132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:04]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það komi hér fram að í sjálfu sér hef ég ekkert á móti einkaframkvæmd. Hins vegar verður Alþingi, löggjafinn sem einn getur skuldbundið ríkið, alltaf að sjá til þess að þær skuldbindingar sem ríkið gengst undir komi til meðferðar þingsins til að tryggja að rétt sé á haldið, til að tryggja að menn viti hver skuldbindingin er, geri sér grein fyrir hvað hún kostar á hverjum tíma. Það er mjög nauðsynlegt og ég vænti þess, virðulegi forseti, að við fáum hér þverpólitíska samstöðu um að breyta fjárreiðulögunum til að koma í veg fyrir að slíkt framhjáhlaup, eins og ég kalla sumar einkaframkvæmdirnar sem hafa farið hér fram á undanförnum árum, endurtaki sig. Það er ekki einkaframkvæmdin sjálf heldur framhjáhlaupið gagnvart hinum löglega aðila, sem er löggjafinn, sem þarf að fylgja eftir. Því löggjafinn einn getur gengið úr skugga um að rétt sé með höndlað og rétt á haldið og tryggt þannig fjármuni ríkisins. Alþingi ber jú ábyrgð á fjárreiðum ríkisins.