132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:10]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. varaformaður fjárlaganefndar er kjarkaður maður að standa hér og verja þessa grófu aðför stjórnarflokkanna að kjörum lífeyrisþega á undanförnum 10 árum. Sú bók sem hv. þingmaður vitnar hér í er svartasti bletturinn sem við höfum séð í tíð þessarar ríkisstjórnar og er þó af nógu að taka. Veit hv. þingmaður ekki og sá hann það ekki í skýrslunni að við verjum t.d. minnst allra Norðurlandabúa til útgjalda öryrkja og lífeyrisþega? Veit hv. þingmaður að við erum í þessari skýrslu sett á bekk með þeim þjóðum sem búa verst að öryrkjum? Hvernig sem á málið er litið. Hvaða mælikvarðar sem eru notaðir. Hvort sem það er kaupmáttur, skattbyrði eða annað. Og kaupmáttur lífeyrisþega hefur vaxið miklu minna en annarra þjóðfélagshópa. Skattbyrði öryrkja hefur aukist miklu meira en hjá öðrum þjóðfélagshópum. (Forseti hringir.)