132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:01]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að sú skattalækkun sem ríkisstjórnin stendur fyrir er mjög af hinu góða. Ég er í engum vafa um að hún hefur örvað mjög þetta þjóðfélag. Vinstri menn verða að gera sér grein fyrir því að einmitt með því að lækka skattana er verið að örva vilja fólks til að vinna fyrir þetta þjóðfélag. Það hefur gerst á Íslandi. Það hefur gerst í mjög stórum stíl og þannig höfum við séð þetta þjóðfélag vaxa hraðar en nokkurt þjóðfélag í kringum okkur. (KolH: Skattleggja öryrkja.) Þannig erum við ekki á nokkurn hátt að eyðileggja ríkissjóð eins og þeir vilja meina. Ríkissjóður er mjög sterkur á Íslandi, mjög sterkur, og við höfum notað þetta tímabil til að lækka skuldirnar mjög mikið eins og við eigum að gera á slíkum tímum. Ég tók það líka fram, virðulegi forseti, að ef að kreppti væri ekkert að því að ríkið tæki stórlán ef á þyrfti að halda til að (Forseti hringir.) halda uppi þeirri velferð sem við viljum hafa.