sögu í þessu, sumir eiga fortíð. Það var þess vegna að við settum inn ákvæðið um að bætur öryrkja og ellilífeyrisþega skyldu fylgja almennri launaþróun nema þegar neysluvísitalan væri hærri. Til að tryggja þetta. Og hvað segir það í framkvæmdinni? Þær fylgja almennri launaþróun, þær fylgja ekki launaskriðinu Það er alveg rétt. Það þarf heldur engum að koma á óvart sem stendur í þessari skýrslu og enginn ætti að hneykslast á því að bætur öryrkja og ellilífeyrisþega hafi ekki fylgt launaþróuninni. Það er bara alveg rétt. Það stóð aldrei til. Ef fara ætti að taka inn í bæturnar launaskriðið í landinu, hvar ætla menn þá að enda þetta? Hvað ætla menn að gera? Trúa menn því að nú sé komið eitthvert tímabil þar sem kjör eigi aldrei eftir að rýrna á Íslandi? Trúa menn því eins og Kanarnir í Wall Street í kringum aldamótin síðustu trúðu því að nú væri komið eitthvert New Economy? Nú væri kominn sá tími þegar alltaf færi allt upp og ekkert niður. Menn trúðu þessu í nokkur ár. Menn eru hættir að trúa því núna. Auðvitað mun efnahagslíf á Íslandi sveiflast upp og niður í framtíðinni eins og efnahagslíf allra annarra þjóða og auðvitað eigum við að vera viðbúin því. En það sem við höfum girt fyrir í lögum er að öryrkjar og ellilífeyrisþegar taki aftur á sig kjararýrnun heldur geri þjóðfélagið það í heild. Þeir taki aldrei aftur á sig kjararýrnun eins og þeir urðu að gera á árunum 1988–1992. Aldrei aftur.

Um þetta er lítið getið í skýrslunni. Og ég veit ekki nema ef menn færu að hugsa málið að allir væru sammála um að sú efnahagsstefna og sú skattstefna sem við höfum fylgt sé mjög eðlilegur og mjög venjulegur keynesismi. Þegar þjóðfélagið eflist, þegar framleiðslan eykst og verðmætin aukast og vaxa, þá batna kjör fólksins. Þá á hagur ríkissjóðs líka að batna. Því það er nauðsynlegt í uppsveiflunni að hagur ríkissjóðs batni líka þannig að ríkið geti þá t.d. borgað niður skuldir sínar eins og við höfum verið að gera í stórkostlegum stíl á undanförnum árum. Skuldir sem kannski urðu til þegar harðar var í ári. En hvað gerist svo þegar kjörin rýrna? Á að fylgja launavísitölu þá? Hvernig halda menn að það yrði, virðulegi forseti, ef skattleysismörkin fylgdu þá launavísitölunni? Þá ætti ríkið að taka meira til sín þegar kjör fólks versnuðu. En það gengi alls ekki upp, það gera sér allir grein fyrir því. Því er eðlilegt þegar ládeyða er í þjóðfélaginu, þegar hagvöxturinn fer niður og kjör almennings rýrna, að þá versni kjör ríkisins líka. Ríkið á að taka þátt í því með samfélaginu og á þá, ef þörf er á, hiklaust að taka lán til að halda uppi velferðarþjónustu sinni. Ekki hika við það til að tryggja að hjól atvinnulífsins komist aftur í gang til að viðhalda kjörum og þeirri þjónustu sem við viljum að ríkið standi fyrir við borgarana.

Þetta er ekkert mjög flókið ef menn hugsa þetta. Ef menn átta sig á því að það eru tvær hliðar á þessum peningi eins og öllum öðrum, það er bæði uppsveiflan og niðursveiflan. Það verður að vera samhengi í því sem menn eru að gera og hugsa. Þannig hefur þetta verið sett upp og þannig gengur það fram.

Ellilífeyrisþegar og öryrkjar fylgja þannig almennri launaþróun í landinu, þ.e. þeim taxtabreytingum og þeim samningum sem gerðir eru í uppsveiflunni. Þegar niðursveiflan verður og kjörin rýrna þá er tryggt að þeir fylgja neysluvísitölunni. Kjör þeirra versna ekki. Þetta er jafnstaðan. Þannig höfum við rætt um þetta, þannig tölum við um þetta og þannig teljum við að við tryggjum þessum aðilum öruggt skjól því þeir geta síst bjargað sér þegar harðnar á dalnum.

Það er hins vegar enginn vandi að koma og segja: Það þarf að bæta þetta. Menn hafa ekki nóg. Þeir sem hafa lægstu launin hafa ekki nóg laun. Auðvitað er það rétt, virðulegi forseti. Auðvitað þurfa þeir sem hafa lægstu launin að fá meiri laun. En hvernig er það gert? (Gripið fram í: Að skattleggja þá.) Það er ein leið til þess í sögu mannkynsins að bæta kjör fólks. Það er að auka verðmætasköpunina í samfélaginu. Það höfum við gert með því að tryggja atvinnulífinu það starfsumhverfi að það hefur getað vaxið, eflst og þróast hraðar og betur á Íslandi en í öðrum nágrannalöndum okkar. Það er grundvöllurinn fyrir því að við getum búið til og byggt upp velferðarkerfi sem stendur traustum fótum.

Í góðri bók sem ég gat um áðan eftir Stefán Ólafsson, þar sem hann fer yfir velferðarkerfi Evrópuríkjanna, gerir hann mjög vel grein fyrir því að í mjög mörgum Vestur-Evrópuríkjum stendur velferðarkerfið á algerum brauðfótum og menn standa frammi fyrir því að geta ekki leyst þau lífeyrisvandamál sem þar hrúgast upp. Þetta á líka við um Japan og fleiri iðnríki. Það er ekkert getið um það í þessari skýrslu, en þannig er það. Flestöll Evrópuríki standa í þeim sporum núna að þau verða og hafa þegar hafist handa við að rýra kjör, að rýra það sem velferðarkerfið hefur búið fólki, af því þau hafa ekki efni á að standa undir því. Því er verið að reyna að lengja lífeyrisaldurinn, minnka þetta og gera alls konar ráðstafanir og þess vegna eru alls konar deilur uppi því enginn vill náttúrlega samþykkja það. Þetta verður mjög erfitt og allir gera sér grein fyrir því. Þetta verður mjög erfitt viðfangsefni. Hér á Íslandi stendur velferðarkerfið og sá mikli vöxtur sem verið hefur í því, meiri en annars staðar og hraðari, mjög traustum fótum efnahagslega. Fá ríki Evrópu geta státað af jafnstyrkri stöðu ríkisins og Ísland. Mjög fá.

Og komi menn nú og segi réttilega að auðvitað þurfi að bæta kjör fólks þá kemur upp spurning sem menn verða líka að svara: Hver á ekki að hækka? Hver á ekki að hækka í samfélaginu? Hvað með verkafólk í landinu? Hvað með verkakonur í landinu? Hvað með það fólk sem í sveita síns andlitis stendur alla daga undir framleiðslunni á Íslandi? Hvaða kjör er hægt að bjóða því? Hverju standa íslensk framleiðslufyrirtæki undir að geta borgað sínu verkafólki? Á ekki að hækka það? Hver á þá ekki að hækka? Menn skulu hugsa þetta aðeins nánar. Auðvitað þurfa allir að hækka. Það gefur augaleið. Hér á landi var mikið verkfall í fyrra þar sem sanngjarnir menn og réttrúaðir bentu á að auðvitað þyrftu kennarar að hækka meira en aðrir o.s.frv. Ég sé ekki betur en að Reykjavíkurborg hafi verið að semja um það við umönnunarstéttir í nótt að þær þyrftu að hækka meira en aðrir o.s.frv. Hér hefur stjórnarandstaðan haldið ræður. Í hverri ræðunni af annarri hafa menn bent á að auðvitað þurfi að stórauka framlögin í hitt og þetta, í alla mögulega málaflokka. Auðvitað er þetta allt saman satt og rétt, virðulegi forseti. Auðvitað þarf að auka og efla og hækka og stækka og betrumbæta hvað sem er. Auðvitað er það allt saman rétt.

Umræðan um efnahagsmál og verðbólgu síðustu missirin er farin að nálgast það að líkjast meira umræðu um trúarbrögð en efnahagsmál. Ég hef reynt að forðast hana vegna þess að mestu vitringarnir geta alltaf dregið upp einhverjar gamlar guðsorðabækur orðum sínum til staðfestingar. Ég minni samt á, ég held að menn séu búnir að gleyma öllu sem þeir áttu að kunna, að í 20 ár var krónísk verðbólga á Íslandi. Við kunnum að fletta upp á því tímabili þegar laun fólksins hækkuðu um 10.000% en kjör þess versnuðu um 1%. Eru allir búnir að gleyma þessu? Mér er nær að halda að svo sé. Það eru allir búnir að gleyma þessu. Og hver er umræðan um efnahagsmálin og verðbólguna? Hún er í einhverju guðsorðatali og einhverri mikilli speki, en allir búnir að gleyma orsökinni. Það var bara ein orsök fyrir því hvers vegna Ísland lá í krónískri verðbólgu sjálfu sér til hins mesta ósóma og hélt niðri kjörum á Íslandi og kom í veg fyrir að íslensk fyrirtæki gætu vaxið og dafnað. Hver var ástæðan? Það var ein ástæða fyrir þessu öllu saman. Hún var sú að Íslendingar, allir upp til hópa, gátu ekki hamið sig. Gátu ekki hamið langanir sínar og vilja til að hækka, betrumbæta, stækka og auka eitt sem annað og engin undantekning þar á. Það var ástæðan fyrir ógæfunni og engin önnur. Það er þannig, virðulegi forseti, að það hvarflar aðeins að mér, bæði á morgnana og kvöldin, að við séum svona við það að komast í sama stand, búin að gleyma öllu, á góðri leið með að koma okkur í sama farveginn aftur. Ég heyrði einu sinni sagt, virðulegi forseti, eftir frægum bankamanni og þekktum sem þekkti vel til Íslands að Íslendingar væru örugglega duglegasta þjóð í heimi að koma sér út úr vandræðum en þann skugga bæri víst á að trúlega væri hún jafndugleg að koma sér í vandræði aftur. Það hvarflar að mér að þetta tímabil sé að renna upp. Þannig tala menn hver ofan í annan og allir hafa rétt fyrir sér, það á auka, efla, stækka, hækka.

En menn mega ekki gleyma því aðalatriði að það er íslensk framleiðsla sem stendur undir þjóðfélaginu. Það er vegna framleiðslunnar og arðsins af framleiðslunni sem við getum byggt upp velferðarþjóðfélag. Við erum velferðarþjóðfélag af því við höfum vaxið hraðar og betur en aðrir. Þess vegna höfum við getað aukið framlögin til velferðar meira og hraðar á undanförnum árum en aðrar þjóðir. Og hvenær sem við gleymum því er hætt við að við lendum úti í skurði, lendum úti í móa eins og við gerðum forðum tíð. Við erum á mjög góðri leið, það gengur mjög vel. Það sem skiptir þó höfuðmáli í dag, virðulegi forseti, er að við höldum stillingu okkar. Förum ekki of hratt, pössum okkar á því að reyna að hemja þær kröfur sem við gerum til sjálfra okkar, til samfélagsins og alls umhverfisins, reynum að átta okkur á því að við erum, örfá, meðal þeirra þjóða sem hafa það best í heiminum. Það er enginn vandi að benda á að betrumbæta þurfi hitt og þetta, en aðferðin er bara ein og hún sú er að treysta og efla íslenska framleiðslu og sjá til þess að samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega sé með því besta sem gerist í heiminum. Þannig og aðeins þannig getum við bætt kjör þjóðarinnar. Á þeirri vegferð höfum við verið og á þeirri vegferð ætlum við að vera.