132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:11]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega rangt. Þetta bara stendur ekkert í þessari skýrslu. Það segir enga sögu, virðulegi forseti, þó að borin sé saman verg landsframleiðsla í hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Hún er mjög mismunandi. Við eigum eftir 50 þúsund dollara á mann meðan aðrar þjóðir eiga kannski 10, 15 og 20 þúsund dollara. Það segir heldur enga sögu öðruvísi en að við hliðrum tölunum miðað við það hvernig samsetningin er í þjóðfélaginu. Við erum yngsta samfélagið. Hér geta menn komið eins og í morgun og í gær og í fyrradag, hliðrað til öllum tölum og sagt: Það verður að hliðra þessu til svo að við fáum rétta mynd af framlögum til menntamála. Af því að við erum yngsta samfélagið. En svo þegar við komum að heilbrigðismálunum og þessu, nei þá á ekki að hliðra tölunum til. Það gildir nákvæmlega það sama. Á hvaða mælikvarða sem er í erlendri mynt — sem er ekki sett hér inn — mundi koma í ljós að Ísland er með alfremstu ríkjum í þessu máli, ekki öfugt. (Forseti hringir.)